Fiskiðjan vs. Hraunbúðir

Í framhaldi af ákvörðun minni í framkvæmda og hafnarráði, um að leggja fram breytingartillögu við tillögu meirihlutans um utanhússviðgerðir á húsi Fiskiðjunnar, þar sem ég lagði fram þá breytingartillögu að þessum framkvæmdum yrði frestað og fjármagninu þess í stað veitt til stækkunar á Hraunbúðum, samtals tæpar 160 milljónir, þá lítur málið svona út í mínum augum:

Tilboð verktaka var mjög gott, enda verktaki sem er eyjamaður og þekktur fyrir vönduð verk. Hins vegar er áætlun um verktíma sem áttu að vera 3 mánuðir, þegar verið hent út vegna athugasemda frá verktaka og tímaramminn því nánast algjörlega opinn.

Á fundinum lagði ég tvær spurningar fyrir framkvæmdastjóra bæjarins, í fyrsta lagi: Hefur verið tekin ákvörðun um hvað eigi að vera í húsnæði Fiskiðjunnar og í öðru lagi: Ef einhver vildi byggja eitthvað stórt á lóðinni sem gerði það að verkum að húsnæði Fiskiðjunnar yrði að víkja, hvort það kæmi þá til greina að húsnæðið yrði rifið. (tek það fram að fyrirspurnirnar eru ekki orðréttar frá fundinum).

Svarið við báðum spurningunum var hið sama: Það hefur engin ákvörðun verið tekin um framtíðarnýtingu þessa húsnæðis.

Minn skilningur á þessu svari er sá að, það sé enn töluverður möguleiki á því að hús Fiskiðjunnar verði rifið. Ekki það að ég sé endilega með eða á móti því, en sé hins vegar í Eyjafréttum að skipulagsráðgjafar leggi það til að húsið verði ekki rifið, en það hlýtur að vera ansi erfitt að sjá fyrir sér hvernig þetta svæði lítur út miðað við allar þær breytingar sem fyrirhugaðar eru og að öllum líkindum mun Ísfélagið fara að íhuga að rífa Ísfélags hlutann, sem er mun stærri heldur en Fiskiðju hlutinn. Einnig liggur fyrir að austur hús Fiskiðjunnar verði rifið og að Ísfélagið fái að stækka mjölgeymslu sína að þeim grunni.

Eftir fundinn frétti ég síðan það að áætlun meirihlutans um innréttingar á Fiskiðjuhúsinu gangi út á það, að þeir aðilar sem fái þar inni eigi að fjármagna innréttingu húsnæðisins og ég hlýt að velta því upp hvort ekki að minnsta kosti einhver hluti af þeim reikningi lendi á bæjarsjóði.
Það hefur ýmislegt verið nefnt til sögunnar sem til greina kemur að fái inni í húsnæði Fiskiðjunnar eftir að viðgerðum yrði lokið og þá kannski helst þekkingarsetrið, og að sjálfsögðu hef ég, eins og svo margir aðrir, ýmsar hugmyndir um hvernig mætti nýta húsnæðið, en á þessum tímapúnkti finnst mér þetta mál einfaldlega ekki það mikilvægasta.

Varðandi þá tillögu að færa þessa fjármuni yfir í stækkun Hraunbúða, þá liggur fyrir ályktun Félags eldri borgara, sem skorar á bæjarstjórn Vestmannaeyja og bæjarráð að hluta til um, að strax verði ráðist í stækkun Hraunbúða. Það er alveg augljóst, að mínu mati, að ef við á Eyjalistanum hefðum lagt fram tillögu um stækkun Hraunbúða, þá hefði svar meirihlutans að sjálfsögðu verið það, hvar ætlið þið að taka fjármuni m.a.

Það sorglegasta við þetta allt saman er kannski það, að umsókn Hraunbúða til velferðarráðuneytisins um framlag til stækkunar núverandi húsnæðis Hraunbúða og til að fara í umfangsmiklar breytingar á innra skipulagi húsnæðisins til að bæta aðstöðu og aðbúnað, sé hafnað á þeim forsendum að þessi hjúkrunarrými sem ætlað er að verði í nýbyggingunni og uppgerð hjúkrunarrýma í austur álmu standist hvorki viðmiði ráðuneytisins um byggingu hjúkrunarrýma né byggingarreglugerðar.

Að mínu mati er þetta eitthvað sem þyrfti að laga hið snarasta og svolítið furðulegt að hugsa til þess að við eyjamenn erum aðeins að fá um 5,8 milljónir í Hraunbúðir á þessu ári, á meðan nágranni okkar í Rangárþingi eystra fá 202 milljónir og stór spurning hvort að það væri ekki miklu einfaldara að fá fjármuni til stækkunar Hraunbúða ef það lægi fyrir í umsókninni, að Vestmannaeyjabær hefði ákveðið að setja sjálft 160 milljónir í verkefnið.

Þetta mál snýst fyrst og fremst um forgangsröðun og það hvernig hún eigi að vera. Það er töluvert ferli að fara í stækkun Hraunbúða og að mínu mati er þörfin á því miklu meiri heldur en viðgerðir á húsnæði Fiskiðjunnar og svo sannarlega munum við á Eyjalistanum halda áfram að berjast fyrir fólkið sem lagði grunninn að því samfélagi sem við búum í, í dag.
 

Nýjustu fréttir

Vinsælast

Vinsælast