Grímur Gíslason skrifar:

Er rétt að setja gervigras á Hásteinsvöll?

20.Apríl'22 | 16:33
hasteinsvollur_2021

Hásteinsvöllur. Ljósmynd/TMS

Mér finnst ástæða til að velta upp þessari spurningu vegna þeirrar ákvörðunar, sem mér sýnist að tekin hafi verið, um að leggja gervigras á Hásteinsvöll í haust. 

Ekki ætla ég að reyna að halda því að fram að ég sé einhver sérfræðingur á þessu sviði en ég hef hlustað, með athygli, á þau rök sem sett hafa verið fram og hef reynt að leita mér upplýsinga, hef lesið og einnig spurt all marga aðila, sem ég tel hafa mun veira vit á þessu en ég, til að reyna að skilja betur ákvörðunina og hvað liggur að baki henni.

Því miður finnst mér einhvernveginn skína í gegn að það liggi ekki mikil fagleg eða tæknileg vinna að baki þeirri ákvörðun sem tekin var og að sú greinargerð sem bæjarstjórn fékk til að byggja sína ákvörðun á hafi ekki verið mjög ítarleg eða efnismikil.

Það er því eðlilegt að velta fyrir sér á hvaða grunni bæjarstjórn tók ákvörðunina.

Er forysta knattspyrnunnar í Eyjum ósátt við ákvörðunina?

Við í Eyjum þekkjum það ágætlega að ýmsar ákvarðanir, bæði í skipulagsmálum sem og ákvörðunum sem snúa að íþróttahreyfingunni, hafa ekki alltaf verið teknar með yfirvegun og einhverja heildar framtíðarsýn í huga, heldur hafa oft ráðið ferð tilfinningar eða skyndireddingar. Er ekki nóg komið af slíku og er ekki ástæða til að vanda sig vel í svo stórri ákvörðun sem hér um ræðir?

Það sem fær mig einnig til að staldra við og efast, í þessum efnum, er að mér heyrist að þeir sem fara með stjórn knattspyrnunnar hér, knattspyrnuráð, og jafnvel harðir stuðningsmenn fótboltans innan ÍBV séu mjög ósammála þeirri ákvörðun sem tekin var, um að leggja gervigras á Hásteinsvöll. Samkvæmt þeim upplýsingum sem ég hef fengið þá var ekkert tillit tekið til álits sem knattspyrnuforystan lagði fyrir aðalstjórn ÍBV um þetta efni. Hvernig stendur á því? Er ekki eitthvað bogið við það?

Mér finnst því ástæða til að velta upp nokkrum hugleiðingum og spurningum um þetta. Eflaust er  ég að hætta mér inn á einhverskonar „jarðsprengjusvæði“, með því að fjalla um þetta mál, en ég er ekki óvanur ferðalagi um slík svæði umræðunnar og legg því svellkaldur inn á  það enda umræða um málefnið nauðsynleg.

Einstaklingar sem ættu að hafa þekkingu hafa komið fram með gagnrýni

Ég neita því ekki að ég varð efins þegar að einstaklingar, sem að ég treysti að geti lagt eitthvert faglegt mat á þetta, gerðu athugasemdir í kjölfar ákvörðunarinnar og lýstu yfir furðu sinni á henni. Má þar t.d. nefna landsliðsþjálfarann fyrrverandi, Frey Alexandersson. Hann var, ef að mig brestur ekki minni, allt annað en sammála þessari ákvörðun og benti m.a. á að vert væri að kanna aðrar leiðir í þessum efnum.

Þá má einnig nefna grein sem Magnús Valur Böðvarsson, vallarstjóri hjá KR og áður hjá Breiðabliki, skrifaði á fótbolta.net þann 14.12.2021 undir fyrirsögninni: „Keppnisgervigras – Sorglegt með ÍBV“, þar sem hann færir mjög sannfærandi rök gegn því að fara þessa leið. Ég hvet alla til að lesa þá grein.

Leikið í kafaldsbil í Víkinni en „blíðu“ í Boganum á sama tíma

Þessar efasemdir skutust svo aftur upp í kollinn á mér nú í upphafi vors, þegar að ég fylgdist með útsendingu á leik frá hinum fína gervigrasvelli þeirra Reykjavíkur Víkinga. Þar óðu leikmenn snjóinn í ökkla í stórhríðinni að spila fótbolta. Ég fór að velta fyrir mér hvort þetta væri það sem leitað væri eftir í Eyjum?

Á svipuðum tíma horfði ég síðan á útsendingu á leik úr knattspyrnuhúsinu Boganum á Akureyri þar sem leikur fór fram, við töluvert aðrar aðstæður en í Víkinni, þ.e. í snjóleysi, logni og blíðu, þó að utan dyra væri allt á kafi í snjó!

Sjá meðfylgjandi myndir sem segja allt sem segja þarf.

     

Það er veðravíti við Hásteinsvöll?

Það flaug því upp í huga minn hvort aðstæður til knattspyrnuiðkunnar væru ekki mun betri innan veggja og undir þaki í vetrarverðrum Íslands og ekki síst í Eyjum? Ekki verður sú spurning minna áleitin þegar horft er til staðsetningar  Hásteinsvallar, þar sem náttúruleg skilyrði valda því að þar er ansi oft illa stætt eða vært í vetrarveðrum og því bara alls ekki mögulegt að stunda þar æfingar og keppni af einhverju viti. Ekki einu sinni fyrir fullorðna og hvað þá fyrir börn.

Knatthús nýbyggt í Garðabæ þó að gervigrasvöllur hafi verið til staðar og vindálag sé mun minna en í Eyjum

Það er líka vert að hafa í huga að t.d. Stjarnan í Garðabæ, sem státar af ágætum gervigrasvelli, hefur nú fengið stórt knatthús til æfinga og keppni yfir vetrartímann og sömu sögu er að segja úr Kópavoginum þar sem Breiðablik hefur bæði hús og gervigrasvöll.

Getur það verið að menn telji það nauðsynlegt á þessum stöðum að hafa skjól fyrir veðri og vindum yfir vetrartímann. Ef svo er þá er líklegt að slíkt sé ekki síður nauðsynlegt í Eyjum þar sem vindálagið er margfallt meira en á höfuðborgarsvæðinu.

Hvaða forsendur voru lagðar til grundvallar ákvörðuninni?

Það er líka vert að velta því upp hvaða forsendur voru lagðar til grundvallar ákvörðuninni um að leggja gervigras á Hásteinsvöll. Eru forsendurnar þær að skapa aðstöðu fyrir barna- og unglingastarf knattspyrnunnar í Eyjum? Eða er bara verið að horfa til æfinga- og keppnisvallar fyrir meistaraflokka ÍBV? Klárlega spurningar sem nauðsynlegt er að fá svör við.

Eftir því sem að mér skilst, á þeim sem mun meira vit hafa á þessu en ég, þá er þetta ein af þeim grunnforsendum sem hafa þarf að hafa í huga við ákvörðun sem þessa. Ef leggja á völlinn hágæða gervigrasi fyrir kepnisvöll, líkt og er á Valsvellinum á Hlíðarenda, þá verði að stilla mjög í hóf æfingaálagi á völlinn og ólíklegt sé að yngri flokkar muni hafa nokkurn aðgang að vellinum til æfinga, þá daga sem hugsanlega viðrar til að nota völlinn yfir vetrartímann. Voru þessar forsendur lagðar fyrir við ákvörðanatökuna? Lá fyrir ítarleg úttekt og yfirferð um þennan þátt?

Voru gerðar ítarlegar veðurfarsrannsóknir á Hásteinsvelli?

Við, sem gerum eitthvað af því að hreyfa okkur utandyra í Eyjum yfir vetrartímann, þekkjum það veðravíti sem oft er við Hásteinsvöll. Maður hreinlega tommar ekki á móti vindstrengnum þar. Voru gerðar veðurfarsrannsóknir við völlinn að vetrarlagi og lagðar til grundvallar við ákvörðunina? Hefur t.d. verið fylgst með því í vetur hvernig veðurlag hefur verið á svæðinu?

Hefur einhver velt fyrir sér eða skoðað hversu marga daga, á liðnum vetri, hefði verið mögulegt að stunda æfingar og keppni á gervigrasi á Hásteinsvelli? Hefur það verið skoðað hversu marga daga hefði mátt nýta þar til æfinga og keppni fyrir yngri flokka?

Lét Vestmannaeyjabær gera kostnaðarmat og greiningu?

Það er líka vert að velta upp hversu ítarleg kostnaðargreining og áætlanir voru lagðar til grundvallar þeirri ákvörðun sem tekin var. Eru það faglegar áætlanir sem standast? Það er búið að byggja nokkra svipaða velli og því ætti að vera nokkuð auðvelt að finna út raunverulegan kostnað.

Hefur Vestmannaeyjabær látið gera raunverulega kostnaðagreiningu og samanburð á kostnaði við gervigras á Hásteinsvöll og því að stækka Herjólfshöllina? Liggur fyrir mat á því hver viðhaldskostnaður mun verða á væntanlegum gervigrasvelli?

Í áðurnefndri grein Magnúsar Vals kemur fram að reikna megi með að endurnýja þurfi gervigras á um 5 ára fresti og kostnaður við það sé um 80 milljónir. Var það tekið með inn í heildarmyndina?

Hásteinsvöllur er líklega einn besti grasvöllur landsins

Það er líka vert að hafa í huga að vegna landfræðilegrar staðsetningar þá er Hásteinsvöllur sá grasvöllur sem yfirleitt er fyrstur á landinu tilbúinn til notkunar, hvert vor, og líklega hægt að nota hann lengur fram eftir hausti en aðra velli. Ef einhversstaðar á Íslandi er hægt að lengja tímabil fótboltans og spila á náttúrulegu grasi þá ætti það að vera í Eyjum, svo fremi að vel sé hugað að vellinum og hugsað um hann.

Myndin sem hér fylgir og var tekin um miðjan apríl segir talsvert um það.

Verður plastið umhverfisvænt ef að það er kallað gras?

Svona í lokin er líka vert að velta fyrir sér, í ljósi umhverfisstefnu, náttúruverndar, mengunar af plasti og fleira í þeim dúr, hvort að það samræmist alveg umhverfismarkmiðum bæjaryfirvalda að fjarlægja náttúrulegt gras af hundruðum fermetra til að leggja á það svæði mengandi plast í tonnatali, sem síðan þarf að endurnýja með tilheyrandi förgun á því gamla á nokkurra ára fresti, til langrar framtíðar. Ætli það sé mjög umhverfisvænt? Ætli það falli vel að mengunarvörnum, náttúruvernd og umhverfisstefnum?

Bæjarstjórn ber ábyrgðina og getur ekki vísað henni annað

Þær spurningar sem ég hef velt upp hér finnst mér nauðsynlegt að velta upp og leita svara við. Mér finnst lágmarkskrafa að umræða um svo mikilvægt mál sé vel þroskuð og góð fagleg vinna, rannsóknir og úttektir, sem taki tillit til allra nauðsynlegra þátta, séu grunnurinn að slíkri ákvörðunartöku. Skattfé íbúa í Vestmannaeyjum mun fara í þessa framkvæmd og viðhald á heinni í framtíðinni. Þetta er kostnaðarsöm framkvæmd sem ekki verður snúið aftur með eftir að hún er komin af stað og því er vert að hafa allt uppi á borðum og taka upplýsta ákvörðun.

Svona ákvörðun má því ekki vera afgreidd í flýti og án nauðsynlegrar undirbúningsvinnu af hálfu bæjaryfirvalda. Hroðvirknisleg ákvörðun, kannski byggð fyrst og fremst á því að kosningar eru í nánd, má ekki vera grunnurinn að svo mikilvægri ákvarðanatöku.

Það að ekki virðist ekki ríkja eining um þessa ákvörðun innan raða ÍBV, eins og áður hefur verið nefnt, er kannski líka góð vísbending um að málið sé alls ekki nægjanlega þroskað, vel unnið eða undirbúið.

Bæjarstjórn ber samt sem áður alla ábyrgð á þessu máli og þarf því að leggja fram gögn og mat sem sína á óyggjandi hátt á hverju ákvörðun bæjaryfirvalda byggist. Þar hlýtur krafan að vera bærinn hafi sjálfur látið framkvæma ítarlega úttekt á því hvað er skynsamlegasta leiðin þegar tekið er tillit til allra þátta. Það þýðir ekki að vísa þeirri ábyrgð á einhverja aðra.

Mér finnst vert að opna þessa umræðu, nú í aðdraganda kosninga, og leitast við að fá einhver svör við þeim spurningum sem hér hefur verið varpað fram, því alveg er ljóst að það er enginn einhugur um þessa ákvörðun hvorki innan ÍBV né meðal bæjarbúa.

 

Grímur Gíslason

 

 

Fáðu nýjustu fréttirnar beint í æð

10.September'18

Með því að fylgja Eyjar.net færðu nýjustu fréttirnar frá Eyjum beint í æð. Smelltu hér til að fara á facebook-síðu Eyjar.net.

Má bjóða þér að auglýsa hér?

23.Júní'22

Hér má auglýsa allt milli himins og jarðar! Sendu línu á auglysingar@eyjar.net og saman finnum við lausn sem hentar þér.

Mannlíf og saga - hlaðvarp

2.Mars'21

Fylgstu með hlaðvarpinu Mannlíf og saga. Nýr þáttur kemur út á hverjum fimmtudegi og er hlaðvarpið aðgengilegt hér á Eyjar.net og einnig á helstu veitum, svo sem Spotify. Sjá nánar hér...