Hollvinasamtök Hraunbúða hljóta viðurkenningu

Árlega veitir Öldrunarráð Íslands sérstaka viðurkenningu til einstaklings, stofnunar eða félagasamtaka sem þykja hafa unnið einstakt starf tengt málefnum aldraðra.

Í ár voru það Hollvinasamtök Hraunbúða sem fengu viðurkenningu Öldrunarráðs.

Eins og flestir Eyjamenn vita eru hollvinasamtökin félag sem styrkir hjúkrunarheimilið Hraunbúðir í Vestmannaeyjum með gjöfum og ýmsum viðburðum fyrir íbúa og aðstandendur. Félagið var stofnað í byrjun árs 2017 og er tilgangur félagsins að bæta aðstöðu og upplifun heimilisfólksins á Hraunbúðum. Það hefur svo sannarlega verið gert allt frá stofnun.

Dægrastytting og bætt aðstaða

Samtökin standa fyrir árlegum viðburðum eins og vorhátíð, páskabingói, þrettándakaffi og sunnudagsbíltúrum. Til að bæta aðstöðu heimilisfólks hefur félagið meðal annars gefið hjólastóla, loftdýnur, lífsmarkamæli, tæki til að taka hjartalínurit, nuddstól, hreyfiskynjara inn á hvert herbergi, sjónvarpskerfi, hátalarakerfi, spjaldtölvur og heyrnatól. Einnig sáu samtökin um að innrétta aðstandendaherbergi og hvíldarherbergi.

Óhætt er að segja að hollvinasamtökin séu vel að þessari viðurkenningu komin fyrir sitt góða og mikilvæga starf í þágu íbúa og aðstandenda heimilisfólksins á Hraunbúðum í Vestmannaeyjum, en það var Thelma Tómasdóttir sem sendi Öldrunarráði ábendingu um öflugt starf samtakana í Eyjum.

Fjölbreytt starf fyrir heimilsfólkið á Hraunbúðum

Á liðnu ári stóðu samtökin m.a. fyrir þrettándagleði með kaffi, heitu súkkulaði og bakkelsi og þangað komu jólasveinar og verur úr þrettándagöngu bæjarins, páskaeggjabingói fyrir heimilisfólk og aðstandendur, vorhátíð með grilli, tónlistaratriði, happdrætti og fjöri.

Þá voru tveir tónlistarviðburðir í boði í goslokavikunni, þar á meðal Eyjólfur Kristjánsson. Konukvöld/síðdegi með fatasölu, snyrtivörukynningu, tónlistaratriði og veitingum Jólatónleikar, kaffi og meðlæti. Jólahlaðborð og tónlistaratriði og jólaljósa bíltúr þar sem farið var með fólkið í rútu að skoða jólaljósin í bænum.

Hvetur okkur í að gera gott heimili enn betra

Að sögn Halldóru Kristínar Ágústsdóttur, formanns samtakana eru forsvarsmenn félagsins afskaplega þakklát fyrir viðurkenninguna. „Þetta hvetur okkur áfram í okkar störfum við að gera gott heimili enn betra.”

Halldóra Kristín vill nota þetta tækifæri til að hvetja Eyjamenn til að ganga í Hollvinasamtökin. „Þetta er ósköp einfalt, fólk gerist félagi og greiðir 3000 krónur í árgjald.” segir hún, en hér má skrá sig í félagið (senda skilaboð) og eins er hægt að senda póst á hallda78@gmail.com.

Þá segir hún að þau séu alltaf að leita fleiri leiða til að gleðja fólkið á Hraunbúðum og tökum við fagnandi á móti ábendingum fá bæjarbúum og aðstandendum um hvað sé hægt að bjóða uppá.

vidurkenning_hollvinasamt_hraunb

Fékk nokkur fyrirtæki í bænum með sér í lið

Spurð út í hvernig samtökin hafi komist á koppinn segir Halldóra að hún hafði innréttað aðstandendaherbergin á Hraunbúðum.

„Afi minn fór í hvíldarinnlögn og mér fannst herbergin eitthvað svo kuldaleg og óaðlaðandi.  Ég fékk nokkur fyrirtæki í bænum með mér í lið og málaði og gerði herbergin hlýlegri. Eftir þetta kom Sólrún Gunnarsdóttir, (þáverandi deildarstjóri á Hraunbúðum) að máli við mig og kom með þessa uppástungu, að stofna Hollvinasamtök Hraunbúða.“ segir hún og bætir við:

„Á þessum tíma var amma mín, Halldóra Kristín Björnsdóttir íbúi á heimilinu og fékk ég Dadda (Bjarna Ólaf Guðmundsson) í þetta með mér, við fengum svo Mara pípara, Kristínu Magnúsdóttir, Dollý, Inga Sig og Klöru Tryggva með okkur og stofnuðum samtökin.“

Frábært starfsfólk á Hraunbúðum

Halldóra segir að einhverjar mannabreytingar hafi orðið síðan. „Við í samtökunum eigum orðið engan aðstandenda á heimilinu fyrir utan nýjasta meðliminn í stjórninni. Það er mikilvægt fyrir okkur að halda smá tengingu þarna inn til að hafa smá innsýn í starfið og kannski hvar er mesta þörfin fyrir okkur.  Ég fór t.d inn á heimilið árið 2022 og spurði heimilisfólk aðeins út í þeirra upplifun, hvað þau væru ánægð með og hvað mætti betur fara. Flest allir voru ánægðir með aðbúnað og umönnun, enda frábært starfsfólk á Hraunbúðum sem hugsar mikið vel um fólkið okkar.“

Vildu efla félagsstarfið

„Það sem kom hins vegar út úr þessu spjalli okkar var að flestir vildu efla félagsstarfið og fólki fannst vera of lítið um að vera. Þess má geta að þetta var áður en Sonja Andrésdóttir byrjaði sem virknifulltrúi en hún er að gera frábæra hluti þarna og stendur sig ótrúlega vel að brjóta upp daginn og finna upp á skemmtilegum hlutum til að gera með fólkinu.

Við ákváðum hins vegar að breyta aðeins um áherslur eftir þetta spjall mitt við heimilisfólkið. Við höfðum verið mikið í að gefa allskyns hluti eins og farið er yfir hér að ofan. Við ákváðum sem sagt að reyna að einbeita okkur meira af því að vera með viðburði fyrir fólkið, hátíðir, tónleika og eitthvað til að létta lundina og gleðja.

Einstaklega heppin með styrki

Það hefur tekist vel og höfum við til að mynda verið dugleg að bjóða upp á tónleika, jólahlaðborð, konu og karla kvöld, vorhátíð, þrettándakaffi, páskabingó, kaffihúsaferðir, jólaljósa-bíltúr, stóla Yoga við góðar undirtektir og margt fleira.

Við höfum líka styrkt Sonju í verkefnum sem hún hefur verið í eins og t.d. að gefa vatnsbrúsa fyrir heimilisfólk og græja veröndina fyrir sumarið með húsgögnum og hitara.  Nú síðast kom hún að máli við okkur með þá hugmynd af halda myndlistasýningu og að allir sem vildu máluðu myndir. Fjárframlög eru af skornum skammti í svona aukaverkefni og því er frábært fyrir okkur að geta stutt við bakið á þeim eins og þarna með því að gefa málningu, striga og fleira sem þarf í verkefnið.

Við höfum verið einstaklega heppin með styrki, við eigum okkar styrktaraðila sem borga 3000 krónur í árgjald, en mest af okkar fé er komið frá styrkjum frá samtökum og einstaklingum í bænum og eins þegar aðstandendur hafa bent á okkur til þeirra sem vilja minnast látins heimilisfólks.  Fyrir þetta erum við óendanlega þakklát og þetta hjálpar okkur að halda áfram okkar starfi.“ segir Halldóra Kristín Ágústsdóttir.

Það voru þau Þór Vilhjálmsson og Sólveig Adolfsdóttir veittu viðurkenningunni viðtöku fyrir hönd Hollvinasamtaka Hraunbúða.

Um Öldrunarráð Íslands

Öldrunarráð Íslands var stofnað árið 1981 og var hlutverk þess þá eins og nú fyrst og fremst að fræða og standa vörð um hagsmunamál eldri borgara. Öldrunarráð Íslands eru regnhlífarsamtök þeirra sem starfa að hagsmunum aldraðra hér á land. Að Öldrunarráði Íslands eiga því aðild samtök, félög, fyrirtæki og stofnanir, þar með talið sveitarfélög, sem vinna að málefnum aldraðra. Eru aðilar nú alls 32. Markmið ráðsins er að vinna að bættum hag aldraðra.

Hér að neðan má sjá nokkrar myndir úr starfi Hollvinasamtakana.

Nýjustu fréttir

Vinsælast

Vinsælast