Langa hlaut hæsta styrkinn

Stjórn SASS hefur fjallað um tillögur fagráðs atvinnu og nýsköpunar annars vegar og fagráðs menningar hins vegar um úthlutun verkefnastyrkja úr Uppbyggingarsjóði Suðurlands. 

Um er að ræða síðari úthlutun sjóðsins árið 2022. Umsóknir voru samtals 90, í flokki atvinnu- og nýsköpunarverkefna bárust 28 umsóknir og 62 í flokki menningarverkefna. 

Að þessu sinni var 32,6 m.kr. úthlutað, 13,1 m.kr. í flokk atvinnu og nýsköpunar og 19,5 m.kr. í flokk menningar, til samtals 58 verkefna. Samþykkt var að veita 14 verkefnum styrk í flokki atvinnu og nýsköpunar og 44 verkefna í flokki menningarverkefna, að því er segir í frétt á vef Samtaka sunnlenskra sveitarfélaga.  

Hæsta styrkinn í flokki atvinnu og nýsköpunar hlaut að þessu sinni Langa ehf. fyrir verkefnið Afurðagerð og vörumerkjaþróun fyrir lífefnavinnslu að upphæð 2 m.kr., markmið verkefnisins er þróun á næringaríkum neytendavörum sem innihalda kollagen og önnur lífefni sem verða framleidd í nýrri verksmiðju í Vestmannaeyjum.

Styrkir á sviði atvinnu og nýsköpunar – Vestmannaeyjar

Afurðagerð og vörumerkjaþróun fyrir lífefnavinnslu. Langa ehf.  2.000.000 kr.

Verkefni um þróun á neytendavörum sem innihalda kollagen og önnur lífefni sem verður framleitt í nýrri verksmiðju Löngu ehf. í Vestmannaeyjum. Afurðir úr framleiðslunni munu vera mjög næringarríkar og er mikilvægt félaginu að kanna möguleika á að framleiða vörur á neytendamarkaði og þróa markaðsáætlun fyrir framleiðsluna og ákvarða inn á hvaða markaði skuli stefna. 

Veiðar á rauðátu við Suðurströndina. Þekkingarsetur Vestmannaeyja ses. 1.500.000 kr.

Rauðáta er einn stærsti lífmassi sem finna má á jörðinni og ein af undirstöðum lífs í hafinu kringum Ísland. Gífurleg tækifæri gætu verið í nýtingu þessa lífmassa ef vel er á spilum haldið, þar sem unnt er að vinna verðmætar vörur úr rauðátunni. Markmið verkefnisins er að gera viðskiptaáætlun til 15 ára fyrir Rauðátuna ehf. sem þegar hefur hafið tilraunaveiðar á rauðátu við Vestmannaeyjar. 

Bókviti. Esther Bergsdóttir. 300.000 kr.

Bókviti er smáforrit (app) sem er hannað sem bókaleitarvél. Í því verður hægt að finna bækur sem tengjast áhugasviði barna og fullorðinna. Áhugaflokkarnir eru fjölmargir og margvísleg leitarskilyrði verða í appinu auk annara viðbóta (fídusa). 

Styrkir á sviði menningar – Vestmannaeyjar

Listasmiðja Náttúrunnar með Gíslínu Dögg og Jónu Heiðu. Gíslína Dögg Bjarkadóttir. 400.000 kr.

Verkefnið Listasmiðja náttúrunnar með Gíslínu Dögg og Jónu Heiðu er listasmiðja fyrir börn á aldrinum 6 – 12 ára og er haldin í Eyjum. Í listasmiðjunni sækja þátttakendur innblástur í nærumhverfi og náttúruna, fara í vettvangsrannsóknir og skissa úti. Krakkarnir kynnast ólíkum aðferðum við listsköpun og skissuvinnu og vinna með efnivið úr náttúru Vestmannaeyja og fá kennslu í nýjungum í listsköpun frá listgreina- menntuðum kennurum um efni sem annars væri ekki í boði í Eyjum.

Gömlu leikföngin. Vestmannaeyjabær. 350.000 kr.

Mikilvægt er að menningararfinum séu gerð góð skil og að hann berist milli kynslóða. Leikföng eru vel til þess fallin að fanga huga barna og flest eigum við góðar minningar tengdar uppáhalds leikföngum. Á sýningunni Gömlu leikföngin getur að líta leikföng frá síðustu öld og frásagnir þeim tengdar. Tilvalið er fyrir stórfjölskylduna að taka sér frí frá daglegu amstri á aðventunni og eiga saman notalega stund með nostalgísku ívafi. Dagskráin verður auglýst á vef- og samfélagsmiðlum í Eyjum. 

Tónlistarferðalagið frá Ungverjalandi til Vestmannaeyja. Júlíanna S. Andersen. 300.000 kr.

Fjölmenningarlegir tónleikar þar sem blanda af ungverskri, pólskri, þýskri og íslenskri tónlist verða flutt með einsöng og píanói. Hluti af tónleikunum verður söngur með píanóundirspili og hluti píanóverk. Þetta er vettvangur fyrir fólk á öllum aldri til að heyra og kynnast fallegri klassískri tónlist eftir þekkt erlend tónskáld og fá tækifæri til að heyra frumsamin íslensk lög. 

Part 2 Technology Upgrade of Natural History Collection. The Beluga Operating Company ehf. 300.000 kr.

Giving new life and home to the historical collection from Vestmannaeyjar´s Natural History Museum with interactive technology in multiple languages. New bird cliff exhibit and behind the scenes at the museum display would showcase historic collection with new technology to provide detailed information about each specimen. 

Minningatónleikar Vosa. Félag um Tyrkjaránssetur í Vestmannaeyjum. 250.000 kr.

Verkefnið byggist á því að fá hæfileikaríkt fólk til þess að taka að sér að spila lög Alfreðs á tónleikum honum til heiðurs. Markmiðið er að kynna þá útgáfu á lögum Alfreðs sem ráðist var í með því að leita samstarfs við kóra og tónlistarfólk þannig að unnt verði að miðla á sem víðtækasta hátt merkum menningararfi.

50 ár frá Heimaeyjargosinu í tali og tónum. Vestmannaeyjabær. 250.000 kr.

Dagskrá í ELDHEIMUM 23. janúar 2023 þegar 50 ár verða liðin frá upphafi Heimaeyjargossins. Upprifjum Eyjapistlanna. Útvarpsþáttar, sem miðlaði mikilvægum upplýsingum til Vestmannaeyinga á erfiðum tímum Heimaeyjargosins. Þátturinn var í umsjón tvíburabræðranna Gísla og Arnþórs Helgasona. Einnig verður flutt tónlist þeirra bræðra, sem og önnur vinsæl tónlist frá gostímabilinu. Ásamt tvíburabræðrunum skipa Magnús R. Einarsson og Þórólfur Guðnason hljómsveitina. 

Lista yfir öll verkefni sem hlutu styrk má sjá hér.

Nýjustu fréttir

Vinsælast

Vinsælast