Dýrmætt fyrir samfélag eins og Vestmannaeyjar

Á mánudaginn var greint frá því að fiskeldisfyrirtækið Laxey hafi lokið við 6 milljarða hlutafjárútboð með innkomu öflugra innlendra og erlendra fjárfesta með mikla reynslu af fiskeldi. Meðal nýrra hluthafa er Blue Future Holding sem er leiðandi fjárfestir í útboðinu. Einnig Nutreco, Seaborn, Kjartan Ólafsson og öflugt hollenskt sjávarútvegsfyrirtæki ásamt lífeyrissjóðum.

Fram kom í tilkynningu félagsins að Blue Future Holding, sé hluti af þýsku fjölskyldusamsteypunni EW Group, og er Blue Future Holding leiðandi fjárfestir í útboðinu.

Tekjur af landeldi gætu tífaldast frá árinu 2021 fram til ársins 2032

Eyjar.net ræddi við Jón Bjarka Bents­son, aðalhagfræðing Íslandsbanka um fjármögnunina og hvaða þýðingu slíkt hafi fyrir bæjarfélag eins og Vestmannaeyjar.

„Það hljóta að teljast jákvæð tíðindi fyrir íbúa Vestmannaeyja að búið sé að tryggja áframhaldandi uppbyggingu á landeldi þar. Annars vegar fellur slík starfsemi ágætlega að atvinnulífi á eyjunni þar sem sjávarútvegur hefur löngum verið undirstaðan en að sama skapi lýtur eldið að mörgu leyti öðrum lögmálum. Framleiðsla og markaður fyrir eldisfisk, sér í lagi landeldi, á að ýmsu leyti meira skylt með landbúnaði og tengdri matvælaframleiðslu en hefðbundnum sjávarútvegi. Reksturinn, og þar með fjöldi starfa og skatttekjur, er til að mynda mun stöðugri en t.d. í loðnuveiðum og -vinnslu, nokkuð sem Vestmannaeyingar þekkja vel frá síðustu misserum.
Fiskeldi, og sér í lagi landeldi, á eftir að verða helsti vaxtabroddur í fiskútflutningi á komandi árum og til að mynda var nýlegt mat Boston Consulting Group á þá leið að tekjur af landeldi gætu tífaldast frá árinu 2021 fram til ársins 2032. Það hlýtur að vera dýrmætt fyrir samfélag eins og Vestmannaeyjar að geta boðið upp á störf og fá aukin umsvif, fyrst vegna uppbyggingarinnar og í kjölfarið vegna starfseminnar sjálfrar.“

Laxey: 6 milljarðar í nýtt hlutafé

Nýjustu fréttir

Vinsælast

Vinsælast