Bæjarstjórn ræddi stöðu sýslumannsins

20.September'22 | 09:00
stjórnsýsluhús_2022

Starfsstöð sýslumannsins í Vestmannaeyjum. Ljósmynd/TMS

Dómsmálaráðherra hefur boðað framlagningu á frumvarpi til laga um sýslumann. Verði frumvarpið að lögum munu lögin leysa af hólmi lög um framkvæmdarvald og stjórnsýslu ríkisins í héraði.

Helstu breytingarnar varða fækkun sjálfstæðra sýslumannsembætta úr níu í eitt og með því verða öll sýslumannsembætti landsins sameinuð undir einni yfirstjórn og einn sýslumaður skipaður í umrætt embætti. Til stendur að starfrækja flestar núverandi starfsstöðvar, m.a. í Vestmannaeyjum. Hins vegar verður öllu starfsfólki sagt upp störfum og það ráðið til hins nýja embættis.

Stöður sýslumanna verða lagðar niður og nýr sýslumaður annast ráðningar stjórnenda starfsstöðva um landið. Jafnframt stendur til að leggja fram drög að frumvarpi um breytingar á ýmsum lögum til að hægt sé að innleiða nútímalega starfshætti, m.a. stafræna þjónustu, hjá nýju embætti. Ekki liggur fyrir hvar dómþing verða staðsett, en bent hefur verið á mikilvægi þess að dómþing sé sinnt í Vestmannaeyjum.

Vestmannaeyjabær sendi umsögn um frumvarpið meðan það var í samráðsgátt stjórnvalda, þar sem dómsmálaráðherra var hvattur til að fresta framlagningu frumvarpsins og byrja þess í stað á að ákveða verkefni starfsstöðva á landsbyggðinni og nútímavæða vinnubrögð og verklag hjá sýslumannsembættunum. Jafnframt að dómþing verði áfram starfrækt í Vestmannaeyjum.

Mikilvægt er að starfsstöð sýslumanns verði fest í sessi í Vestmannaeyjum

Á síðasta fundi bæjarstjórnar Vestmannaeyja lögðu bæði meiri- og minnihluti fram bókanir vegna málsins. Í bókun frá minnihlutanum segir að bæjarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins hafi barist hart í byrjun síðasta kjörtímabils fyrir sjálfstæði embættisins í Vestmannaeyjum en til stóð að sýslumaðurinn á Suðurlandi yrði settur yfir embættið í Eyjum. Sú barátta skilaði árangri og var blessunarlega horfið frá þeim áformum.

Í dag er embættið sjálfstæð eining með öfluga forystu sem hefur sótt ný verkefni og styrkt sérstöðu starfsmanna og stofnunarinnar í Eyjum og eflt starfsgrundvöll hennar til framtíðar. Fyrirætlanir dómsmálaráðuneytis snúa að þessu sinni að landlægum breytingum á öllum embættum sýslumanna en mikilvægt er að starfsstöð sýslumanns verði fest í sessi í Vestmannaeyjum eins og kemur fram í frumvarpinu og þau opinberu störf sem hér hafa byggst upp tryggð og fjölgað til framtíðar með frekari fjölgun verkefna, segir í bókun sjálfstæðismanna.

Hvetja ráðherrann til að taka tillit til umsagnar bæjarins

Í bókun frá bæjarfulltrúum E og H lista segir að meirihlutinn taki undir umsögn bæjarráðs um frumvarp til laga um sýslumann, sem birtist í samráðsgátt stjórnvalda í sumar. Mikilvægt er að styðja við og styrkja embættin en óvissan í frumvarpinu er mikil og í raun engin trygging fyrir áframhaldandi starfsemi, hvað þá eflingu hennar, eins og þó er lýst sem markmiði frumvarpsins.

Dómsmálaráðherra hefur nú boðað framlagningu frumvarps um málið í haust og hvetur bæjarstjórn ráðherrann til að taka tillit til umsagnar bæjarins.

Ítrekuð er sú afstaða bæjarráðs að réttast væri að dómsmálaráðherra falli frá áformum um að leggja frumvarpið fram á þessum tímapunkti og hefji eðlilegt samráð við hlutaðeigandi aðila um framtíðarsýn fyrir sýslumannsembættin í landinu.
 

Má bjóða þér að auglýsa hér?

23.Júní'22

Hér má auglýsa allt milli himins og jarðar! Sendu línu á [email protected] og saman finnum við lausn sem hentar þér.

Mannlíf og saga - hlaðvarp

2.Mars'21

Fylgstu með hlaðvarpinu Mannlíf og saga. Hlaðvarpsþættirnir eru aðgengilegir hér á Eyjar.net og einnig á helstu veitum, svo sem Spotify. Sjá nánar hér...

Fáðu nýjustu fréttirnar beint í æð

10.September'18

Með því að fylgja Eyjar.net færðu nýjustu fréttirnar frá Eyjum beint í æð. Smelltu hér til að fara á facebook-síðu Eyjar.net.

Smáauglýsingar

Hér getur þú með einföldum hætti auglýst það sem þú þarft að koma á framfæri allt frá einum sólarhring uppí einn mánuð. Einfaldur greiðslumáti Þú greiðir fyrir auglýsinguna með kreditkorti. Verð kr. 500,- per sólarhring. Um auglýsinguna Stutt fyrirsögn, hámark 35 tákn. Hnitmiðaður texti, hámark 130 tákn. Mynd á JPG sniði, verður sköluð í 130x100 díla (pixel).