Fleiri segja upp störfum hjá Herjólfi
1.Febrúar'22 | 12:10Fram kom í fjölmiðlum um helgina að skipverjar í áhöfn Herjólfs hafi undanfarið sagt upp störfum, og er hluti þeirra uppsagna rakin til ólgu og er mál yfirskipstjóra sagt í einhverjum tilvika hafa verið kornið sem fyllti mælinn.
Samkvæmt heimildum Eyjar.net skilaði einn vélstjóra ferjunnar inn uppsagnarbréfi í gær, og annar vélstjóri íhugar alvarlega að gera slíkt hið sama.
Áður höfðu fjórir í áhöfn Herjólfs sagt upp störfum. Samkvæmt heimildum Eyjar.net funduðu fulltrúar áhafnarinnar með stjórn og framkvæmdastjóra útgerðarinnar í byrjun síðustu viku. Sá fundur var samkvæmt sömu heimildum ekki til að höggva á hnútinn, heldur þvert á móti. Í kjölfar þess fundar ákváðu tveir starfsmenn að segja upp störfum hjá félaginu.
Tveir starfsmenn sögðu upp störfum nýverið, þau Sigmar Logi Hinriksson skipstjóri og Ingibjörg Bryngeirsdóttir stýrimaður og samkvæmt heimildum Eyjar.net sagði Elís Jónsson, vélstjóri upp í gær.
Bæjarráð fundaði með stjórn Herjólfs
Stjórn og framkvæmdarstjóri Herjólfs ohf. komu á fund bæjarráðs Vestmannaeyja í gær og var farið yfir málefni félagsins og stöðu réttindamáls að því marki er hægt var að veita upplýsingar um það mál, segir í upphafi fundargerðarinnar. Þar er tekið fram að allir bæjarfulltrúar hafi fengið boð á fundinn með fulltrúum Herjólfs ohf.
Bæjarstjórn skipar stjórn Herjólfs ohf. Samkvæmt hlutafélagalögum og samþykkt Herjólfs ohf., fer stjórn félagsins með æðsta vald í málefnum félagsins milli hluthafafunda. Stjórn Herjólfs ohf., er nú skipuð þeim Arnari Péturssyni, formanni, Guðlaugi Friðþórssyni, Agnesi Einarsdóttur, Páli Guðmundssyni og Arndísi Báru Ingimarsdóttur, aðalmönnum. Varamenn eru Aníta Jóhannsdóttir og Birna Þórsdóttir Vídó. Framkvæmdastjóri annast daglegan rekstur félagsins. Framkvæmdastjóri Herjólfs ohf. er Hörður Orri Grettisson.
Það er því skýrt kveðið á um í lögum og samþykktum félagsins að hluthafi fari eingöngu með vald sitt á hluthafafundum og stjórn félagsins og framkvæmdastjóri beri ábyrgð á málefnum félagsins þess á milli.
Félagaform Herjólfs ohf. er með þeim hætti að pólitískir fulltrúar stígi ekki inn í stjórnun eða starfsmannamál félagsins. Hins vegar getur hluthafi kallað eftir upplýsingum um starfsemina, innan þeirra marka er lög um hlutafélög, upplýsingalög og/eða önnur lög, eigi þau við, kveða á um, segir enn fremur í fundargerð bæjarráðs.
Telja að ekki þurfi að koma til skerðingar á þjónustu
Í afgreiðslu ráðsins segir að bæjarráð þakki stjórn Herjólfs ohf. og framkvæmdastjóra upplýsingarnar. Bæjarráð tekur undir með stjórn félagsins um alvarleika málsins og mikilvægi þess að vinna það áfram með hagsmuni félagsins, starfsfólks og samfélagsins að leiðarljósi.
Þá leggur bæjarráð áherslu á mikilvægi þess að ekki komi til skerðingar á þjónustu Herjólfs ohf., en fram kom í máli stjórnar að hún teldi svo ekki verða.
Að endingu lagði Hildur Sólveig Sigurðardóttir, fulltrúi D lista fram bókun þar sem segir að undirrituð leggi áherslu á góða upplýsingagjöf og samskipti stjórnar við eigendur, starfsmenn og aðra hlutaðeigandi.

Mannlíf og saga - hlaðvarp
2.Mars'21Fylgstu með hlaðvarpinu Mannlíf og saga. Nýr þáttur kemur út á hverjum fimmtudegi og er hlaðvarpið aðgengilegt hér á Eyjar.net og einnig á helstu veitum, svo sem Spotify. Sjá nánar hér...
Má bjóða þér að auglýsa hér?
23.Júní'22Hér má auglýsa allt milli himins og jarðar! Sendu línu á auglysingar@eyjar.net og saman finnum við lausn sem hentar þér.

Fáðu nýjustu fréttirnar beint í æð
10.September'18Með því að fylgja Eyjar.net færðu nýjustu fréttirnar frá Eyjum beint í æð. Smelltu hér til að fara á facebook-síðu Eyjar.net.