Handknattleiksráð ÍBV segir af sér

Lýsa yfir vantrausti á aðalstjórn ÍBV-íþróttafélags

29.Júní'22 | 10:31
tysheim

Í kvöld verður aðalfundur ÍBV-íþróttafélags haldinn í Týsheimilinu. Ljósmynd/TMS

Handknattleiksdeild ÍBV sendi frá sér tilkynningu í morgun þar sem deildin lýsir yfir vantrausti á aðalstjórn félagsins. Þá segir handknattleiksráð af sér og segist ekki sætta sig við að mæta til vinnu fyrir félagið á öðrum forsendum en jafnræði.

Fram kemur í tilkynningunni að aðalstjórn hafi tekið ákvörðun á fundi sínum þann 15 mars sl. að breyta ríkjandi fyrirkomulagi frá stofnun félagsins um jafnræði milli deilda félagsins, Þ.e handknattleiks- og knattspyrnudeildar við gerð heildarsamninga og úthlutun á fé frá aðalstjórn og þá þannig að knattspyrnudeild skyldi fá 65% og handknattleiksdeild 35%.

Segja fullyrðingar og fjárhæðir sem fram komu í greinargerð framkvæmdastjóra ekki standast skoðun

Ennfremur segir í yfirlýsingunni: „Þegar að aðalstjórn tók framangreinda ákvörðun þá voru í gildi reglur um jafna skiptingu milli deilda og liggur fyrir að aðalstjórn þekkti ekki til þeirra reglna þegar að ákvörðunin var tekin. 

Til grundvallar ákvörðunar aðalstjórnar 15. mars sl. lá greinargerð frá framkvæmdastjóra.  Greinargerðin hefur verið hrakin að öllu leyti og stóðust þær fullyrðingar og fjárhæðir sem þar komu fram enga skoðun, eins og aðalstjórn hefur verið kynnt með ítarlegum hætti af handknattleiksráði.”

Hafa ítrekað reynt að fá aðalstjórn til að breyta þessari ákvörðun sinni

,,Þá telur handknattleiksráð ÍBV að aðalstjórn hafi þverbrotið reglur félagsins með því að setja þessa ákvörðun ekki fyrir fulltrúaráð félagsins áður en hún var tekin.  Telur handknattleiksdeildin lög og reglur félagsins skýrar hvað þetta varðar en allar meiriháttar breytingar á starfsemi félagsins skulu fara fyrir fulltrúaráð áður en slík ákvörðun er tekin. Handknattleiksráð hefur ítrekað reynt að fá aðalstjórn til að breyta þessari ákvörðun sinni m.a. gert þá tillögu að lögmæti ákvörðunarinnar verði skoðað af þremur lögfræðingum en allri viðleitni handknattleiksdeildar hefur verið hafnað af aðalstjórn. 

Við í handknattleiksráði ÍBV íþróttafélags höfum og viljum leggja á okkur ómælda vinnu fyrir félagið. Það gerum við á grundvelli jafnræðis, allt frá stofnun ÍBV íþróttafélags. Nú hefur aðalstjórn breytt grundvelli félagsins. Við í handknattleiksráði sættum okkur ekki við að mæta til vinnu fyrir félagið á öðrum forsendum en jafnræði og segjum því af okkur störfum í handknattleiksráði ÍBV - íþróttafélags.” segir í yfirlýsingu handknattleiksdeildar ÍBV, sem Grétar Eyþórsson, formaður skrifar undir.

Rétt er að taka fram að í kvöld er aðalfundur ÍBV-íþróttafélags haldinn í Týsheimilinu. Eyjar.net mun leita viðbragða hjá aðalstjórn félagsins við þessum vendingum.

 

Tags

ÍBV

Fáðu nýjustu fréttirnar beint í æð

10.September'18

Með því að fylgja Eyjar.net færðu nýjustu fréttirnar frá Eyjum beint í æð. Smelltu hér til að fara á facebook-síðu Eyjar.net.

Mannlíf og saga - hlaðvarp

2.Mars'21

Fylgstu með hlaðvarpinu Mannlíf og saga. Nýr þáttur kemur út á hverjum fimmtudegi og er hlaðvarpið aðgengilegt hér á Eyjar.net og einnig á helstu veitum, svo sem Spotify. Sjá nánar hér...

Má bjóða þér að auglýsa hér?

23.Júní'22

Hér má auglýsa allt milli himins og jarðar! Sendu línu á auglysingar@eyjar.net og saman finnum við lausn sem hentar þér.