Sagnheimar – náttúrugripasafn opnar í gestastofu Sea Life Trust

Í gær var fyrsti áfangi sýningar á munum Sagnheima, náttúrugripasafns opnaður í gestastofu Sea Life Trust við Ægisgötu. Jafnframt var undirritaður samstarfssamningur milli Sagnheima og Sea Life Trust um varðveislu og sýningu munanna.

Sigurhanna Friðþórsdóttir, verkefnastjóri Sagnheima fór af þessu tilefni stuttlega yfir sögu Náttúrugripasafns Vestmannaeyja sem um tíma hét Sæheimar og nú síðast Sagnheimar, náttúrugripasafn.

Safnið var stofnað árið 1964 að frumkvæði Guðlaugs Gíslasonar, fyrrverandi bæjarstjóra og alþingismanns. Friðrik Jesson var fenginn til að sjá um uppbyggingu þess. Hann stoppaði upp marga þá fugla, fiska og önnur dýr sem varðveitt eru á safninu, auk þess sem hann var safnvörður. 

Færði safninu 23 sjaldgæfa og verðmæta fugla að gjöf

Fram kom í máli Sigurhönnu að fjölmargir velunnarar safnsins hafi safnað og gefið þá muni sem þar eru og nú síðast fékk safnið að gjöf 23 sjaldgæfa og verðmæta fugla sem Ólafur Tryggvason, Olli málari færði safninu í miðjum flutningum. 

Ánægjuefni að munir náttúrugripasafnsins hafi fengið nýtt heimili

Sigurhanna sagði að það hafi verið mörgum áhyggjuefni þegar spurðist út á síðasta ári að húsnæðið að Heiðarvegi 12, þar sem náttúrugripasafnið var til húsa.

„Því er það okkur mikið ánægjuefni að munir náttúrugripasafnsins hafi fengið hér nýtt heimili, en hluti af dagskránni í dag felst einmitt í undirritun samstarfssamnings milli Sagnheima, fyrir hönd Vestmannaeyjabæjar og Sea Life Trust um varðveislu og sýningu munanna.”

Hún segir að samningurinn við Sea Life Trust sé til fimm ára. „Munirnir eru áfram í eigu Sagnheima, náttúrugripasafns en Sea Life Trust hefur þá til varðveislu og sýningar.”

Strangar reglur gilda um meðferð og varðveislu munanna

Fram kom í máli verkefnastjórans að undirbúningur að pökkun, flutningur og uppsetning muna hafi hafist á haustmánuðum 2021. 

„Það er vandasamt verk að ganga frá náttúrumunum af þessu tagi, ekki síst þar sem Sagnheimar eru viðurkennt safn sem þýðir að strangar reglur gilda um meðferð og varðveislu munanna. Við gerð samstarfssamningsins þótti rétt að setja saman lista yfir alla þá muni sem tilheyra náttúrugripasafninu og ástand þeirra.”

Þetta eru samtals:

  • 240 fuglar.
  • 97 fiskar og krabbar.
  • 11 spendýr, auk skelja, skordýra og ýmissa fylgihluta sem ekki eru skráð á sérstök númer.
  • 400 steinar í steinasafni Sagnheima.

Samtals gerir þetta því ríflega 700 muni.

Stefnt að uppsetningu á fuglum o.fl. í haust

Það voru þeir Þórarinn Blöndal og Pétur Örn Friðriksson sem sáu um hönnun sýningarinnar og settu hana upp með dyggri aðstoð félaga síns Erlings Jóhannessonar og þeirra Guggu Rúnar, Guðrúnar Óskar, Viktors Péturs og Zindra Freys úr Safnahúsi.

Í sýningarskápunum sem nú eru komnir upp eru að mestu fiskar, krabbar og aðrar kynjaverur hafsins en stefnt er að uppsetningu á fuglum o.fl. í haust.

Að lokum kom Sigurhanna á framfæri þökkum til Audrey, Línu, Helen og starfsfólki þeirra fyrir sinn þátt í vinnunni, sem og starfsmönnum Þjónustumiðstöðvar.

Á næstu vikum verða settar upp spjaldtölvur með upplýsingum um þau dýr sem eru til sýnis á safninu, en sú vinna er í höndum starfsfólks Sea Life Trust og styrkt af Uppbyggingarsjóði SASS og Safnasjóði.

 

Nýjustu fréttir

Vinsælast

Vinsælast