Er vandamál Landeyjahafnar ofvaxið fyrir Vegagerðina?

Ásmundur Friðriksson alþingismaður hefur lengi haft þungar áhyggjur af stöðunni í og við Landeyjahöfn. Samkvæmt fyrirspurn hans til Vegagerðarinnar sem Eyjar.net hefur undir höndum telur þingmaðurinn að fyrirbyggjandi dýpkun Taccola hafi algjörlega mistekist og peningunum hreinlega hent út um gluggan eins og fram kemur í bréfi sem hann sendi vegamálastjóra.

Í stuttu spjalli við Eyjar.net sagði Ásmundur að honum hafi verið brugðið þegar í ljós kom að sú tilraun að endurheimta fyrri stöðu fjörunnar við Landeyjarhöfn sem gengið hefur fram – hafi algjörlega mistekist. Þingmaðurinn bætti því við að forsenda fyrir nýjum Herjólfi væri hvað tekist hafi að halda höfninni lengi opinni á hverju ári. Ef það verður raunin – að ekki ráðist við að halda henni opinni nema 6-8 mánuði á ári – er ljóst að hönnun á nýju skipi verði að taka mið að því. Fullyrðingar um 10 daga frátafir nýrrar ferju séu greinilega óskhyggja sem ekki sé að rætast en dýpið í hafnarmynninu í Landeyjahöfn var 3m. föstudaginn 11. desember.

 

Ásmundur segir í upphafi bréfs síns til Vegamálastjóra:

“Ég hef miklar áhyggjur af stöðu mála í Landeyjahöfn og þeim upplýsingum sem ég hef heyrt, að menn telji að 300 þúsund rúmmetra dýpkun (275 þús. rauntala) sem kostuðu 300 mkr. (191mkr. rauntala) gæti hafa skilað litlum eða engum árangri þar sem áhrif dýpkunarinnar gæti lítið eða ekkert núna skömmu eftir að verkinu er lokið.
Þar er nefnt til sögunnar að þegar hollenska dýpkunarskipið Taccola hafi verið á lokametrum framkvæmdarinnar og áhöfnin talið sig eiga eftir að dæla 30 þús. rúmmetrum af sandi hafi mælingamaður hins erlenda félags, og mælingamenn Vegagerðarinnar komist að þeirri  niðurstöðu að þá væri staðan á verkefninu sú að í raun væri enn ódælt 180.000 rúmmetrar, en ekki 30.000. Samkvæmt því hafi sandfyllingin á framkvæmdatímanum verið um 150 þús. rúmmetrar, eða helmingur alls þess sem dælt var.”

 

770 þúsund rúmmetrum dælt það sem af er ári

Í svörum Sigurðar Áss Grétarssonar – sem svarar fyrir hönd Vegagerðarinnar, við spurningum Ásmundar segir:

„Í ár hefur verið dýpkað sem nemur um 770 þúsund rúmmetrum, þar af hefur fyrirbyggjandi dýpkun verið um 350 þús. rúmmetrar og viðhaldsdýpkun um 420 þús. rúmmetrar. Þetta er töluvert meiri viðhaldsdýpkun en í fyrra en þá var hún um 225 þúsund rúmmetrar. Viðhaldsdýpkunin er á siglingaleið Herjólfs þannig að dýpkað hefur verið um 85% meira í ár en í fyrra. Magnið sem Jan De Nul hefur fjarlægt er um 275 þús. rúmmetrar í fyrirbyggjandi dýpkun og er áætlað að Björgun hafi fjarlægt um 75 þúsund rúmmetra til viðbótar. Fyrirbyggjandi dýpkun er sitthvoru megin við höfnina.“

 

536 milljónir í dýpkun í ár

Er Sigurður Áss var spurður hvaða áætlun og eða rannsóknir lægju að baki þeirri ákvörðun að láta dýpkunarskipið Taccola grafa „skurði” beggja vegna innsiglingarinnar og hver hafi unnið þær rannsóknir, var svarið:

„Mælingar við höfnina sýna að magnið, þar sem er grynnra en 7,0 m sitthvoru megin við hana á svæði sem er um kílómetri til vestur og kílómetri til austurs hefur verið á bilinu 250 upp í 700 þús. rúmmetrar, frá því höfnin var byggð og þá líka eftir eldgos og færslu Markarfljóts til vesturs. Áður en höfnin var byggð og fyrir færslu Markarfljóts til vestur var magnið á þessu svæði vel innan við 100 þús. rúmmetrar. Með fyrirbyggjandi dýpkun er ætlunin að nálgast þær aðstæður sem voru forsenda við byggingu hafnarinnar. Gerðar hafa verið tilraunir með fyrirbyggjandi dýpkun og hafa þær alltaf skilað árangri.“

Þá segir Sigurður að verktakakostnaður hafi verið um 191 m.kr. Mæling, hönnun og eftirlit hefur ekki verið aðskilið sérstaklega frá viðhaldsdýpkun en lauslegt mat er að viðbótarksotnaður sé um 6 m.kr.

Heildardýpkunarkostnaður er orðinn um 520 m.kr. og er áætlaður að verði um 536 m.kr. í árslok. Aðspurður segir Sigurður að áætlaðar hafi verið um 387 m.kr. til Landeyjahafnar. Hins vegar voru ónýttar fjárheimildir um 456 m.kr. Þannig alls var til ráðstöfunar 843 millj.kr. og þar eru enn eftir ónýttar fjárheimildir.

 

Áætlað að moka 400 þúsund rúmmetrum á næsta ári

Er Sigurður var spurður hver áætlun sé fyrir dýpkun í og við Landeyjarhöfn árið 2016, segir hann að áætlað sé að dýpka um 400 þúsund rúmmetra við Landeyjahöfn árið 2016. Þar af verður fyrirbyggjandi dýpkun um 150 þúsund rúmmetrar.

Ennfremur segir Sigurður Áss að höfnin hafi verið hönnuð fyrir skip sem þyrfti 5m dýpi í hafnamynninu og á rifinu og enn minna dýpi innan hafnar. Fyrir Herjólf þarf dýpið hins vegar að vera töluvert meira eða um 7m á rifinu og hafnamynninu og innan hafnar um 5 til 5,5m. Vegna djúpristu Herjólfs hefur þurft að dýpka töluvert umfram. Að jafnaði hefur þurft um 3-5 sinnum meiri dýpkun en ef um grunnristari ferju væri að ræða þ.e.a.s. ferjuna sem var ein forsendan við byggingu hafnarinnar.

Til að draga úr dýpkun þarf því að fá ferju sem er hönnuð fyrir aðstæður við höfnina. Við hönnun hafnarinnar voru fengnir fremstu sérfræðingar heims á þessu sviði, en því miður gengu þeirra áætlanir ekki eftir. Það breytir því ekki að djúprista Herjólfs veldur því nú hversu mikið þarf að dýpka og er því mikill áhrifavaldur. Dýpkun í Landeyjahöfn er ekki óeðlileg miðað við hafnir á sandströnd. Við Jótlandsstrendur og víðar er verið að dýpka hafnir með því að dæla upp allt frá 100 þúsund rúmmetrum og upp eina milljón rúmmetra. Þannig að þetta er ekki óþekkt vandamál.

Það sem er slæmt við dýpkun við Landeyjahöfn — til að halda nægu dýpi — þarf að dýpka við afar erfiðar aðstæður. Það er stóra vandamálið. Að auki þá var magnið sem dýpka þurfti vanáætlað í upphaflegum áætlunum fyrir höfnina. Magnið í ár er mikið en það er ekki óeðlilegt að það sveiflist mikið milli ára líkt og snjómokstur. Það er búið að leita til annarra sérfræðinga en DHI (Danska Straumfræðistofnunin) á þessu sviði en það er enn í vinnslu. Þetta var gert þegar upp úr 2011 en í framhaldi af þeirri vinnu var tekin ákvörðun að bíða og sjá hver þróunin yrði.

 

Ekki miklar líkur á að hægt verði að lagfæra höfnina

Er stofnunin að skoða hvort gera megi breytingar á höfninni svo frátafirnar minnki og hugsanlega dragi úr sandburði í siglingarleið skipa sem sigla um höfnina?

Það er alltaf til skoðunar að bæta aðstæður fyrir utan höfnina en líkur á því að það gangi eftir eru ekki miklar. Ástæðan er einfaldlega sú að vandamálið er fyrir utan höfnina og ef hún verður stækkuð þ.e.a.s. garðarnir fara lengra út og þá á meira dýpi eða gripið til til annarra aðgerða þá færist vandamálið utar en hverfur ekki, segir í svari Sigurðar Áss.

 

Ólíklegt að Landeyjahöfn verði heilsárshöfn

Að endingu segir Sigurður í svari sínu að síðastliðið vor hafi birst viðtal við undirritaðan þar sem kom fram að dýpka þurfti um 100 þús. rúmmetra fyrir Herjólf til að hann færi sigla til Landeyjahafnar og gekk það eftir.

Ef hins vegar hefði verið komin ný ferja með djúpristu innan við 3,0m hefði aðeins þurft að dýpka um 25 þús rúmmetra. Þó það hafi verið dýpkað meira síðan þá hefur það mest verið fyrirbyggjandi dýpkun og svo dýpkun nú í haust. Ef ný grunnristuð ferja hefði verið komin hefði verið búið að dýpka töluvert minna og ef aðeins er ætlunin að halda nægu dýpi í 8 til 9 mánuði á ári eins og nú er þyrfti aðeins að dýpka um fjórðung af því sem nú er dýpkað.

Hins vegar verður munurinn töluvert minni ef ætlunin er að halda nægu dýpi fyrir nýja ferju allt árið. Áætlanir gera þá ráð fyrir að dýpkað verði þá að jafnaði um 2/3 af því sem nú er að jafnaði dýpkað. Til að ná sem mestum árangri með Landeyjahöfn þarf að fá ferju til siglinga sem hentar Landeyjahöfn.

Að það dugi til að leysa alla erfiðleikana og gera hana að heilsárshöfn er ekki líklegt. Til að það gangi þarf að auki hentugri dýpkunarbúnað og aðferðir í Landeyjahöfn og trausta áhöfn sem lærir inn á þær erfiðu aðstæður sem er við Landeyjahöfn og á nýja ferju.

Nýjustu fréttir

Vinsælast

Vinsælast