Eftir Pál Magnússon

Vitum hvað við höfum en ekki hvað við fáum

12.Maí'22 | 12:57
Páll Magnússon mynd

Páll Magnússon

Þetta eru örfá lokaorð sem ég flutti á almennum framboðsfundi í Eldheimum á miðvikudagskvöld; með þeim fyrirvara auðvitað að í ræðu kann eitthvað að hafa bæst við eða fallið út úr skrifuðum texta sem hafður er til hliðsjónar:

Fundarstjóri – góðir Eyjamenn!

Ástæðan fyrir því að ég gekk til liðs við H-listann – Fyrir Heimaey – er einföld: Í fjögur ár hef ég horft upp á þann meirihluta, sem myndaður var 2018 undir forystu H-listans, ná undragóðum árangri við stjórn bæjarins. Það gildir jafnt um stjórn eigin mála – og gæslu þeirra hagsmuna sem við eigum undir ríkisvaldinu.

Öll árin fjögur skilaði bærinn jákvæðum rekstrarafgangi - þrátt fyrir ytri áföll eins og covid og loðnubrest. Jafnframt þessu voru álögur á borð við leikskólagjöld og fasteignaskatta lækkuð. Sem dæmi má nefna að 2017 voru leikskólagjöld hér í Eyjum þau hæstu á landinu – en við erum nú í sjöunda sæti.

Því hefur verið haldið fram að gengið hafi verið á sjóði bæjarins í einhverskonar óráðsíu. Þetta er augljóslega röng staðhæfing. Aldrei hefur verið gengið á eignir til að fjármagna rekstur, enda hefur hann verið jákvæður öll árin. Hitt er rétt, að peningalegum eignum hefur í nokkrum mæli verið breytt í betri innviði. Það er ekki eignarýrnun heldur fjárfesting til framtíðar.

Þetta er ábyrg fjármálastjórn – þetta er ábyrgur rekstur á bæjarfélagi!

Sama máli gegnir um hagsmunagæslu gagnvart ríkisvaldinu. Hún hefur verið þétt, ákveðin og árangursrík. Það sjáum við núna þessa dagana best raungerast í samgöngumálunum: Það er að koma nýtt og fullkomið dýpkunarskip – sem á að komast miklu nær því að halda Landeyjahöfn opinni allan ársins hring en við höfum áður kynnst; og innan tíðar hefst síðari hluta úttektar á Landeyjahöfn, sem verður leiðarvísir um lagfæringar. Jafnframt þessu hafa verið gefin fyrirheit um að ljúka fýsileikakönnun á gangnagerð milli lands og Eyja.

Og nú er verið að ljúka undirbúningi fyrir útboð á ríkisstyrktu áætlunarflugi – sem gert er ráð fyrir að hefjist í haust. Þetta flug var lagt af 2010.

Þetta eru allt dæmi um hversu vel hefur tekist til um hagsmunagæslu gagnvart ríkisvaldinu á þessu sviði.

Að öllu samanteknu hefur náðst frábær árangur undir forystu H-listans á því kjörtímabili sem nú er að líða. Og það gefur fyrirheit um enn betri árangur næstu fjögur árin - ef við Eyjamenn sýnum skynsemi á laugardaginn.

Það blandast fáum hugur um, að Íris Róbertsdóttir, bæjarstjóri, hefur staðið sig fádæma vel í starfi og vaxið með hverri raun. Og það hefur verið eftir þessu tekið víðar en hér í Vestmannaeyjum.

Við skulum tryggja að Eyjamenn njóti krafta hennar áfram með því kjósa H-listann á laugardaginn. Það er engin önnur leið til þess. Við vitum vel hvað við höfum – en vitum ekkert hvað við fáum!

Betri Eyjar fyrir alla – takk fyrir mig!

 

Páll Magnússon

Höfundur er oddviti Fyrir Heimaey í komandi sveitarstjórnarkosningum.

Mannlíf og saga - hlaðvarp

2.Mars'21

Fylgstu með hlaðvarpinu Mannlíf og saga. Hlaðvarpsþættirnir eru aðgengilegir hér á Eyjar.net og einnig á helstu veitum, svo sem Spotify. Sjá nánar hér...

Fáðu nýjustu fréttirnar beint í æð

10.September'18

Með því að fylgja Eyjar.net færðu nýjustu fréttirnar frá Eyjum beint í æð. Smelltu hér til að fara á facebook-síðu Eyjar.net.

Má bjóða þér að auglýsa hér?

23.Júní'22

Hér má auglýsa allt milli himins og jarðar! Sendu línu á [email protected] og saman finnum við lausn sem hentar þér.

Smáauglýsingar

Hér getur þú með einföldum hætti auglýst það sem þú þarft að koma á framfæri allt frá einum sólarhring uppí einn mánuð. Einfaldur greiðslumáti Þú greiðir fyrir auglýsinguna með kreditkorti. Verð kr. 500,- per sólarhring. Um auglýsinguna Stutt fyrirsögn, hámark 35 tákn. Hnitmiðaður texti, hámark 130 tákn. Mynd á JPG sniði, verður sköluð í 130x100 díla (pixel).