Hugarfrelsi og Vestmannaeyjabær í samstarf

Á fundi fjölskyldu- og tómstundaráðs var tekið fyrir erindi frá fyrirtækinu Hugarfrelsi ehf. Fyrirtækið óskar eftir að gerast samstarfsaðili við Vestmannaeyjabæ vegna endurgreiðslu frístundastyrks til forráðamanna barna sem hyggjast sækja námskeið hjá þeim í Vestmannaeyjum. 

Reglur Vestmannaeyjabæjar setja skilyrði um að félög, fyrirtæki og stofnanir sem vilja gera slíkan samstarfssamning skuli hafa aðsetur í Vestmannaeyjum. Fjölskyldu- og tómstundaráð hefur heimild til að veita undanþágu frá þessum reglum og gerir það í þessu tilfelli. 

Hugarfrelsi ehf. býður upp á umrædd námskeið víða um land og hafa sveitarfélög almennt veitt undanþágu fyrir slíkum samstarfssamningi. Hugarfrelsi ehf. stundar rekstur undir eigin kt. og fellur starfsemi þeirra undir markmið laga, reglugerða og stefnu Vestmannaeyjabæjar. Námskeiðin hafa m.a. það markmið að draga úr kvíða hjá börnum og ala á jákvæðri hugsun. 

Foreldrar eru hvattir til að efla börn sín til virkni í íþrótta- og tómstundastarfi og nýta sér frístundastyrkinn á einn eða annan hátt, segir í bókun fjölskyldu- og tómstundaráðs.

 

Hvað er Hugarfrelsi?

Hugarfrelsi stendur fyrir ýmis konar fræðslu, námskeiðum og fyrirlestrum þar sem börnum, unglingum, fullorðnum og fagfólki er kennt að nota einfaldar aðferðir til að efla sjálfsmynd og vellíðan.

Með Hugarfrelsi er átt við það frelsi sem hverjum manni er unnt að öðlast þegar hugurinn hefur ekki lengur neikvæð áhrif á daglegt líf. Frelsi frá áhyggjum, kvíða og ótta. Hugarfrelsi til þess að blómstra, frelsi til að nýta hæfileika sína sem best, frelsi til að velja hugsanir sínar sér og öðrum til gagns.

Nánari upplýsingar um Hugarfrelsi.

Nýjustu fréttir

Vinsælast

Vinsælast