Grímur Gíslason skrifar:

Byr með framboði Sjálfstæðsflokksins í Eyjum!

28.Apríl'22 | 09:18

Grímur Gíslason

Óhætt er að fullyrða að prófkjör Sjálfstæðismanna, til að stilla upp framboðslista fyrir komandi bæjarstjórnarkosningar, hafi gefið flokknum byr í seglin og laðað fólk til fylgis við framboðið. 

Það er reyndar vel skiljanlegt og eðlilegt því að Sjálfstæðisflokkurinn er eina framboðið í Eyjum sem treysti kjósendum til að stilla frambjóðendum upp á lista sinn. Kjósendur í Eyjum, sem þátt tóku í prófkjörinu, völdu því þá fulltrúa sem kosnir verða af lista Sjálfstæðisflokksins til setu í næstu bæjarstjórn Vestmannaeyja.

Sjálfstæðisflokkurinn efndi því sannarlega til persónukjörs, sem sumir kjósendur kalla oft eftir, til að velja fulltúa á framboðslista flokksins.

Önnur framboð treystu kjósendum ekki að velja frambjóðendur sína

Önnur framboð, sem meira að segja sum hver voru stofnuð vegna þess að ekki var efnt til prófkjörs hjá Sjálfstæðisflokknum fyrir 4 árum, sáu enga ástæðu til að hleypa kjósendum, í Eyjum, að vali á listum sínum nú frekar en áður. Þar á bæ var flokksgæðingunum skipað til sætis á framboðslistunum af þröngum hópi stjórnenda flokkanna. Þar var ekki óskað eftir aðkomu kjósenda við að skipa persónum til sætis í komandi bæjarstjórn.

Ætli lýðræðisákallið risti ekki dýpra en raun ber vitni?

Ótrúlega mikil þátttaka og afgerandi niðurstaða hjá D-listanum

Niðurstaðan úr prófkjöri Sjálfstæðisflokksins var skýr og ótvíræð. Nýr leiðtogi, Eyþór Harðarson, fékk óskorað umboð til að leiða framboðið og aðrir frambjóðendur hlutu afgerandi kosningu í sín sæti.

Nær 930 kjósendur í Eyjum sáu ástæðu til að leggja leið sína í Ásgarð til að leggja sitt af mörkum við að stilla frambjóðendum upp á listann, sem er gríðarleg þátttaka og ólíklegt er að annarstaðar hafi jafn hátt hlutfallkjósenda tekið þátt í prófkjöri, um langa hríð.

Sigurstranglegur D-listi valinn af kjósendum í Eyjum

Það var ánægjulegt að sjá hversu mikill áhugi var fyrir prófkjörinu og hversu vel tókst til við uppröðun á listann. Góð dreifing fólks á mismunandi aldri, með mismunandi bakgrunn og reynslu. Nokkuð jöfn skipting karla og kvenna. Fínn þverskurur af samfélaginu í Eyjum. Útkoman var því mjög góður og sigurstranglegur framboðslisti, valinn af kjósendum í Eyjum.

Það eitt og sér hlýtur að skila miklu fylgi til Sjálfstæðisflokksins í komandi kosningum.

Fjöldi fyrrum yfirlýstra stuðningsmanna annarra framboða lýsti yfir stuðningi við Sjálfstæðisflokkinn

Þó að það hafi verið einkar ánægjulegt að sjá hversu margir tóku þátt í prófkjörinu þá var ekki síður áhugavert og gleðilegt að heyra af þeim fjölmörgu þátttakendum, sem voru stuðningsmenn annarra framboða fyrir 4 árum, sem nú tóku þátt í prófkjörinu og lýstu þannig yfir stuðningi við framboð Sjálfstæðismanna. Þátttaka áður yfirlýstra stuðningsmanna annarra framboða,  og jafnvel núverandi trúnaðarmanna þeirra framboða,  hlýtur að vera skýrt merki og yfirlýsing þeirra um óánægju með störf núverandi meirihluta og ákall um breytingar. Ákall eftir því að listi Sjálfstæðismanna, sem þau tóku þátt í að stilla frambjóðendum upp á, taki við stjórnartaumunum hér í bæ.

Slík opinber yfirlýsing er ekkert annað en klárt merki um þreytu á stjórnarháttum núverandi meirihluta og ákall um breytingar. Það eitt og sér ætti því að vera ávísun á gott fylgi D-lista Sjálfstæðisflokksins í komandi bæjarstjórnarkosningum. Ef að sitjandi trúnaðarmenn hinna framboðanna kalla eftir breytingum hlýtur það ákall að vera enn hærra hjá hinum almenna kjósanda í Eyjum.

Skýrt vísbending og hávært ákall um breytingar

Glæsilegt prófkjör, með þáttöku nærri þriðjungs kjósenda í Eyjum, og vel heppnaður framboðslisti sem þeir kjósendur völdu, hlýtur að vera mikill byr í segl Sjálfstæðismanna í þeirri kosningabaráttu sem nú er hafin. Þessi mikla þátttaka í prófkjörinu og greinilegt ákall kjósenda um breytingar hlýtur að vera fín vísbending um gott fylgi D-lista Sjálfstæðisflokksins í komandi kosningum.

 

Grímur Gíslason

Mannlíf og saga - hlaðvarp

2.Mars'21

Fylgstu með hlaðvarpinu Mannlíf og saga. Hlaðvarpsþættirnir eru aðgengilegir hér á Eyjar.net og einnig á helstu veitum, svo sem Spotify. Sjá nánar hér...

Má bjóða þér að auglýsa hér?

23.Júní'22

Hér má auglýsa allt milli himins og jarðar! Sendu línu á [email protected] og saman finnum við lausn sem hentar þér.

Fáðu nýjustu fréttirnar beint í æð

10.September'18

Með því að fylgja Eyjar.net færðu nýjustu fréttirnar frá Eyjum beint í æð. Smelltu hér til að fara á facebook-síðu Eyjar.net.

Smáauglýsingar

Hér getur þú með einföldum hætti auglýst það sem þú þarft að koma á framfæri allt frá einum sólarhring uppí einn mánuð. Einfaldur greiðslumáti Þú greiðir fyrir auglýsinguna með kreditkorti. Verð kr. 500,- per sólarhring. Um auglýsinguna Stutt fyrirsögn, hámark 35 tákn. Hnitmiðaður texti, hámark 130 tákn. Mynd á JPG sniði, verður sköluð í 130x100 díla (pixel).