Sigurgeir sæmdur heiðursmerki hinnar íslensku fálkaorðu

Guðni Th Jóhannesson, forseti Íslands sæmdi í dag, nýársdag 14 Íslendinga heiðursmerki hinnar íslensku fálkaorðu við hátíðlega athöfn á Bessastöðum. Einn af þeim sem sæmdur var heiðursmerkinu var Sigurgeir Jónasson. Hlaut hann riddarakross fyrir störf á vettvangi ljósmyndunar og varðveislu heimilda í heimabyggð.

Sigurgeir er fæddur í Vestmannaeyjum þann 19. September 1934. Alla sína ævi hefur Sigurgeir verið búsettur í Eyjum og lengst af tvinnað saman atvinnu sína og áhugamál í ljósmyndun.

Ungur að árum hóf Sigurgeir að taka ljósmyndir og þá helst af viðburðum er áttu sér stað í Vestmannaeyjum. Fyrstu myndir hans birtust í fjölmiðlum, þegar hann var aðeins 13 ára gamall. Allt frá þeim tíma hefur Sigurgeir fengist við fréttaljósmyndun fyrir dagblöð og tímarit og eru margar mynda hans mikilvægar heimildir um viðburði í sögu Vestmannaeyja svo og sögu Íslands. Má þar nefna ljósmyndir frá eldgosum, atvinnuháttum, sem nú heyra sögunni til, svipmyndir af samtíðarmönnum og þannig mætti lengi telja. Ljósmyndir hans tengdar fiskveiðum og fiskvinnslu á hálfrar aldar tímabili er ómetanlegur fjársjóður horfinna tíma og þá vekja eldri ljósmyndir af íbúum bæjarins ætíð mikla athygli.

Sigurgeir hefur einnig haft sérstakan áhuga á óviðjafnalegri fegurð náttúru Vestmannaeyja, dýra- og fuglalífi þeirra og fjölbreytilegu mannlífi. Í safni hans er gríðarlegur fjöldi ljósmynda af einstökum listaverkum náttúrunnar. Með athugulum augum hefur Sigurgeir náð að festa á mynd ótrúlega skúlptúra og form, sem almenningi yfirsést í daglegri umgengni við umhverfi sitt, segir í umfjöllun um ljósmyndarann knáa á vefnum Sigurgeir.is.

Þau sem hlutu heiðursmerki hinnar íslensku fálkaorðu í dag eru:

  1. Anna Hjaltested Pétursdóttir, formaður Mæðrastyrksnefndar, riddarakross fyrir framlag til mannúðar- og samfélagsmála.
  2. Anna Sigríður Þorvaldsdóttir tónskáld, riddarakross fyrir framlag til tónlistar á íslenskum og alþjóðlegum vettvangi.
  3. Arnar Hauksson, læknir, dr.med., riddarakross fyrir framlag til heilbrigðis kvenna og stuðning við þolendur kynferðisofbeldis.
  4. Cathy Ann Josephson ættfræðingur, riddarakross fyrir framlag til menningarmála í héraði og að efla tengsl við Vestur-Íslendinga.
  5. Eva Elvira Klonowski réttarmannfræðingur, riddarakross fyrir störf á sviði réttarlæknisfræði á Íslandi og sem réttarmannfræðingur á alþjóðavettvangi, m.a. í þágu fórnarlamba stríðsátaka.
  6. Garðar Víðir Guðmundsson verslunarmaður, riddarakross fyrir framlag til íþrótta- og félagsstarfs.
  7. Hafberg Þórisson, garðyrkjumaður og forstjóri, riddarakross fyrir frumkvöðlastarf í ræktun og vistvænni grænmetisframleiðslu.
  8. Héðinn Unnsteinsson, stefnumótunarsérfræðingur og rithöfundur, riddarakross fyrir störf í þágu geðheilbrigðismála.
  9. Nína Dögg Filippusdóttir leikkona, riddarakross fyrir framlag til leiklistar og sjónvarpsþátta- og kvikmyndagerðar.
  10. Ólafur Þ. Harðarson, fyrrverandi prófessor, riddarakross fyrir rannsóknir og þekkingarmiðlun á sviði stjórnmálafræði.
  11. Vilborg Arnarsdóttir verslunarstjóri, riddarakross fyrir sjálfboðastörf við uppbyggingu fjölskyldugarðs í heimabyggð.
  12. Sigurgeir Jónasson ljósmyndari, riddarakross fyrir störf á vettvangi ljósmyndunar og varðveislu heimilda í heimabyggð.
  13. Unnur Anna Valdimarsdóttir prófessor, riddarakross fyrir framlag til rannsókna á sviði faraldsfræði.
  14. Örn S. Kaldalóns kerfisfræðingur, riddarakross fyrir frumkvöðlastarf við eflingu íslenskrar tungu í tölvu- og upplýsingatækni.

Nýjustu fréttir

Vinsælast

Vinsælast