Stefnt á að taka strenginn í rekstur nk. miðvikudag

Enn er þess beðið að hægt sé að klára vinnu við Vestmannaeyjastreng 3. Bæði hafa bilanir viðgerðaskipa, sem og veður seinkað viðgerð.

Nú er skipaflotinn kominn í lag en beðið er betra veðurs svo hægt sé að halda áfram vinnunni á sjó.

Að sögn Steinunnar Þorsteinsdóttiur, upplýsingafulltrúa Landsnets lítur veðurspá eftir morgundaginn vel út og er fyrirhugað að skipið fari út aftur aðfararnótt föstudags.

„Gangi það eftir og tengivinnan vel má búast við að tengivinnu ljúki á mánudagskvöld og að hægt verði að taka Vestmannaeyjastreng 3 í rekstur á miðvikudag. Á meðan við bíðum eftir veðurglugga þá erum við að vinna á sandinum þannig að allt verði tilbúið þegar kemur að tengingu í landi.“ segir hún í samtali við Eyjar.net.

Aðspurð um strenginn sem verið er að setja niður innan hafnar í Eyjum segir Steinunn að þetta sé afgangsstrengur sem geyma á í sjó. „Við vorum að fleyta honum frá viðgerðaskipinu, og munum nota næstu daga til að klára þann frágang.“

Nýjustu fréttir

Vinsælast

Vinsælast