Verður alltaf hagkvæmara að reka göng en að halda úti sjósamgöngum

- á milli lands og Eyja, segir Njáll Ragnarsson

20.Júní'22 | 09:38
sandoy-gongin_faereyjar

Sandeyjargöngin í Færeyjum eru um 11 kílómetra löng. Um 1300 íbúar búa í Sandey (Sandoy).

Nýverið skilaði Ríkisendurskoðun til Alþingis stjórnsýsluúttekt á framkvæmd og rekstri Landeyjahafnar. Í úttektinni kom fram að heildarkostnaður við höfnina sé kominn yfir 8 milljarða.

Njáll Ragnarsson, er formaður bæjarráðs Vestmannaeyja. Hann heimsótti Færeyjar á dögunum og skoðaði þar m.a. jarðgöng. Í kjölfarið beitti hann sér fyrir því að málið yrði sett aftur á dagskrá hjá bæjaryfirvöldum, sem var svo gert formlega á síðasta fundi bæjarstjórnar. Ritstjóri Eyjar.net spurði Njál út í þessi tvö mál. Þ.e. úttekt Ríkisendurskoðunar og jarðgangnagerð milli lands og Eyja. 

Sjá einnig: Setja jarðgöng milli lands og Eyja aftur á dagskrá 

Krafa okkar er alltaf sú sama - að Landeyjahöfn sé opin allan ársins hring

Aðspurður um hvort eitthvað hafi komið honum á óvart í úttekt Ríkisendurskoðunar segir Njáll að í rauninni get hann sagt að það sé ekki margt sem komi honum á óvart enda hafi bæjaryfirvöld átt í góðum samskiptum við Vegagerðina undanfarin fjögur ár.

„Við vitum það öll að gera þarf breytingar á höfninni til þess að hún geti sinnt sínu hlutverki allan ársins hring, sú vinna var farin í gang og nú er mikilvægt að þeirri vegferð verði haldið áfram. Krafa okkar er alltaf sú sama - að Landeyjahöfn sé opin allan ársins hring.”

Þessu tengt: Ríkisendurskoðun skilar stjórnsýsluúttekt um Landeyjahöfn

Á ekki von á öðru en að þingmenn taki vel í erindið

Er Njáll er spurður út í hvenær hann telji að viðræður við ríkisvaldið um að klára rannsóknir hefjist segir hann að eðli málsins samkvæmt gerist lítið yfir sumartímann.

„En við munum taka þetta upp við þingmenn kjördæmisins við fyrsta hentugleika. Það ber að horfa til þess að á síðasta ári samþykkti Alþingi þingsályktunartillögu þess efnis að rannsóknum á jarðlögum milli lands og Eyja verði kláraðar þannig að ég á ekki von á öðru en að þingmenn taki vel í erindi okkar. Það er gríðarlega mikilvægt að fá úr því skorið hvort mögulegt sé að gera göng og við viljum klára það verkefni sem allra fyrst.”

Hvað er áætlað að þær rannsóknir kosti, og hvað er áætlað að þær taki langan tíma?

Ég þori ekki að fullyrða um kostnað enda hef ég heyrt alls konar tölur. Mín skoðun er sú að ef mögulegt er að fara í vegtengingu og það reynist þjóðhagslega hagkvæmt er kostnaður við þessar rannsóknir og könnun á fýsileika gangnanna ekki stóri kostnaðarliðurinn í heildar samhenginu.

Kostnaður veltur á mörgum hlutum

Njáli er bent á að í dag sé heildarkostnaður á Landeyjahöfn og nýrri ferju að nálgast fjórtán milljarða. Aðspurður um hvert gróft mat á kostnaði við jarðgangnagerð milli lands og Eyja sé segir hann að hann hafi heyrt alls konar tölur. 

„Staðreyndin er sú að ég hreinlega veit það ekki enda veltur þetta á mörgum hlutum t.a.m. hversu stóran hluta gangnanna þurfi að fóðra með steypu, hvort göngin verði tvískipt o.s.frv. Þegar að öllu er á botninn hvolft kemur að því að á ákveðnum tímapunkti í framtíðinni kemur er hagkvæmara að vera með vegtengingu við Vestmannaeyjar en að halda úti Landeyjahöfn og dýpkun þar, rekstri og endurnýjun Herjólfs, lagningu sæstrengja og svo mætti áfram telja. Hvort sem það verður eftir 20 eða 50 ár skiptir ekki öllu máli – á endanum verður alltaf hagkvæmara að reka göng en að halda úti sjósamgöngum á milli lands og Eyja.”

Vantar stundum svolítinn Færeying í okkur Íslendinga

Eins og áður segir fór Njáll til Færeyja til að kynna þér jarðgangnagerð nú í vor. Breytti það sýn hans á jarðgangagerð milli lands og Eyja?

„Ekki nokkur spurning og ég sá þar hvað frændur okkar Færeyingar hugsa stórt þegar kemur að samgöngum. Það vantar stundum svolítinn Færeying í okkur Íslendinga þegar kemur að því að styrkja dreifða byggð í landinu. Með jarðgöngunum á milli Straumeyjar og Austureyjar jukust lífsgæði íbúa í Austurey til muna og þau gerðu það að verkum að fleiri sjá möguleikann í því að búa þar en starfa í Þórshöfn. Og þetta á við um flest öll jarðgöng alls staðar.

Það var engin vitleysa sem Guðmundur Kantór sagði um mig í Eldheimum fyrir kosningar – ég uppveðraðist af því að fara til Færeyja!”

Mikilvægt að standa saman og berjast í sameiningu fyrir stórum breytingum

Þegar hann er spurður út í hvort hann telji að við munum sjá jarðgöng hér á milli í komandi framtíð stendur ekki á svarinu.

„Já – ég er sannfærður um það. Það er alltaf að verða meiri og meiri þróun í slíkum framkvæmdum. Þekkingamaður sagði við mig: „Það er allt hægt“. Ég trúi því!”

Að lokum segir Njáll að Landeyjahöfn hafi þjónað okkur mjög vel síðustu ár og nýr Herjólfur er að hans mati hundrað sinnum betri en sá gamli hvert svo sem siglt er.

„Það breytir þó ekki þeirri staðreynd að við eigum aldrei að hætta að huga að því hvernig við getum bætt samgöngur við Eyjarnar okkar. Eins og alltaf þegar samgöngumál eru til umræðu er mikilvægt að standa saman og berjast í sameiningu fyrir stórum breytingum. ”

Myndband frá Sandeyjargöngunum í Færeyjum, sem áætlað er að opna á næsta ári má sjá hér að neðan.

Má bjóða þér að auglýsa hér?

23.Júní'22

Hér má auglýsa allt milli himins og jarðar! Sendu línu á [email protected] og saman finnum við lausn sem hentar þér.

Fáðu nýjustu fréttirnar beint í æð

10.September'18

Með því að fylgja Eyjar.net færðu nýjustu fréttirnar frá Eyjum beint í æð. Smelltu hér til að fara á facebook-síðu Eyjar.net.

Mannlíf og saga - hlaðvarp

2.Mars'21

Fylgstu með hlaðvarpinu Mannlíf og saga. Hlaðvarpsþættirnir eru aðgengilegir hér á Eyjar.net og einnig á helstu veitum, svo sem Spotify. Sjá nánar hér...

Smáauglýsingar

Hér getur þú með einföldum hætti auglýst það sem þú þarft að koma á framfæri allt frá einum sólarhring uppí einn mánuð. Einfaldur greiðslumáti Þú greiðir fyrir auglýsinguna með kreditkorti. Verð kr. 500,- per sólarhring. Um auglýsinguna Stutt fyrirsögn, hámark 35 tákn. Hnitmiðaður texti, hámark 130 tákn. Mynd á JPG sniði, verður sköluð í 130x100 díla (pixel).