Pramminn bilaður

Töf er á viðgerð á Vestmannaeyjastreng 3 vegna bilunar í viðgerðarskipinu Henry P Lading.

Steinunn Þorsteinsdóttir, upplýsingafulltrúi Landsnets segir í samtali við Eyjar.net að pramminn hafi komið til hafnar í Vestmannaeyjum seint á þriðjudagskvöld eftir að búið var að klippa á nýja strenginn og leggja endann í sjóinn.

Sérfræðingur á leið frá Danmörku

„Í gær var uppsetningu um borð breytt til að undirbúa tengivinnu og einnig var tengimúffan sett um borð. Þeirri vinnu lauk seinnipartinn í gær og lagði skipið af stað úr höfn í gærkvöldi. Á leið út úr höfninni kom upp bilun í vindu og var skipinu snúið aftur að bryggju. Bilanagreining leiddi í ljós að líklega er um að ræða bilun í forriti sem stýrir vindum fyrir akkerin og er sérfræðingur á leið frá Danmörku til að yfirfara forritið. Vonir standa til að hægt verði að lagfæra villu í forriti á stuttum tíma og að skipið verði tilbúið til að fara út í nótt.“ segir Steinunn.

Þurfa þriggja sólarhringa veðurglugga

Að sögn Steinunnar er veðurspá morgundagsins ekki góð og hugsanlega verður að bíða með að fara á viðgerðarstað þar til seinni partinn á morgun. En veðurútlit helgarinnar er ágætt.

„Fyrir næsta fasa þarf að vera veðurgluggi í a.m.k. þrjá sólarhringa þannig að tengivinna klárist og hægt verði að setja viðgerðarmúffuna í sjóinn. Viðgerð gæti því í besta falli lokið á mánudagskvöld og þá þarf að tengja landmúffu sem líklega tekur einn dag en talsverður undirbúningur hefur verið gerður við tengistað landmúffu til að stytta þann tíma sem sú tenging tekur.  Ef að allt fellur með okkur gætum við hugsanlega spennusett strenginn á þriðjudagskvöld.

Við fylgjumst auðvitað vel með veðurspám og fer skipið út um leið og nægjanlegur veðurgluggi er fyrirséður að því gefnu að takist að gera við vinduna á skömmum tíma.“ segir Steinunn Þorsteinsdóttir, upplýsingafulltrúi Landsnets.

 

Nýjustu fréttir

Vinsælast

Vinsælast