Deilt um miðbæjarskipulag í skipulagsráði
29.Mars'22 | 14:50Umhverfis- og skipulagsráð Vestmannaeyja hélt áfram umfjöllun um þróunarsvæði á Nýja hrauni á fundi ráðsins í gær.
Í fundargerðinni segir að á fundi ráðsins þann 28. febrúar var starfsfólki umhverfis- og framkvæmdasviðs falið að safna saman gögnum sem til eru í málinu og vinna minnisblað um næstu skref í ferlinu við að skapa lóðir til framtíðar á svæði sem skilgreint er sem þróunarsvæði M-2 í aðalskipulagi og tilheyrir miðbænum. Minnisblað liggur fyrir.
Fram kemur í afgreiðslu ráðsins að ráðið feli starfsfólki umhverfis- og framkvæmdasviðs að vinna frekari forsendugreiningu.
Segja enga þörf á nýjum miðbæ
Drífa Þöll Arnardóttir, Jóna Sigríður Guðmundsdóttir og Jónatan Guðni Jónsson fulltrúar E- og H- lista bókuðu eftirfarandi um málið:
Í ljósi opinbera skrifa annars fulltrúa minnihlutans í ráðinu þá er mikilvægt að halda staðreyndum málsins til haga. Tillaga meirihluta E- og H- lista í umhverfis- og skipulagsráði, sem fulltrúar minnihluta D-listans féllust á, sneri að því að óska eftir að minnisblað yrði unnið um næstu skref í ferlinu við að skapa lóðir til framtíðar á svæði sem skilgreint er sem þróunarsvæði - M2 í aðalskipulagi og tilheyrir miðbænum.
Hvorki er talað um tvo miðbæi í tillögu meirihlutans né í gildandi aðalskipulagi og ætti sama fulltúa minnihlutans í ráðinu að vera það fullkunnugt þar sem umræddur fulltrúi minnihlutans kom að vinnu við umrætt aðalskipulag. Í gildandi aðalskipulagi segir „Á skipulagstímabilinu verða hugmyndir um landnotkun á svæðinu þróaðar frekar [...]? einnig kemur fram að „tækifæri skapast til uppbyggingar á svæði við miðbæinn, en í dag er mikil eftirspurn eftir húsnæði fyrir íbúðir og atvinnustarfsemi í miðbænum.“
Það er miður að sami fulltrúi minnihlutans talar um að byggja upp einn góðan miðbæ, ekki tvo slæma. Þvert á móti telur meirihluti E- og H-lista miðbæinn okkar vera góðan og við getum verið stolt af honum: Haldið verður áfram að byggja hann upp og engin þörf á nýjum, segir í bókun meirihlutans.
Stendur við allt það efni sem hún gaf út
Margrét Rós Ingólfsdóttir, fulltrúi D-lista í ráðinu bókaði í kjölfarið, þar sem segir að það sé gaman að sjá að vel heppnað prófkjör Sjálfstæðisflokksins og efni því tengdu hafi náð að hafa svona skemmtileg áhrif á meirihlutann.
Undirrituð stendur við allt það efni sem hún gaf út og er einnig fullkunnugt um hvað stendur í aðalskipulagi sveitarfélagsins enda formaður hóps sem samdi skipulagið, sem gildir til ársins 2035. Hvergi hefur verið farið með rangt mál. Það gefur auga leið að nýjar lóðir undir atvinnustarfsemi á þessu svæði munu dreifa þeirri miðbæjarstemmningu sem verið er að reyna að byggja upp í Vestmannaeyjum. Meirihlutinn má vel reyna að halda öðru fram. Í stað þess að eyða sínum tíma í að agnúast út í mig ætti meirihlutinn að eyða tíma sínum í aðra hluti, segir í bókun Margrétar.
Minnislaðið um þróunarsvæði M-2 Skref í þróun og uppbyggingu má lesa hér.
Má bjóða þér að auglýsa hér?
23.Júní'22Hér má auglýsa allt milli himins og jarðar! Sendu línu á auglysingar@eyjar.net og saman finnum við lausn sem hentar þér.

Fáðu nýjustu fréttirnar beint í æð
10.September'18Með því að fylgja Eyjar.net færðu nýjustu fréttirnar frá Eyjum beint í æð. Smelltu hér til að fara á facebook-síðu Eyjar.net.

Mannlíf og saga - hlaðvarp
2.Mars'21Fylgstu með hlaðvarpinu Mannlíf og saga. Nýr þáttur kemur út á hverjum fimmtudegi og er hlaðvarpið aðgengilegt hér á Eyjar.net og einnig á helstu veitum, svo sem Spotify. Sjá nánar hér...