Kennarafélagið harmar vinnubrögð bæjarins

Erindi frá Kennarafélagi Vestmannaeyja þar sem fram koma ábendingar vegna ráðningar í stöðu skólastjóra GRV var tekið fyrir í bæjarráði í síðustu viku. 

Eyjar.net birtir hér úrdrætti úr bæði bréfi Kennarafélagsins sem og úr minnisblaði framkvæmdastjóra Vestmannaeyjabæjar vegna málsins.

Í bókun bæjarráðs þakkar ráðið þær ábendingar sem fram koma, virðir þær og skilur sjónarmið K.V. Hins vegar tekur ráðið einnig undir minnisblað framkvæmdastjóra um að hann hafi í öllu farið eftir þeim reglum sem framkvæmdastjóra ber að fara eftir í ráðningum sem þessu og minnir á að um er að ræða afleysingastöðu skólastjóra til eins árs.

Bréf Kennarafélags Vestmannaeyja

Í bréfi KV segir að Kennarafélagið fagni að búið sé að ráða í stöðu skólastjóra GRV en harmar þau vinnubrögð sem viðhöfð voru við ráðningarferlið – og ekki síður hvernig staðið var að tilkynningu um ráðninguna. 

Nokkrir starfsmenn grunnskólans sem sóttust eftir starfinu og eru þar á meðal starfsmenn með stjórnunarmenntun og/eða reynslu af stjórnun innan skólans. Þá segir í bréfinu að stjórn KV telji að leitast skuli við að leysa afleysingar sem þessar innanhúss ef þess gefist kostur og að enn og aftur hafi verið gengið framhjá hæfu fólki við ráðningar í stjórnunarstörf innan GRV. 

Félagsmönnum þykir mörgum hverjum sem litlir möguleikar séu að vinna sig upp í starfi þegar þegar að vinnubrögð eru af þessu tagi. 

Sárt að lesa um ráðninguna í fjölmiðlum

Í bréfi KV segir ennfremur að mörgum innan skólans hafi þótt sárt að lesa um ráðninguna á vefmiðlum og hefði farið betur á því að starfsmenn, ekki síst þeir sem sóttust eftir starfinu, hefðu fengið senda tilkynningu í tölvupósti áður en hún fór á fjölmiðla.

Kennarafélag Vestmannaeyja fer þess á leit við framkvæmdastjóra sviðsins og ráðsmenn í fræðsluráði að vinnubrögð sem þessi verði aflögð til að draga úr tortryggni og efla traust á milli starfsmanna GRV og yfirboðara þeirra. 

Á engan hátt beint gegn nýráðnum skólastjóra

Fram kemur í umræddu bréfi Kennarafélagsins að erindinu sé á engan hátt beint gegn nýráðnum skólastjóra og er hann hjartanlega boðinn velkominn til starfa. 

 

Ráðningin algjörlega eftir reglum

Minnisblað frá Jóni Péturssyni, framkvæmdastjóra var einnig lagt fyrir bæjarráð vegna málsins. Í því segir að ráðning skólastjóra sé algjörlega eftir þeim reglum sem framkvæmdastjóra ber að fara eftir og að ekki sé skylt að auglýsa er um afleysingastöðu sé að ræða. Almennt er Jón fylgjandi því að allar stöður séu auglýstar, en í þessu tilfelli var ákveðið að auglýsa ekki stöðuna heldur kanna ýmsa möguleika við val í umrædda stöðu, bæði um val á starfsmönnum innan stofnunarinnar og utan hennar.

Val á Erlingi byggir fyrst og fremst á því að fá inn a.m.k tímabundið, utanaðkomandi stjórnanda inn í það stjórnunarteymi sem fyrir er. Erlingur er vanur stjórnun og stýringu á liðsheild sem gæti smitað út á jákvæðan máta til starfsmanna, nemenda og samfélagsins. Hann gæti komið með nýjar og ferskar áherslur og ætti auðveldara með að sjá út fyrir boxið varðandi þætti sem má breyta og bæta í innra starfi skólans. Þá segir Jón að hann telji vert að prófa hæfni Erlings til eins árs á meðan núverandi skólastjóri er í leyfi.

Þá vekur Jón athygli á í minnislaðinu að núverandi skólastjóri eigi eitt skólaár eftir, eftir að hann kemur úr leyfi – áður en hann fer á eftirlaun. Þá þarf að ráða í stöðu skóastjóra GRV að undangenginni auglýsingu.

Varðandi viðkvæmni kennara GRV

Þá segir síðar í minnisblaðinu að varðandi viðkvæmni kennara GRV við hvernig tilkynnt var með ráðningu skólastjóra þá er rétt að benda á að í GRV starfa um 120 starfsmenn í þremur byggingum. Um er að ræða kennara, stjórnendur, stuðningsfulltrúa, skólaliða, húsverði, ritara og leikskólakennara. Erfitt er að koma upplýsingum samtímis til þessara aðila nema í gegnum heimasíðu bæjarins eða fjölmiðla og var það gert í þessu tilfelli.

Þá segir Jón að hann skilji vel gremju sumra félagsmanna KV sem hafa metnað í starfi og ánægjulegt að aðilar vilji taka að sér jafn vandasamt starf og starf skólastjóra er. Samkvæmt því má búast við fjölda umsókna í starf skólastjóra GRV þegar núverandi skólastjóri hættir og er það jákvætt. Ánægjulegt er einnig að lesa úr bréfi KV að aðilar eru á engan hátt ósáttir við valið á Erlingi Richardssyni í starfið og virðist sem eitthvað hafi verið gert rétt í þessu ráðningarferli. Miklar væntingar eru gerðar til nýráðins skólastjóra, segir Jón að endingu í minnisblaðinu til bæjarráðs.

 

Nýjustu fréttir

Vinsælast

Vinsælast