16,5 milljarða útflutningsverðmæti loðnuafurða

- sem er um 70% aukning á milli ára í krónum talið, en um 78% á föstu gengi

8.Júní'22 | 08:15
IMG_1407

Ljósmynd/aðsend

Á fyrstu 4 mánuðum ársins er útflutningsverðmæti sjávarafurða komið í rúma 106 milljarða króna. Það er um 12% aukning í krónum talið miðað við sama tímabil í fyrra. 

Gengi krónunnar hefur að jafnaði verið um 5% sterkara á fyrstu 4 mánuði ársins miðað við sama tímabil í fyrra og er aukningin þar með ívið meiri í erlendri mynt, eða 17%. Þetta er aðeins minni aukning en fjallað var um í grein á Radarnum nýlega, sem skýrist af því að útflutningsverðmæti sjávarafurða í apríl síðastliðnum höfðu verið ofmetin um 2 milljarða króna í fyrstu tölum Hagstofunnar. Þetta kemur fram í tilkynningu frá SFS. 

Allt önnur samsetning loðnuafurða

Ofangreinda aukningu má að stærstum hluta rekja til þess stóra loðnukvóta sem íslenskum fiskskipum var úthlutað, en af einstaka fisktegundum hefur útflutningsverðmæti loðnuafurða aukist mest. Á fyrstu 4 mánuðum ársins er útflutningsverðmæti loðnuafurða komið í 16,5 milljarð króna samanborið 9,7 milljarða króna á sama tímabili í fyrra. Er því um 70% aukningu að ræða í útflutningsverðmætum loðnuafurða á milli ára í krónum talið en um 78% á föstu gengi. Samsetning loðnuafurða er þó allt önnur nú í ár en í fyrra. Það má rekja til þess að loðnukvótinn á yfirstandandi fiskveiðiári var margfalt stærri en á því síðasta, en það eitt og sér hefur veruleg áhrif á hvernig aflanum er ráðstafað. Eftir því sem kvótinn er stærri fer almennt hlutfallslega meira í bræðslu og því verður meiri útflutningur á fiskimjöli og lýsi.

Eins og sjá má á myndinni hér fyrir neðan þá er útflutningur á loðnumjöli og lýsi margfalt fyrirferðameiri á fyrstu fjórum mánuðunum nú í ár en í fyrra. Samanlagt er útflutningsverðmæti mjöls og lýsis um 77% af heildarverðmætum útfluttra loðnuafurða í ár samanborið við tæp 6% á sama tímabili í fyrra. Jafnframt má sjá á myndinni að loðnuhrogn fóru að birtast af töluverðum krafti í útflutningstölum í apríl í fyrra en þau eru ekki nærri eins fyrirferðamikil í apríl í ár. Svipaða sögu er að segja um heilfrysta loðnu. Þetta getur orsakast af mörgum þáttum eins og þeim flöskuhálsum sem myndast hafa í flutningum á milli landa þar sem staðan er almennt erfiðari eftir því sem fjarlægðin er meiri. Hertar sóttvarnaraðgerðir í Kína hafa til að mynda gert það að verkum að erfiðara gengur að koma afurðum á markað þar í landi. Þá eru áhrifin af stríði í Úkraínu einnig víðtæk.

Útflutningur til Noregs margfaldast

Af einstaka viðskiptalöndum hefur útflutningsverðmæti sjávarafurða aukist langmest til Noregs. Það kemur eflaust fáum á óvart þar sem Norðmenn eru stærstu kaupendur Íslendinga á fiskimjöli og lýsi enda ein stærsta fiskeldisþjóð heims. Alls hafa verið fluttar út sjávarafurðir til Noregs fyrir um 11,8 milljarð króna í ár samanborið við 3,7 milljarða króna á sama tímabili í fyrra. Þar af hafa verið fluttar út loðnuafurðir fyrir um 9 milljarða króna, sem er nánast alfarið mjöl og lýsi. Á myndinni að neðan má jafnframt sjá að mest hefur verið flutt út af sjávarafurðum til Bretlands miðað við verðmæti. Þar hefur jafnframt orðið töluverð aukning á milli ára sem má að stærstum hluta rekja til loðnuafurða. Þar er jafnframt eingöngu um loðnumjöl og lýsi að ræða, en Bretar er einnig stór fiskeldisþjóð.

Ágætis gangur óháð loðnu

Ef loðna er tekin út fyrir sviga í tölum um útflutningsverðmæti sjávarafurða á fyrstu fjórum mánuði ársins er enn um ágætis aukningu að ræða, eða um 5% í krónum talið en um 10% í erlendri mynt. Þróunin er þó afar mismunandi, enda eru fisktegundirnar fjölmargar og afurðaflokkarnir enn fleiri. Af einstaka tegundum botnfiska munar mest um þá aukningu sem orðið hefur á verðmætum útfluttra þorskafurða. Verðmæti þeirra eru komin í tæpa 50 milljarða króna á fyrstu 4 mánuðum ársins, sem er um 6% aukning í krónum talið á milli ára en um 11% í erlendri mynt. Útflutningsverðmæti annarra botnfisktegunda nemur samanlagt tæplega 23 milljörðum króna á fyrsta ársþriðjungi. Eru verðmæti þeirra nánast á pari við það sem þau voru á sama tímabili í fyrra í krónum talið en um 4% aukningu er að ræða í erlendri mynt. Þar vegast helst á veruleg aukning í verðmætum útfluttra ufsaafurða (47% í erlendi mynt) annars vegar og samdráttur í bæði afurðum ýsu (4%) og karfa (12%) hins vegar. Af öðrum uppsjávartegundum en loðnu munar talsvert um þá tvöföldun sem orðið hefur á útflutningsverðmætum síldarafurða. Verðmæti þeirra eru komin í rúma 5 milljarða króna á fyrstu fjórum mánuðum ársins. Á móti vegur töluverður samdráttur í útflutningsverðmætum á bæði afurðum kolmunna (77% í erlendri mynt) og makríl (20%). Í heildina má þó segja að gangurinn í sjávarútvegi hafi verið með ágætum það sem af er ári.   


 

Mannlíf og saga - hlaðvarp

2.Mars'21

Fylgstu með hlaðvarpinu Mannlíf og saga. Hlaðvarpsþættirnir eru aðgengilegir hér á Eyjar.net og einnig á helstu veitum, svo sem Spotify. Sjá nánar hér...

Má bjóða þér að auglýsa hér?

23.Júní'22

Hér má auglýsa allt milli himins og jarðar! Sendu línu á [email protected] og saman finnum við lausn sem hentar þér.

Fáðu nýjustu fréttirnar beint í æð

10.September'18

Með því að fylgja Eyjar.net færðu nýjustu fréttirnar frá Eyjum beint í æð. Smelltu hér til að fara á facebook-síðu Eyjar.net.

Smáauglýsingar

Hér getur þú með einföldum hætti auglýst það sem þú þarft að koma á framfæri allt frá einum sólarhring uppí einn mánuð. Einfaldur greiðslumáti Þú greiðir fyrir auglýsinguna með kreditkorti. Verð kr. 500,- per sólarhring. Um auglýsinguna Stutt fyrirsögn, hámark 35 tákn. Hnitmiðaður texti, hámark 130 tákn. Mynd á JPG sniði, verður sköluð í 130x100 díla (pixel).