Breytingar hjá Strætó á landsbyggðinni um áramótin

Þann 1. janúar urðu nokkrar breytingar á skipulagi almenningsvagna í framhaldi af útboði Vegagerðarinnar í vor. Nýir aðilar taka við akstri flestra leiða nema á Austurlandi og Vestfjörðum. 

Vegagerðin annast skipulag almenningssamgangna á landsbyggðinni. Hún sér þannig um skipulag á akstri almenningsvagna á milli sveitarfélaga og þéttbýlissvæða, á rekstri ferja og að haldið sé úti flugi á ákveðna staði.

Akstur almenningsvagna á landsbyggðinni hefur á undanförnum árum verið á herðum margra verktaka en rekstur hefur miðast við hverja akstursleið fyrir sig. Til að einfalda rekstur og fá betri yfirsýn yfir hvert landsvæði var ákveðið að bjóða út akstur á landsbyggðinni með nýjum hætti síðastliðið vor, að því er segir í frétt á vef Vegagerðarinnar.

Sjá einnigÁætlun Strætó ekki í samræmi við nýja áætlun Herjólfs

Ríkiskaup fór með umsjón útboðsins fyrir hönd Vegagerðarinnar. Útboðið var í fjórum hlutum: Vestur- og Norðurland, Norður- og Norðausturland, Suðurland og Suðurnes. Hægt var að senda inn tilboð í einstaka hluta útboðsins eða alla fjóra.

Niðurstaðan var að taka tilboði Hópbíla um Vestur- og Norðurland, Suðurland og Suðurnes, og tilboði SBA um Norður- og Norðausturland.

Hér fyrir neðan eru breytingar sem verða gerðar hjá Strætó á Suðurlandi frá og með 1. janúar 2021. 

Suðurland:

Leið 51:

  • Föstudagsferðirnar kl. 14:50 frá FSU til Hvolsvallar og kl. 15:48 frá Hvolsvelli til FSU verða lagðar niður.
  • Akstur hættir á milli Víkur í Mýrdal og Hafnar í Hornafirði á miðvikudögum.

Leið 71:

  • Ferðirnar kl. 17:48 frá Þorlákshöfn til Hveragerðis og kl. 18:10 frá Hveragerði til Þorlákshafnar hætta akstri. Síðasta ferð dagsins verður kl. 16:22 frá Hveragerði til Þorlákshafnar.

Leið 72:

  • Hættir akstri á sunnudögum.

Allar nánari upplýsingar er að finna á heimasíðu Strætó bs., www.straeto.is.

Nýjustu fréttir

Vinsælast

Vinsælast