Bergþóra Þorkelsdóttir skrifar:

Dýpkun Landeyjahafnar og botndælubúnaður

12.Maí'22 | 17:58
lh_gardur_eyjar

Landeyjahöfn. Ljósmynd/TMS

Í grein sem birt var á Eyjar.net sl. þriðjudag var fjallað um viðhaldsdýpkun í Landeyjahöfn og verkefni um að koma fyrir botndælubúnaði sem síðar var fallið frá.

Breytingar á Landeyjahöfn voru boðnar út í júní 2018, undir heitinu „Landeyjahöfn Endurbætur 2018“. Verkið var tvískipt.

Fyrri  hluti verksins sneri að því að bæta kyrrð innan hafnar með því að stækka innri hafnarkví og byggja garðstunnur á innri hafnargarða. Sú aðgerð hefur skilað tilætluðum árangri og tryggir viðleguskilyrði Herjólfs svo hann geti tengst við rafmagn í Landeyjum við verri veðurskilyrði en ella. Án aðgerðanna hefði það ekki verið hægt, ekki með reglubundnum hætti við flestar veðuraðstæður. 

Siðari hluti verksins sneri að því að byggja veg út á garðsenda brimvarnargarðanna og koma þar fyrir stórum grjóttunnum. Vegurinn var byggður og nýtist nú vel sem hluti af öryggisviðbragði ef upp koma erfiðleikar við innsiglingu Herjólfs eða ef til óhappa eða slysa kæmi.  Hætt var við byggingu á garðstunnunum þar sem skipstjórar, bæði fyrrverandi og núverandi, höfðu miklar áhyggjur á að þær myndu þrengja um of innsiglingu til hafnarinnar og gætu leitt til meiri frátafa heldur en ef þær væru ekki byggðar. Þessar áhyggjur komu fyrst frá skipstjóra Herjólfs vel áður en verkefnið hófst. Við skoðun á forsendum verksins kom í ljós gallar í forsendum þannig að fá gögn studdu í raun verkefnið og því var ákveðið að setja það í bið á meðan gögn væru rýnd nánar. Sú rýni rennir stoðum undir þá ákvörðun að hætta við þennan hluta verksins.

Búið er að kaupa botndælubúnað og stálefni í tunnurnar tvær en unnið er að því að selja þennan búnað. Að því loknu verður fjárhagslegt tjón vegna þessa hverfandi.

Hugmyndin um botndælubúnað snerist um að byggja tvær tunnur á garðsendum brimvarnargarða Landeyjahafnar.  Á endanum átti að standa 400 tonna krani að vetri til með sanddælu sem fest yrði á bómu hans. Flotlagnir yrðu tengdar við dæluna og sandi úr hafnarmynninu dælt upp á ströndina annaðhvort austan eða vestan megin við höfnina.

Þetta eru staðreyndirnar :

  • Dælan afkastar við kjöraðstæður 2000 m3/dag.
  • Hefja átti dælingu þegar fyrirséð var að hægt væri að vinna í a.m.k. tvo daga.
  • Nauðsynleg veðurskilyrði fyrir dælingu voru áætluð:
    • Ölduhæð undir 3,0 m og vindhraði undir 11 m/s.

Frá miðjum janúar og þangað til um miðjan mars 2022 kom eitt tímabil þar sem þessar aðstæður voru uppfylltar og hægt hefði verið að setja upp búnaðinn og hefja dælingu. Þar sem afköst dælunnar eru mjög lítil í krefjandi aðstæðum hefði það ekki skipt neinu máli og líklegt að dælubúnaðurinn hefði verið í vegi fyrir dýpkunarskipi sem væri á sama tíma við dýpkun í hafnarmynninu.

Á mynd 1 eru öldugögn tekin saman fyrir tímabilið 1. janúar – 22. mars árin 2014-2022. Að meðaltali er ölduhæðin um 60% af tímanum yfir 2,0 m hæð en veturinn 2022 var hlutfallið 80% af tímanum, 50% af tímanum var aldan yfir 3,0 m en er venjulega um 28% af tímanum.

Mynd 1: 1. janúar – 22. mars 2022, ölduhæð yfir 2,0 m.

Herjólfur sigldi á þessum mánuðum eftir sjávarföllum þá fáu daga þegar veðrið var gott og ölduhæð undir 2,0 m.

Veður tók að batna þann 22. mars og strax þá hóf Herjólfur siglingar með fjórum ferðum á dag sem farnar voru eftir sjávarföllum. Aðstæður til dýpkunar voru hagstæðar 24. mars og viku seinna var dýpið í Landeyjahöfn orðið nægjanlegt svo hægt var að sigla eftir áætlun, sjö ferðir á dag.

Magn sands sem þurfti að fjarlægja til að ná þessu var um 12.000 m3. Það mundi taka afkastamikið dýpkunarskip 1-2 daga að fjarlægja það magn úr hafnarmynni Landeyjahafnar en til samanburðar tæki það Dísu sjö daga.

Það er rétt að nýr Herjólfur skiptir mjög miklu máli fyrir höfnina og var alla tíð gert ráð fyrir nýjum Herjólfi þegar höfnin væri byggð. Eldri Herjólfur hefði aldrei siglt eftir sjávarföllum í þessum aðstæðum og nauðsynleg dýpkun í hafnarmynninu hefði verið nær 40-50.000 m3 í stað 12.000 m3 vegna þess að gamli Herjólfur þarf svo mun meira dýpi heldur en nýr Herjólfur. Það er um 3-4 vikna vinna fyrir núverandi dýpkunarskip.

Veturinn í vetur var með eindæmum harður hvað varðar veðurfar og öldufar. Árið 2021 hélst höfnin opin m.t.t. sandflutnings allt árið, þá var nýtingarhlutfall hafnarinnar svipað og reiknað var með í upphaflegum áætlunum.

Með dýpkunarskipi sem getur tekið mikið magn á skömmum tíma er talið að hægt verði að komast að mestu fyrir það að siglingar stöðvist í Landeyjahöfn af völdum sandflutnings í hafnarmynninu. Með því móti standa vonir til þess að það verði einungis ölduhæðin sem verði vandamál í framtíðinni.

 

Bergþóra Þorkelsdóttir, forstjóri Vegagerðarinnar.

 

Fáðu nýjustu fréttirnar beint í æð

10.September'18

Með því að fylgja Eyjar.net færðu nýjustu fréttirnar frá Eyjum beint í æð. Smelltu hér til að fara á facebook-síðu Eyjar.net.

Má bjóða þér að auglýsa hér?

23.Júní'22

Hér má auglýsa allt milli himins og jarðar! Sendu línu á [email protected] og saman finnum við lausn sem hentar þér.

Mannlíf og saga - hlaðvarp

2.Mars'21

Fylgstu með hlaðvarpinu Mannlíf og saga. Hlaðvarpsþættirnir eru aðgengilegir hér á Eyjar.net og einnig á helstu veitum, svo sem Spotify. Sjá nánar hér...

Smáauglýsingar

Hér getur þú með einföldum hætti auglýst það sem þú þarft að koma á framfæri allt frá einum sólarhring uppí einn mánuð. Einfaldur greiðslumáti Þú greiðir fyrir auglýsinguna með kreditkorti. Verð kr. 500,- per sólarhring. Um auglýsinguna Stutt fyrirsögn, hámark 35 tákn. Hnitmiðaður texti, hámark 130 tákn. Mynd á JPG sniði, verður sköluð í 130x100 díla (pixel).