Kiwanis klúbburinn Eldfell selur minnislykla til styrktar varðskipinu Þór

Kiwanisklúbburinn Eldfell selur þessa dagana minnislykla til stuðnings tækjakaupum í sjúkraklefa varðskipsins V/S Þórs.
Ekki einkamál sjómanna eða sjávarútvegsins
 
„Við hvetjum almenning til að taka þátt í þessu með okkur, þetta er ekki einkamál sjómanna eða sjávarútvegsins,“ segir Jón Óskar Þórhallsson, forseti Eldfells.
 
Kiwanisklúbburinn Eldfell var stofnaður fyrir ári af hópi Eyjamanna uppi á landi ásamt kunningjum. Tengjast klúbbmeðlimir allir sjómönnum með einum eða öðrum hætti og vilja öryggi þeirra sem mest og best.
 
Hugmyndin kviknaði í heimsókn hjá Landhelgisgæslunni
 
Hugmyndin að söfnuninni kviknaði þegar félagsmenn klúbbsins heimsóttu varðskipið Þór í vetur. Í skoðunarferð um skipið veittu menn því athygli að töluvert vantaði enn upp á að sjúkraklefi varðskipsins væri fullbúinn nauðsynlegum búnaði. Þegar umræða um fjáröflunarleið til stuðnings góðu málefni með sölu minnislykla var síðan tekin kom hugmyndin að því að safna fyrir búnaði í Þór strax upp.
 
Klúbbfélagar hófu söfnunina 14. maí sl. og er miðað við að takmarkinu verði náð 4. júní nk. „Ég veit ekki hvort við náum þessu fyrir sjómannadaginn [3. júní nk.] en það er aldrei að vita, við ætlum í öllu falli að klára þetta“ segir Jón Óskar að lokum.
 
Minnislyklarnir sem um ræðir eru 8 GB og til sölu á 4.000 krónur stykkið. Til að leggja málefninu lið er hægt að fara inn á heimasíðu Kiwanisklúbbsins Eldfells: www.eldfell.is
 

Nýjustu fréttir

Vinsælast

Vinsælast