Athugasemdir gerðar við undirbúning á kaupum og fyrirhugaðri uppsetningu botndælubúnaðar

14.Júní'22 | 14:06
krani_gardur_lan_naer

Myndin er tekin í lok júní 2019. Verkið hófst að hausti 2018 en var stöðvað í júlí 2019. Ljósmynd/TMS

Botndælubúnaður er tekinn sérstaklega fyrir í stjórnsýsluúttekt Ríkisendurskoðunar um framkvæmda- og rekstrarkostnað Landeyjahafnar.

Úttektin var kynnt fyrir stjórn­skip­un­ar- og eft­ir­lits­nefnd Alþingis í gær, en Rík­is­end­ur­skoðun ákvað að ráð­ast í úttekt­ina af eigin frum­kvæði.

Sjá einnig: Ríkisendurskoðun skilar stjórnsýsluúttekt um Landeyjahöfn

Verkið hófst að hausti 2018 en var stöðvað í júlí 2019

Í kaflanum um botndælubúnaðinn segir að árið 2018 hafi framkvæmdir verið boðnar út sem miðuðu annars vegar að nauðsynlegum endurbótum á Landeyjahöfn og hins vegar að koma fyrir sérstökum botndælubúnaði við enda brimvarnargarðanna. Fengist hafði meðal annars framlag að fjárhæð 730 m.kr. á fjárlögum árið 2018 til verksins. Að útboði loknu var gengið til samninga við Ístak um framkvæmdir. Þær snerust aðallega um byggingu á grjótfylltum stáltunnum á garðsenda Landeyjahafnar og endurbótum á innri höfn. Samningsupphæðin var 743 m.kr. en megintilgangur framkvæmda á ytri görðum var sá að hægt yrði að keyra krana út á garðsenda og dæla þannig sandi úr hafnarmynninu með botndælubúnaðinum.

Samkvæmt minnisblaði frá Vegagerðinni sem Ríkisendurskoðun hefur undir höndum hófst verkið að hausti 2018 en var stöðvað í júlí 2019. Þá var framkvæmdum í innri höfn að mestu lokið, búið að taka upp báða garðsendana og byrjað að reka niður staura í eystri tunnu. Enn fremur var búið að vinna allt grjót sem þurfti í verkið og keyra það ýmist niður að höfninni eða á millilager við Markarfljótsbrú. Þegar verkið var stöðvað var ákveðið að Ístak myndi raða garðhausunum aftur í fyrra horf og ljúka við endurbætur á innri höfninni. Samkvæmt minnisblaðinu telur Vegagerðin að eftirtaldir verkliðir gagnist höfninni til frambúðar: 

  • Stækkun á hafnarkví innri hafnar, til að draga úr ókyrrð við ferjukant.
  • Lenging innri vesturgarðs og bygging tunnu í innri höfn, til að draga úr ókyrrð við ferjukant.
  • Lagfæring á vegi á austur brimvarnargarði, auðveldar aðkomu, t.d. við hættuástand. 
  • Bygging á vegi á vestur brimvarnargarði, gerir aðkomu mögulega, t.d. við hættuástand.  
  • Til eru um 34.000 rúmmetrar af grjóti og kjarnaefni á lager við Landeyjahöfn og Markarfljótsbrú, sem nýtast við viðhald brimvarnargarða.

Skoða hvaða möguleikar eru í boði og hvort selja eigi búnaðinn

Samkvæmt uppgjöri við Ístak reyndist kostnaður við verkið vera um 655 m.kr. en Vegagerðin hyggst reyna að selja það efni sem ekki var notað við framkvæmdina eða þá nýta það í önnur verk á vegum stofnunarinnar. 

Sjálfur botndælubúnaðurinn ásamt fylgihlutum var keyptur fyrir tæpar 100 m.kr. og kom til landsins haustið 2020. Búnaðurinn er geymdur á geymslusvæði Vegagerðarinnar og hefur ekki verið notaður. Að mati sérfræðinga Vegagerðarinnar voru afköst dælingar ofmetin í upphaflegum áætlunum stofnunarinnar og var þar ekki tekið tillit til tímans sem fer í að flytja krana út á garðsenda og gera hann tilbúinn fyrir hífingar ásamt öllum búnaði fyrir dælingu.

Ekki er hægt að geyma krana og dælubúnað út á garðsendum vegna veðurálags og ágangs sjávar og því þarf að flytja búnaðinn fyrir hverja dælingu út á garðhausa og er áætlað að það sé dagsverk að gera allan búnað tilbúinn þannig að vinna við dælingu geti hafist. Áætlað er að sami tími fari í að taka búnaðinn niður og flytja á land áður en veður versnar. Til að opna innsiglinguna þarf að dæla frá báðum garðsendum en dælan sem keypt var til verksins afkastar um 2.000 rúmmetrum á dag við kjör aðstæður. Það er að mati sérfræðinga Vegagerðarinnar of lítið og of kostnaðarsamt til þess að það borgi sig. Vegagerðin vinnur nú í því að skoða hvaða möguleikar eru í boði og hvort selja eigi búnaðinn.

Brýna fyrir Vegagerðinni að vanda betur undirbúning verka

Ríkisendurskoðun gerir athugasemdir við undirbúning Vegagerðarinnar á kaupum og fyrirhugaðri uppsetningu á umræddum botndælubúnaði. Þegar ráðist var í innkaupin lágu fyrir áætlanir um nýtingu hans en ekki leið langur tími uns sérfræðingar stofnunarinnar voru komnir á öndverða skoðun varðandi hugsanlega gagnsemi. Um var að ræða umtalsverða fjárfestingu og fengust alls 874 m.kr. á fjárlögum 2019 og 2020 til verksins. Ríkisendurskoðun brýnir því fyrir Vegagerðinni að vanda betur að undirbúningi verka, ekki hvað síst þegar ekki liggja fyrir nákvæmar áætlanir um nýtingu eins og virðist hafa átt sér stað í þessu tilviki. 

Mannlíf og saga - hlaðvarp

2.Mars'21

Fylgstu með hlaðvarpinu Mannlíf og saga. Hlaðvarpsþættirnir eru aðgengilegir hér á Eyjar.net og einnig á helstu veitum, svo sem Spotify. Sjá nánar hér...

Fáðu nýjustu fréttirnar beint í æð

10.September'18

Með því að fylgja Eyjar.net færðu nýjustu fréttirnar frá Eyjum beint í æð. Smelltu hér til að fara á facebook-síðu Eyjar.net.

Má bjóða þér að auglýsa hér?

23.Júní'22

Hér má auglýsa allt milli himins og jarðar! Sendu línu á [email protected] og saman finnum við lausn sem hentar þér.

Smáauglýsingar

Hér getur þú með einföldum hætti auglýst það sem þú þarft að koma á framfæri allt frá einum sólarhring uppí einn mánuð. Einfaldur greiðslumáti Þú greiðir fyrir auglýsinguna með kreditkorti. Verð kr. 500,- per sólarhring. Um auglýsinguna Stutt fyrirsögn, hámark 35 tákn. Hnitmiðaður texti, hámark 130 tákn. Mynd á JPG sniði, verður sköluð í 130x100 díla (pixel).