Risastór fjárfesting í innviðum bæjarins

Undanfarna mánuði hefur verið unnið að ljósleiðaravæðingu Vestmannaeyja. Vestmannaeyjabær stofnaði fyrirtækið Eygló ehf. sem heldur utan um framkvæmdina og þjónustuna í framhaldinu.

Búið að opna fyrir ljósið í fyrsta hverfinu

Njáll Ragnarsson er formaður Eygló ehf. Hann segir aðspurður að staðan í dag sé sú að dreifbýlið sé tengt og jarðvegsframkvæmdir eru í fullum gangi í austurbænum. Þar á eftir að klára syðstu svæðin, þ.e. Gerðin og hverfið í kringum Skeifuna. Hann segir þær framkvæmdir hafa gengið vel eftir að snjóa leysti.

„Vestur í bæ hafa framkvæmdir gengið mjög vel og er blástur inn í hús að klárast. Opnað hefur verið á tengingu við ljósleiðara í Dverghamri 15-41 og ég hvet íbúa í þeim húsum að hafa samband við sitt fjarskiptafyrirtæki og skipta yfir í ljósið. Ein helsta ástæðan fyrir því að byrjað var í þessum hverfum var hversu slæm nettenging var þar fyrir og því er full ástæða fyrir íbúa í Dverghamri til þess að gleðjast!

Á komandi vikum verður síðan opnað fyrir ljósið í þeim hverfum þar sem lagningu er lokið og aðeins tengingin eftir. Það verður auglýst nánar á vefsíðu bæjarins þegar það er klárt.“ segir hann.

Heildarkostnaður áætlaður 700 – 800 milljónir

Að sögn Njáls er kostnaðurinn í dag kominn í um 180 milljónir. „Eins og áður segir hefur vel gengið að klára fyrstu tvo af sex áföngum verkefnisins. Í upphafi var heildarkostnaður áætlaður á milli 700 – 800 milljónir og eins og staðan er í dag er verkefnið á áætlun.“

Komið í öll hús bæjarins 2025

Njáll_2_ads_22
Njáll Ragnarsson

Hann segir að miðað við hvernig verkefnið hafi gengið hingað til þá hefur hann trú á því að búið verði að leggja ljósleiðara í öll hús bæjarins á árinu 2025.

„Upphaflega planið var að klára á fyrri hluta næsta árs en við þurfum þó að hafa í huga að þetta er gríðarlega stórt og metnaðarfullt verkefni.

Að því sögðu er ég ánægður með hvernig verkið hefur unnist, ekki síst vegna þess að verktakar sem við fengum í framkvæmdina eru vel tækjum búnir og ganga rösklega til verks.“

Stórbætir búsetuskilyrði

Aðspurður um hvort hann vilji koma einhverju á framfæri vegna þessa til bæjarbúa segir Njáll að í fyrsta lagi vilji hann hvetja bæjarbúa til þess að kynna sér teikningar af lagnaleiðum í hús sem auglýstar voru á vef Vestmannaeyjabæjar 15. mars.

Hann segir jafnframt að þótt ekki sé víst að mögulegt sé að breyta fyrirhugaðri lagnaleið er alltaf reynt að koma til móts við húseigendur.

„Í öðru lagi vil ég þakka bæjarbúum fyrir þolinmæðina gagnvart framkvæmdunum. Þetta hefur óhjákvæmilega í för með sér rask þar sem framkvæmdir standa yfir en þrátt fyrir það hafa verktakar gengið ótrúlega vel frá eftir sig og eiga þeir hrós skilið fyrir það.

Að lokum vil ég segja að ástæða þess að Vestmannaeyjabær ákvað að ráðast í verkefnið var sú að það var fyrir löngu tímabært að setja kraft í að tengja hús í Eyjum við ljósleiðara. Þegar upp er staðið er þetta verkefni risastór fjárfesting í innviðum bæjarins sem stórbætir búsetuskilyrði Vestmannaeyinga.“ segir Njáll Ragnarsson.

Eygló ehf. opnar fyrir sölu

Nýjustu fréttir

Vinsælast

Vinsælast