Öflugra dýpkunarskip og ríkisstyrkt flug til skoðunar

3.Apríl'22 | 20:00
landeyjah_her_nyr

Herjólfur fór aðeins 34 ferðir til Landeyjahafnar í janúar sl. Til samanburðar voru farnar 286 ferðir til Landeyjahafnar í janúar í fyrra. Ljósmynd/TMS

Ásthildur Lóa Þórsdóttir, þingmaður Flokks fólksins í Suðurkjördæmi spurði Sigurð Inga Jóhannsson, innviðaráðherra um Landeyjahöfn í byrjun febrúar. Svör bárust frá ráðherra fyrsta dag aprílmánaðar.

Fyrsta spurning Ásthildar Lóu var um hversu lengi Landeyjahöfn hafi verið lokuð það sem af er árinu 2022 og hvers vegna?

Aðeins 34 ferðir til Landeyjahafnar í janúar

Fram kemur í svari ráðherra að í janúar 2022 hafi Herjólfur farið 34 ferðir til Landeyjahafnar en 92 til Þorlákshafnar. Tvo daga var ekkert siglt. Ákvarðanir sem þessar eru alltaf teknar með hagsmuni bæði farþega og áhafnar í huga. Til samanburðar voru farnar 286 ferðir til Landeyjahafnar og 20 til Þorlákshafnar í janúar árið 2021. Siglt var alla daga í janúar það ár.

Dýpi í Landeyjahöfn reyndist takmarkað þegar mælt var 15. janúar 2022. Við þær aðstæður þarf að haga siglingum Herjólfs til hafnarinnar eftir sjávarföllum og veðri en ölduhæð þarf að vera undir 3 m og sjávarstaða há. Þá geta dýpkunarskip ekki athafnað sig í mynni Landeyjahafnar þegar ölduhæð er yfir 1,5 m. Það sem af er þessu ári hefur veður verið mjög óhagstætt og ölduhæð almennt yfir mörkum. Sjólag hefur verið óhagstætt í um þrjá mánuði samfellt og ölduhæð yfir 3 m í um helming tímans. Á þessu tímabili hefur aðeins tvisvar gefist veður til dýpkunar í einn dag í senn.

Ríkari kröfur verði gerðar um afköst dýpkunarskips

Þá spurði þingmaðurinn um hvaða aðgerðir séu fyrirhugaðar til að fyrirbyggja að Landeyjahöfn lokist endurtekið og tryggja að hún geti þjónað hlutverki heilsárshafnar svo að hægt verði að treysta á öruggar samgöngur við Vestmannaeyjar?

Þegar Landeyjahöfn var gerð var reiknað með að í meðalárferði yrði nýtingarhlutfall hennar um 92%. Sú var ekki raunin framan af en með tilkomu nýs Herjólfs stórbættist nýting hafnarinnar og árið 2021 var nýtingartími hennar svipaður og áætlanir gerðu ráð fyrir.

Vegagerðin mun bjóða út viðhaldsdýpkun hafnarinnar til næstu þriggja ára vorið 2022. Þá stendur til að gera þá kröfu að dýpkunarskipið hafi nægjanlega afkastagetu til að hægt verði að bregðast hraðar við ef dýpi í höfninni verður það lítið að hætta er á að höfnin lokist líkt og nú er. Engu að síður mun slíkt dýpkunarskip einnig hafa sín takmörk. Því er ljóst að dýpkun mun tefjast við sams konar aðstæður og verið hafa ríkjandi undanfarið. Þá má benda á að þó svo að dýpi sé nægjanlegt geta siglingar einnig raskast ef alda verður eins og hún hefur verið í vetur.

Kanna hvort heimilt sé að hefja ríkisstyrkt áætlunarflug til Eyja

Einnig spurði Ásthildur Lóa hvort ráðherra teldi réttlætanlegt, í ljósi þess hvað samgöngur um Landeyjahöfn hafa löngum verið gloppóttar, að ekki sé daglegt áætlunarflug til Vestmannaeyja?

Í svari ráðherra segir að áreiðanleiki í siglingum til Vestmannaeyja hefur verið nokkuð mikill frá árinu 2019 og þeim dögum þegar aðstæður hafa krafist þess að siglt sé til Þorlákshafnar fækkað mikið.    

En þar sem ekki hefur verið flogið milli lands og Eyja á markaðslegum forsendum síðustu tvo vetur hefur ráðuneytið styrkt til bráðabirgða lágmarksflugsamgöngur milli lands og Eyja. Hefur verið bætt við aukaferðum vegna lokunar Landeyjahafnar á þessu ári. Þá hefur Vegagerðinni verið falið að kanna hvort heimilt sé að hefja ríkisstyrkt áætlunarflug á flugleiðinni á grundvelli skyldu til opinberrar þjónustu. Verði niðurstaðan sú að skilyrði þess séu til staðar er miðað við að ríkisstyrkt flug geti hafist næsta vetur að loknu útboði.

Aðgerðir í undirbúningi

Að endingu spurði þingmaðurinn hver framtíðarsýn ráðherra sé í málefnum Landeyjahafnar og almennt um hvernig tryggja megi öruggar samgöngur við Vestmannaeyjar?

Sigurður Ingi segir í svari sínu að unnið hafi verið að rannsóknum á því hvernig bæta megi aðstæður í Landeyjahöfn og fjölga þar nýtingardögum, m.a. með mannvirkjagerð og öflugri dýpkun, og eru slíkar aðgerðir í undirbúningi. Þá er jafnframt til skoðunar hvort til staðar séu forsendur til að hefja ríkisstyrkt áætlunarflug til Vestmannaeyja.

Fáðu nýjustu fréttirnar beint í æð

10.September'18

Með því að fylgja Eyjar.net færðu nýjustu fréttirnar frá Eyjum beint í æð. Smelltu hér til að fara á facebook-síðu Eyjar.net.

Má bjóða þér að auglýsa hér?

23.Júní'22

Hér má auglýsa allt milli himins og jarðar! Sendu línu á [email protected] og saman finnum við lausn sem hentar þér.

Mannlíf og saga - hlaðvarp

2.Mars'21

Fylgstu með hlaðvarpinu Mannlíf og saga. Hlaðvarpsþættirnir eru aðgengilegir hér á Eyjar.net og einnig á helstu veitum, svo sem Spotify. Sjá nánar hér...

Smáauglýsingar

Hér getur þú með einföldum hætti auglýst það sem þú þarft að koma á framfæri allt frá einum sólarhring uppí einn mánuð. Einfaldur greiðslumáti Þú greiðir fyrir auglýsinguna með kreditkorti. Verð kr. 500,- per sólarhring. Um auglýsinguna Stutt fyrirsögn, hámark 35 tákn. Hnitmiðaður texti, hámark 130 tákn. Mynd á JPG sniði, verður sköluð í 130x100 díla (pixel).