Haftyrðill fannst við Hraunbúðir

Á jóladag fannst haftyrðill við Hraunbúðir, sem náði ekki að hefja sig til flugs. Finnendur hans komu með hann daginn eftir í Sæheima þar sem fuglinn var vigtaður. Hann var frekar léttur en virtist að öðru leyti vera hinn hressasti.

Var honum því gefið smávegis æti og honum síðan sleppt á haf út, segir í frétt á vefsvæði Sæheima.

Haftyrðlar eru minnstu svartfuglarnir og eru aðeins um 150 g að þyngd. Til viðmiðunar eru lundar um 500 g og langvíur um 1 kg. Haftyrðlar eru hánorrænir fuglar og verptu áður á nokkrum stöðum við norðanvert landið. Til skamms tíma verptu nokkur pör í Grímsey.

Vegna hlýnandi veðurfars eru þeir nú alveg horfnir. Þeir eru nokkuð algengir norðan við okkur eins og á Grænlandi, Jan Mayen og Svalbarða. Yfir vetrartímann halda haftyrðlar sig helst við hafísröndina en sjást þó oft hér við land, sérstaklega eftir norðanáttir. Í vondum veðrum geta þeir hrakist langt inn á land.

Heimild: Íslenskur fuglavísir eftir Jóhann Óla Hilmarsson. MM 2011.

Nýjustu fréttir

Vinsælast

Vinsælast