37% aukning á milli ára

Talsverð aukning varð á farþegaflutningum Herjólfs í fyrra samanborið við árið þar á undan, en það ár var sögulega lágt vegna heimsfaraldursins.

Samkvæmt upplýsingum frá Herjólfi ohf. flutti ferjan 338.574 farþega og 107.833 bíla á nýliðnu ári. 

„Farþegaflutningar tóku aftur við sér eftir covid-árið 2020 en þá fluttum við 247.437 farþega, þó covid hafi haft töluverð áhrif á fyrirtækið árið 2021 fluttum við 37% fleiri farþega 2021 miðað við árið á undan. Enn vantar þó farþega til að ná þeim farþegatölum þegar best lét.” segir Hörður Orri Grettisson, framkvæmdastjóri Herjólfs í samtali við Eyjar.net.

87% nýting í Landeyjahöfn í fyrra

Hann segir Landeyjahöfn hafa reynst vel árið 2021. „Siglingaráætlun okkar gerði ráð fyrir því að sigla 4.478 ferðið til og frá Landeyjahöfn og stóðst sú áætlun í 3.888 skipti eða í 87% tilfella. 160 ferðir voru farnar til og frá Þorlákshöfn og 430 ferðir til og frá Landeyjahöfn féllu niður vegna siglinga til Þorlákshafnar eða veðurs. Landeyjahöfn lokaði aldrei vegna dýpis.

Við förum bjartsýn inn í nýtt ár. Reksturinn er kominn í gott jafnvægi og við gerum ráð fyrir því að það haldist. Vonir standa til þess að farþegafjöldi muni aukast frá liðnu ári og að við munum nálgast þá farþegaflutninga þegar best lét. Herjólfur keppist við það daglega að þjónusta þetta samfélag sem best og ætlum við að halda því áfram af krafti á nýju ári.” segir Hörður Orri.

Samanburður farþega Herjólfs sl. þrjú ár. Smellið á súluritið til að opna það stærra.

 

Nýjustu fréttir

Vinsælast

Vinsælast