Verðmæti góðra hugmynda

Eins og kunnugt er bilaði Vestmannaeyjastrengur 3 (VM3) í vetur. Þá voru góð ráð dýr, enda í vændum mesti álagstíminn með loðnuvertíð.  Ljóst var að brenna þyrfti verulegu magni af díselolíu til þess að anna álaginu í Eyjum, segir í umfjöllun á facebook-síðu Landsnets.

Þá segir að  nokkrir starfsmenn Landsnets hafi þá fengið hugmynd hvort ekki mætti nýta þá tvo fasa, sem óskemmdir voru, úr Vestmannaeyjastreng 3 (VM3) og búa til þriðja fasann úr tveimur heilum fösum í Vestmannaeyjastreng 2 (VM2).

Hugmyndin var rædd innanhúss hjá Landsneti og fundust engir meinbugir á og því ákveðið að láta á reyna. „Nýi“ strengurinn, kallaður VM23, var spennusettur á 11 kV og keyrður hægt og rólega upp. Þessi strengur, VM23, var síðan í rekstri fram í júlílok. Um hann voru flutt á bilinu 3-5 MW að jafnaði, alls um 11 GWh af orku yfir allt tímabilið frá febrúar til ágústbyrjunar.

Nú er viðgerðinni á Vestmannaeyjastreng 3 (VM3) lokið og því ekki úr vegi að skoða hvað þessi snilldarhugmynd, VM23, hefur þýtt með tilliti til sparnaðar í díselkeyrslu og tilheyrandi losun.

Eins og áður sagði flutti VM23 um 11 GWh af raforku á meðan hann var í rekstri. Á meðan var flutningsgeta Vestmannaeyjastrengs 1 því sem næst fullnýtt (7 MW). Ef VM23 hefði ekki verið til staðar hefði þurft að framleiða þessar 11 GWh með díselolíu. Til þess að framleiða 11 GWh af raforku með dísel þarf um það bil 2,7 milljónir lítra af díselolíu. Bruni þess magns losar um 7.400 tonn af CO2 út í andrúmsloftið. Sé því snúið yfir í eitthvað sem við þekkjum jafngildir þetta árlegri losun um það bil 3.800 einkabíla.

Ef að greitt er um 200 krónur fyrir lítrann af díselolíu – þá hefði farið rúmlega hálfur milljarður í olíukaup á þessu tímabili.

Þessi einfalda hugmynd reyndist því, þegar upp er staðið, gríðarlega heilladrjúg – fyrir Landsnet, Vestmannaeyinga og losunarbókhald Íslendinga. Það er ekki úr vegi að skila stóru hrósi til þeirra sem komu að því að finna þessa verðmætu lausn, segir að endingu í pistlinum.

Nánari umfjöllun um hugmyndina er hér að neðan.

Nýjustu fréttir

Vinsælast

Vinsælast