Skoða viðbótarými á Sóla

18.Mars'22 | 06:05
soli_17

Leikskólinn Sóli. Ljósmynd/TMS

Að beiðni fræðsluráðs tók bæjarráð Vestmannaeyja fyrir nokkrar tillögur og upplýsingar um stöðluð einingahús, sem nýst gætu sem viðbótarrými við leikskólann Sóla og hægt væri að taka í notkun í haust. 

Ljóst er að þörfin á viðbótarrými vegna fjölgunar barna kallar á færanleg viðbótarrými til að mæta fjölguninni. Gert er ráð fyrir að umrædd viðbótarrými verði notuð sem vinnuaðstaða og kaffistofa fyrir starfsfólk og að einum kjarna verði bætt við skólann þar sem kaffistofa og vinnuaðstaða starfsfólks er staðsett nú, segir í fundargerð bæjarráðs.

Í niðurstöðu ráðsins segir að óskað sé eftir því að framkvæmdastjóri umhverfis- og framkvæmdasviðs og fræðslufulltrúi, fundi með fulltrúum leikskólans Sóla og leggi fram tillögur að útfærslu viðbótarrýmis á Sóla og drög að viðauka við fjárhagsáætlun 2022, í samráði við fjármálastjóra, til þess að mæta þeim kostnaði er af þessu hlýst.

Hildur Sólveig Sigurðardóttir, fulltrúi D listans í bæjarráði lét bóka að hún leggi áherslu á að unnið sé að því að finna hagkvæmar lausnir sem miða að því að hægt sé að veita leikskólabörnum pláss við 12 mánaða aldur. Mikilvægt er að þær leiðir sem farnar eru séu unnar í breiðri sátt við starfsfólk og notendur þjónustunnar. Mikilvægt er að horft sé til fjölbreyttra leiða til að mæta stöðunni t.d. hvort þörf sé á upptöku heimagreiðslna.

Njáll Ragnarsson og Jóna Sigríður Guðmundsdóttir, fulltrúar E og H lista bókuðu að leikskóli sé fyrsta skólastigið og mikilvægt er að samfella sé í námi barna. Í Vestmannaeyjum eru þrír mjög góðir leikskólar. Allir sem starfa innan málaflokksins hafa mikinn metnað fyrir leikskólastarfi í Vestmannaeyjum. Mikilvægt er að leita leiða til þess að veita börnum leikskólapláss við 12 mánaða aldur og að breið sátt allra hlutaðeigandi ríki um þær leiðir sem farnar eru með þarfir allra nemenda að leiðarljósi.

 

Mannlíf og saga - hlaðvarp

2.Mars'21

Fylgstu með hlaðvarpinu Mannlíf og saga. Nýr þáttur kemur út á hverjum fimmtudegi og er hlaðvarpið aðgengilegt hér á Eyjar.net og einnig á helstu veitum, svo sem Spotify. Sjá nánar hér...

Má bjóða þér að auglýsa hér?

23.Júní'22

Hér má auglýsa allt milli himins og jarðar! Sendu línu á auglysingar@eyjar.net og saman finnum við lausn sem hentar þér.

Fáðu nýjustu fréttirnar beint í æð

10.September'18

Með því að fylgja Eyjar.net færðu nýjustu fréttirnar frá Eyjum beint í æð. Smelltu hér til að fara á facebook-síðu Eyjar.net.