Segir Alþingi þurfa að taka ákvörðun um stuðning ríksins við vatnslögn

- þingmaður Flokks fólksins skorar á ráðherra að endurskoða synjun um fjárstuðning við vatnslögn - Ef vatnslögnin rofnar er ekkert annað í stöðunni en að flytja alla Eyjamenn upp á land með tilheyrandi samfélagslegum kostnaði

16.September'22 | 14:40
vatnslogn_eyjar_opf

Myndin er tekin þann 8. júlí 2008, þegar verið var að leggja vatnslögn til Eyja. Ljósmynd/Óskar Pétur Friðriksson

Á þingfundi í gær í umræðum um fjárlög næsta árs spurði Ásthildur Lóa Þórsdóttir, þingmaður Flokks fólksins Sigurð Inga Jóhannsson, innviðaráðherra hvers vegna innviðaráðuneytið hafi synjað Vestmannaeyjabæ um stuðning til að leggja nýja vatnslögn milli lands og Eyja.

Ásthildur Lóa sagði aðstæður í Eyjum einstakar á Íslandi sem ekki sé hægt að bera saman við önnur bæjarfélög. Hún sagði það löngu orðið ljóst að þörf sé á nýrri vatnslögn til að tryggja öryggi og sjálfsögð lífsgæði Eyjamanna.

„Þetta er stórmál”

„Þarna leggst kostnaður á ákveðið sveitarfélag sem önnur sveitarfélög þurfa ekki að glíma við vegna staðsetningar. Þátttaka ríkisins í þessu verkefni á að vera sjálfsagður hlutur enda tók ríkið þátt þegar vatnslögnin var lögð 2008. Sú lögn er nú kominn á aldur og lögnin frá 1968 er löngu ónýt. Ef vatnslögnin rofnar er ekkert annað í stöðunni en að flytja alla Eyjamenn upp á land með tilheyrandi samfélagslegum kostnaði. Þetta er stórmál.

Það tekur víst eitt og hálft ár að framleiða lögnina og einungis er hægt að leggja hana í júlímánuði af ástæðum sem mér eru ókunnar. Það eru því a.m.k. tvö ár þangað til að vatnslögnin getur orðið að veruleika sem er í raun allt of langur tími. Ég vil bara skora á ráðherra að endurskoða synjun ráðuneytisins um fjárstuðning við þessa framkvæmd og langar að vita hvernig hann tekur í það.” sagði Ásthildur Lóa í ræðustól í gær.

Á erfitt með að taka slíkt fordæmi

Sigurður Ingi Jóhannsson, innviðaráðherra sagðist að sjálfsögðu hafa tekið vel í það erindi að skoða hvernig ríkisvaldið gæti stutt við Vestmannaeyjabæ á sínum tíma og var málið tekið til skoðunar.

„Árið 2008 var það gert með tvennum hætti. Það var felldur niður virðisaukaskattur. Að mati fjármálaráðuneytisins er það ólöglegt og ekki hægt. Ekki nema að hér í þessum sal sé tekin slík ákvörðun og hitt atriðið er varðaði þá stuðning ríkisins til þess að greiða niður kostnaðinn svo að hann sé sambærilegur við aðra, að þegar menn fóru og reiknuðu það út að þetta er kostnaður sem sjálfsagt er kominn í dag upp í einhvern 1,5 milljarð, þá er það stærðargráða sem mörg sveitarfélög, jafnvel minni þurfa að glíma við til þessa leita eftir vatni.”

Hann sagði þau sveitarfélög ekki hafa óskað eftir stuðningi frá ríkinu. „Staðreyndin er sú að jafnvel þó að þetta yrði fjármagnað með 4% vöxtum, ef ég man rétt, þá myndi kostnaður per heimili í Vestmannaeyjum verða sirka níunda sæti, eitthvað á eftir Fjarðabyggð, Hvolsvelli, Árborg og ég verð bara að segja eins og er að ég á erfitt með að taka slíkt fordæmi, einhverja slíka ákvörðun að styðja eitt sveitarfélag ef önnur átta, níu sambærileg eru að borga nú þegar meira fyrir sitt vatn og þess vegna höfnuðum við þessum stuðningi.”

Segir ákvörðunina snúast fyrst og fremst um að niðurgreiða vatn fyrir fyrirtækin í Eyjum

„Slík ákvörðun verður þá að koma úr þessum sal, alveg sama hvað var gert 2008 og hugsanlega þá vegna annarra forsendna. Þá stefndi í að vatnskostnaður heimila yrði með meiri en góðu hófi gegndi. Það er hins vegar rétt að fyrirtækin í Eyjum borga hærra en mörg önnur fyrirtæki annars staðar og það væri þá slík ákvörðun af okkar hálfu hér eða ráðuneytisins sem snerist þá fyrst og fremst um að niðurgreiða vatn fyrir fyrirtækin í Eyjum og ég veit ekki hvort það er nauðsynlegt.” sagði Sigurður Ingi í ræðu sinni.

Mannlíf og saga - hlaðvarp

2.Mars'21

Fylgstu með hlaðvarpinu Mannlíf og saga. Hlaðvarpsþættirnir eru aðgengilegir hér á Eyjar.net og einnig á helstu veitum, svo sem Spotify. Sjá nánar hér...

Fáðu nýjustu fréttirnar beint í æð

10.September'18

Með því að fylgja Eyjar.net færðu nýjustu fréttirnar frá Eyjum beint í æð. Smelltu hér til að fara á facebook-síðu Eyjar.net.

Má bjóða þér að auglýsa hér?

23.Júní'22

Hér má auglýsa allt milli himins og jarðar! Sendu línu á [email protected] og saman finnum við lausn sem hentar þér.

Smáauglýsingar

Hér getur þú með einföldum hætti auglýst það sem þú þarft að koma á framfæri allt frá einum sólarhring uppí einn mánuð. Einfaldur greiðslumáti Þú greiðir fyrir auglýsinguna með kreditkorti. Verð kr. 500,- per sólarhring. Um auglýsinguna Stutt fyrirsögn, hámark 35 tákn. Hnitmiðaður texti, hámark 130 tákn. Mynd á JPG sniði, verður sköluð í 130x100 díla (pixel).