Grímur Gíslason skrifar:

Skriðið úr skápnum

14.Apríl'22 | 16:30
grimur_g

Grímur Gíslason

Ég væri klárlega að ljúga ef ég segði að það hefði komið mér á óvart að sjá Pál Magnússon leiða framboð H-listans fyrir komandi bæjarstjórnarkosningar. 

Ég væri líka að ljúga ef að ég segði að það hafi ekki komið mér verulega á óvart þegar að Páll hringdi í mig, sem þáverandi formann kjördæmisráð Sjálfstæðisflokksins í Suðurkjördæmi, og viðrað þá hugmynd sína að gefa kost á sér sem leiðtogi Sjálfstæðismanna í því prófkjöri sem þá var í vændum hjá Sjálfstæðisflokknum.

Ég hafði fram að því haldið að Páll væri ekki sömu megin veggjar í pólitíkinni og ég, en með traustri og kunnuglegri rödd fjölmiðlamannsins og miklum sannfæringarkrafti var öllum efasemdum mínum eytt í hvelli. Páll fullvissaði mig um að hann hafi alla tíð fylgt Sjálfstæðisflokknum að málum. Þar hafi pólitískt hjarta hans slegið, þó svo að margir hafi haldið annað!

Páll sannfærði greinilega fleiri en mig því hann sannarlega rúllaði upp prófkjörinu og flaug inn á þing árið 2016 vængjaður atkvæðum Sjálfstæðismanna sem trúðu honum og treystu fyrir oddvitasætinu í Suðurkjördæmi.

Undarlegt pólitískt framhjáhald

Fyrir bæjarstjórnarkosningarnar fyrir réttum 4 árum börðumst við Páll, ásamt fleirum, fyrir því að efnt yrði til prófkjörs til að stilla upp á lista Sjálfstæðismanna í Eyjum. Ég barðist fyrir því með von um að þannig mætti skapa öfluga samstöðu, með hagsmuni flokksins og Eyjanna í huga, því að ég óttaðist að það sem síðar gerðist gæti hugsanlega gerst.

Ég veit ekki hvort það sama braust um í höfði Páls og réði minni sannfæringu en eftir á að hyggja rennir mig í grun að hann hafi hugsað á allt annan hátt en ég á þessum tíma. Við, sem vildum prófkjör, urðum undir í þessari baráttu og í kjölfarið ákvað hluti þess fólks sem ósátt var með þá niðurstöðu að segja skilið við Sjálfstæðisflokkinn, ganga til liðs við andstæðinga flokksins, og efna til sérstaks framboðs. Í framhaldi af því hófst síðan hjá Páli eitthvert undarlegasta pólitíska framhjáhald sem sögur fara af.

A-D-H-D greiningin

Reyndar vildu einhverjir gárungar meina að Páll væri illa haldinn af A-D-H-D, þar sem hann hafi verið stuðningsmaður alþýðuflokksins, A-listans þar til hann ákvað að ganga til liðs við D-listann, síðan hefði hann stutt H – listann en samt þóst vera D-lista maður. Kannski ekki svo galin greining?

Í vanda með hneigð sína og í fjölkæru sambandi

Ég held að farið hafi framhjá fáum sá pólitíski áttunarvandi sem Páll hefur glímt við sl. 4 ár. Hann virðist hafa verið í miklum vanda með pólitíska hneigð sína og verið í einhverskonar fjölkæru pólitísku sambandi. Þingmaður Sjálfstæðisflokksins, leiðtogi flokksins í Suðurkjördæmi, en óopinber stuðningsmaður og virkur bakhjarl annars stjórnmálaafls í kjördæminu. Það er því fagnaðarefni að Páll skuli nú hafa ákveðið að skríða út úr skápnum og opinbera hvar hann í raun stendur í pólitíkinni. Það er betra að koma bara til dyranna eins og maður er klæddur, hvort sem að maður hefur einfaldan smekk eður ei.

Á hann samt enn við áttunarvanda að stríða?

Útskýringar Páls á framboðinu og söguskýringar þær sem hann hefur boðið upp á eru hins vegar frekar aumar. Að tala nú um eitthvert klofningsframboð úr Sjálfstæðisflokknun er eiginlega bara hjákátlegt. Það gat kannski átt við fyrir 4 árum en ekki nú, svo mörg vötn eru fallin til sjávar frá þeim tíma. Í millitíðinni hafa t.d. farið fram alþingiskosningar og all margir félaga Páls í H-listanum, sem á árum áður voru dyggir stuðningsmenn Sjálfstæðisflokksins, lýstu yfir opinberum stuðningi við önnur framboð í þeim kosningum.

Það virðist því sem að einhver áttunarvandi sé enn að hrjá Pál og að hann haldi, eða kannski reyni að telja öðrum trú um, að hann sé í framboði fyrir Sjálfstæðisflokkinn, þó að hann sé kominn í framboð fyrir annað stjórnmálaafl. Kannski vonast hann til að stuðningsmenn Sjálfstæðisflokksins falli aftur fyrir fagurgalanum og fjölmiðlaröddinni og vængjaður atkvæðum þeirra geti hann nú flogið inn í bæjarstjórn!

Bara svo að því sé til haga haldið fyrir illa áttaðan Pál þá er bara einn listi Sjálfstæðismanna í framboði fyrir komandi bæjarstjórnarkosningar í Eyjum. D-listi Sjálfstæðisflokks.

Undarleg sáttagjörð

Ég fagna því hins vegar að sjá yfirlýsingar Páls um áhuga og vilja hans að að ná sáttum milli þeirra sem yfirgáfu Sjálfstæðisflokkinn fyrir 4 árum, og gengu til liðs við H-lista, og Sjálfstæðismanna. En að nálgun hans á sáttagjörð felist í því að fara í framboð fyrir þá sem berjast gegn Sjálfstæðisflokknum er vægast sagt frekar undarleg nálgun.

Sjálfstæðisflokkurinnn efndi til opins prófkjörs, til að stilla upp á lista fyrir komandi kosningar. Páll Magnússon, eins og aðrir flokksbundnir Sjálfstæðismenn, gat gefið kost á sér í því prófkjöri. Úr því að hann hafði áhuga á að blanda sér í bæjarmálin í Eyjum þá undrar mig að hann skuli frekar hafa tekið þá ákvörðun að ganga úr Sjálfstæðisflokknum til að láta stilla sér upp á lista andstæðinganna í stað þess að gefa kost á sér í prófkjörinu. Hann sem barðist fyrir prófkjöri fyrir 4 árum og taldi uppstillingu nægjanlega mikla óhæfu til að stuðningi við flokkinn, sem hann hélt samt áfram að vera oddviti fyrir í kjördæminu. Er þetta mjög traust og trúverðugt? Það er að minnsta kosti ástæða til að velta upp þeirri spurningu.

Verður hann maður orða sinna?

Hins vegar verður gaman að fylgjast með framhaldinu. Nú er Páll kominn í þá stöðu að leiða listann, sem hann brennur fyrir að sameina Sjálfstæðisflokknum, eftir því sem skilja má orð hans. Hann hefur því öll spil á hendi hver sem niðurstaða kosinganna verður.

Það mun sannarlega reyna á Pál í þeim efnum því ef að eitthvað er að marka það sem hann segir hlýtur hann, í sáttahug sínum, að leita beint til Sjálfstæðisflokks að afloknum kosningum með samstarf og þá samruna í huga, hvort sem núverandi meirihluti heldur velli eða ekki. Núverandi meirihlutasamstarf H- og E-lista hlýtur því að vera í algjöru uppnámi nema að þar á bæ sé fólk nokkuð visst um að sé óþarfi að leggja einhvern sérstakan trúnað á orð nýja oddvitans í þessum efnum.

 

Grímur Gíslason

 

 

Fáðu nýjustu fréttirnar beint í æð

10.September'18

Með því að fylgja Eyjar.net færðu nýjustu fréttirnar frá Eyjum beint í æð. Smelltu hér til að fara á facebook-síðu Eyjar.net.

Má bjóða þér að auglýsa hér?

23.Júní'22

Hér má auglýsa allt milli himins og jarðar! Sendu línu á [email protected] og saman finnum við lausn sem hentar þér.

Mannlíf og saga - hlaðvarp

2.Mars'21

Fylgstu með hlaðvarpinu Mannlíf og saga. Hlaðvarpsþættirnir eru aðgengilegir hér á Eyjar.net og einnig á helstu veitum, svo sem Spotify. Sjá nánar hér...

Smáauglýsingar

Hér getur þú með einföldum hætti auglýst það sem þú þarft að koma á framfæri allt frá einum sólarhring uppí einn mánuð. Einfaldur greiðslumáti Þú greiðir fyrir auglýsinguna með kreditkorti. Verð kr. 500,- per sólarhring. Um auglýsinguna Stutt fyrirsögn, hámark 35 tákn. Hnitmiðaður texti, hámark 130 tákn. Mynd á JPG sniði, verður sköluð í 130x100 díla (pixel).