Deilt um upplýsingaflæði og ábyrgð á dótturfélagi

3.Mars'22 | 12:00
herjolfur_nyr_eyjum

Herjólfur. Ljósmynd/TMS

Herjólfur ohf., dótturfélag Vestmannaeyjabæjar var til umfjöllunar á fundi bæjarráðs í gær. Á fundinn kom Hörður Orri Grettisson, framkvæmdastjóri Herjólfs ohf.

Fram kemur í fundargerð að Hörður Orri hafi greint ráðinu frá stöðu félagsins. Meðal annars fór Hörður Orri yfir farþegafjölda og rekstur ársins 2021, rekstraráætlun fyrir árið 2022, rekstrarniðurstöðu janúarmánaðar 2022 og stöðuna á mönnun.

Þessu tengt: 37% aukning á milli ára

Ánægjulegt að bæta eigi úr reglulegri upplýsingagjöf

Hildur Sólveig Sigurðardóttir, fulltrúi D listans í bæjarráði bókaði um málið. Þar segir að ánægjulegt sé að bæta eigi úr reglulegri upplýsingagjöf til kjörinna fulltrúa vegna málefna Herjólfs ohf. í kjölfar athugasemda bæjarfulltrúa Sjálfstæðisflokks á síðasta bæjarstjórnarfundi. Samkvæmt eigendastefnu Herjólfs ohf. sem meirihluti bæjarstjórnar samþykkti kemur fram að samskipti milli eigenda og fyrirtækisins skuli vera eftir formlegum leiðum og leitast skal við að beina þeim í farveg aðalfunda og reglubundinna eigendafunda.

Upplýst umræða um félagið gagnast m.a. kjörnum fulltrúum annars vegar sem fulltrúum eigenda félagsins og hins vegar í hagsmunagæslu samfélagsins. Auk þess uppfyllir bæjarstjórn betur með opinni umræðu um málefni félagsins ákvæði eigendastefnu þar sem stendur að; "handhafar eigendavalds leitast við að efla upplýsta og lýðræðislega umræðu um málefni Vestmannaeyjaferjunnar Herjólfs ohf. og samgöngur milli lands og Eyja á vettvangi sveitarstjórnarinnar og á fundum eigenda."

Gagnkvæm virðing og traust þurfi að ríkja

í kjölfarið bókuðu Njáll Ragnarsson og Jóna Sigríður Guðmundsdóttir, fulltrúar E og H lista. 

Fram kemur í bókun þeirra að upplýsingaflæði frá Herjólfi ohf. til bæjarráðs og bæjarstjórnar verði gott hér eftir sem hingað til. Fulltrúar félagsins hafa komið reglulega inn á fundi bæjarráðs og fundað með bæjarstjórn. Það er því ekkert nýtt að kjörnir fulltrúar séu upplýstir um stöðu félagsins.

Þá er sérstaklega ánægjulegt að fulltrúi Sjálfstæðisflokksins í bæjarráði átti sig nú á því að allir kjörnir fulltrúar bera ábyrgð á rekstri félagsins. Samstaða um samgöngumál er mikilvæg nú sem aldrei fyrr. Gagnkvæm virðing og traust þarf að ríkja og kjörnir fulltrúar þurfa að sameinast um að byggja upp slíkt traust.

Aldrei hlaupist undan ábyrgð

Að endingu bókaði fulltrúi D listans eftirfarndi: Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins hafa aldrei hlaupist undan ábyrgð gagnvart málefnum Herjólfs þrátt fyrir ítrekaðar ásakanir meirihluta um slíkt.
 

Mannlíf og saga - hlaðvarp

2.Mars'21

Fylgstu með hlaðvarpinu Mannlíf og saga. Nýr þáttur kemur út á hverjum fimmtudegi og er hlaðvarpið aðgengilegt hér á Eyjar.net og einnig á helstu veitum, svo sem Spotify. Sjá nánar hér...

Fáðu nýjustu fréttirnar beint í æð

10.September'18

Með því að fylgja Eyjar.net færðu nýjustu fréttirnar frá Eyjum beint í æð. Smelltu hér til að fara á facebook-síðu Eyjar.net.

Má bjóða þér að auglýsa hér?

23.Júní'22

Hér má auglýsa allt milli himins og jarðar! Sendu línu á auglysingar@eyjar.net og saman finnum við lausn sem hentar þér.