Stytting Hörgeyrargarðs auðveldi innsiglingu

13.Janúar'22 | 07:35
innsigling

Ljósmynd/TMS

Á fundi framkvæmda- og hafnarráðs Vestmannaeyja í vikunni var áfram rætt um þróun og framtíðarsýn Vestmannaeyjahafnar.

Fram kemur í fundargerð frá fundinum að hafnastjóri hafi lagt fram minnisblöð sem honum bárust frá annars vegar Útvegsbændafélagi Vestmannaeyja og hins vegar frá hafnsögumönnum og skipstjóra á Lóðsinum vegna styttingu Hörgeyrargarðs.

Segja stórskipahöfn norðan við Eiði álitlegasta kostinn

Fram kemur í bréfi Útvegsbændafélagsins að þeirra mat sé að mestu máli skipti að tryggja góðar flutningsleiðir til og frá Vestmannaeyjum. Til þess þarf að skapa aðstöðu þar sem hægt sé að taka inn stærri flutningaskip og þjónustað þau þegar veður eru vond. Auk þess þurfi að fara að huga að landrými í kringum höfnina, en í dag er það mjög takmarkað og til þess að þjónusta sístækkandi fyrirtæki og skip þarf meira pláss. 

Bréfritarar sjá ekki að þessi framkvæmd (að stytta Hörgeyrargarð) skili okkur einhverju í þeim málum og líta svo á að stórskipahöfn norðan við Eiði sé álitlegasti kosturinn í dag.

Að stytta garðinn um 70 metra muni án efa hafa jákvæð áhrif á innsiglingu skipa

Í minnisblaði hafnsögumanna og skipstjóra Lóðsins segir m.a. að Vestmannaeyjahöfn hafi í samstarfi við Vegagerðina unnið að framtíðarlausn á athafnasvæði hafnarinnar með stækkun í huga til að geta tekið á móti stærri skipum. Ein tillaga sem kynnt hefur verið er stytting Hörgeyrargarðs og snúningssvæði stærri skipa flutt út í Klettsvík.

Þrjár útfærslur voru kynntar. 30 metra stytting, 70 metra stytting og sú þriðja að garðurinn færi allur. Mat bréfritara er að stytting garðsins muni án efa gera innsiglingu stórra skipa betri, einfaldari og öruggari miðað við núverandi aðstæður.

Í niðurlagi minnisblaðsins segir að það sé þeirra mat að á þessari framkvæmda að stytta garðinn um 70 metra muni án efa hafa jákvæð áhrif á innsiglingu skipa til Vestmannaeyja. Þetta muni hiklaust auðvelda það að koma stærri skemmtiferðaskipum inn í höfnina með því að snúa þeim í Klettsvík og bakka þeim inn. Hins vegar líst höfundum minnisblaðsins ekki nægilega vel á þá hugmynd að færa snúningssvæði skipa alfarið út í Klettsvík til að geta tekið inn enn stærri skip en nú sé gert. Þeir benda á að veðrið sé einfaldlega það stór áhrifavaldur hér í eyjum yfir haust- og vetrarmánuðina. Að endingu segja bréfritarar að þeir telji að framtíðarmöguleikar varðandi komu stærri skipa allt árið til Vestmannaeyja liggi í stórskipahöfn norður af Eiðinu fremur en með færslu á snúningssvæði skipa inn í Klettsvík. 

Í afgreiðslu framkvæmda- og hafnarráðs þakkar ráðið fyrir minnisblöðin og leggur áherslu á að stytting Hörgeyrargarðs auðveldar innsiglingu til Vestmannaeyjahafnar en kemur á engan hátt í stað þeirra áforma að koma upp stórskipakanti norðan Eiðis.

Lumar þú á grein?

11.Janúar'19

Endilega sendu okkur hana á eyjar@eyjar.net. Eyjar.net - fyrir alla. 

Fáðu nýjustu fréttirnar beint í æð

10.September'18

Með því að fylgja Eyjar.net færðu nýjustu fréttirnar frá Eyjum beint í æð. Smelltu hér til að fara á facebook-síðu Eyjar.net.

Fréttaskot - Eyjar.net

31.Janúar'18

Ertu með athyglisverða ábendingu eða frétt?
Sendu okkur línu á eyjar@eyjar.net - Fyllsta trúnaðar gætt.

Mannlíf og saga - hlaðvarp

2.Mars'21

Nýtt hlaðvarp/podcast fer í loftið á fimmtudaginn 4. mars nk. Nýr þáttur kemur út á hverjum fimmtudegi og verður hlaðvarpið aðgengilegt á Eyjar.net ásamt helstu veitum svo sem Spotify og Youtube. Fylgstu með...