Tekist á um gjaldskrá Vestmannaeyjabæjar

14.Desember'21 | 12:00
vestm_gig

Vestmannaeyjabær. Ljósmynd/Gunnar Ingi

Gjaldskrá Vestmannaeyjabæjar árið 2022 var til umræðu á fundi bæjarráðs fyrir helgi. Lögð voru fyrir ráðið drög að gjaldskrá vegna álagningar fasteignaskatts, holræsagjalds, sorpeyðingar- og sorphreinsunargjöld fyrir árið 2022.

Jafnframt voru lagðar fram reglur um afslátt af fasteignagjöldum hjá tekjulágum elli- og örorkulífeyrisþegum með lögheimili í Vestmannaeyjum. Gert er ráð fyrir óbreyttu fyrirkomulagi milli ára.

Telur eðlilegra að veita afslátt af skattheimtu en þjónustugjöldum

Hildur Sólveig Sigurðardóttir fulltrúi D listans lagði þar fram eftirfarandi tillögu: 

Meirihluti H- og E- lista vildi ekki reyna á sjálfsákvörðunarrétt sveitarfélagsins fyrir dómstólum í lok árs 2018 þegar hætt var við fyrri ákvarðanir meirihluta Sjálfstæðisflokks um niðurfellingu fasteignaskatts á 70 ára og eldri án samráðs. Sú ákvörðun meirihluta H- og E- lista þýðir að lagðar hafa verið auknar álögur á ákveðinn hóp eldri borgara á kjörtímabilinu. Þess í stað eru viðhöfð tekjuviðmið fyrir afslætti ellilífeyrisþega og öryrkja af fasteigna- og sorpgjöldum. Undirrituð telur eðlilegra að veita afslátt af skattheimtu en þjónustugjöldum.

Undirrituð bendir á að frá þessari breytingu hefur launavísitala hækkað um rúm 18% samkvæmt Hagstofu en aldrei hafa tekjuviðmið afsláttar verið aðlöguð að launavísitölu þrátt fyrir að í reglunum komi fram að endurskoða eigi viðmiðunarfjárhæðirnar árlega. Undirrituð leggur því til að tekjuviðmið afsláttar verði uppreiknuð m.v. launavísitölu frá því þau voru fyrst sett á.

Tillögunni var hafnað með tveimur atkvæðum E og H lista, gegn einu atkvæði fulltrúa D lista.

Samþykkt að reikna út áhrif breytinga á tekjuviðmiðum

Í kjölfarið var lögð fram tillaga frá Njáli Ragnarssyni og Jónu Sigríði Guðmundsdóttur, fulltrúm E og H lista. Þar segir að meirihluti E- og H- lista geti ekki samþykkt tillögu Sjálfstæðisflokksins.

Ákveðins misskilnings virðist gæta hjá fulltrúum Sjálfstæðisflokksins í bæjarráði. Meirihluti E- og H- lista vilja að afsláttur á eldri borgara nái til íbúa 67 ára og eldri en ekki 70 ára og eldri líkt og fulltrúi Sjálfstæðisflokksins leggur til. Sá afsláttur sem hefur verið veittur á yfirstandi kjörtímabili nær til fleira fólks en áður. Þá er ólöglegt að gefa afslátt af skattheimtu líkt og fulltrúi Sjálfstæðisflokksins vill gera. Afar óábyrgt er af kjörnum fulltrúum að tala fyrir lögbrotum líkt og sjálfstæðismenn hafa gert, allt þetta kjörtímabil.

Í ljósi þess að afskaplega óábyrgt er að samþykkja breytingar á gjaldskrám án þess að fyrir liggi kostnaður við þær leggur meirihluti E- og H- lista til að framkvæmdastjóra stjórnsýslu og fjármálasviðs verði falið að reikna út áhrif breytinga á tekjuviðmiðum sbr. launavísitölu.

Tillagan var samþykkt með tveimur atkvæðum E og H lista gegn einu atkvæði D lista. Framkvæmdastjóri stjórnsýslu og fjármálasviðs er falið að leggja fram tvær tillögur á næsta fundi bæjarráðs.

Segir meirihlutann leggja sér orð í munn

Að endingu lagði Hildur Sólveig Sigurðardóttir fram bókun þar sem segir að bæjarráðsfulltrúar meirihlutans leggi undirritaðri orð í munn þegar þeir segja að undirrituð vilji eingöngu veita 70 ára og eldri afslátt af gjaldskrám, í stjórnartíð Sjálfstæðisflokks voru 67 ára og eldri veittir tekjutengdir afslættir en 70 ára og eldri fengu fulla niðurgreiðslu fasteignaskatts. Óábyrgt er að bæjarráðsfulltrúar meirihlutans séu að reyna að halda fram staðreyndavillum. Hvergi hefur verið dæmt hjá dómstólum að um lögbrot sé að ræða.

Undirrituð hefði viljað að Vestmannaeyjabær stæði í fæturnar gegn ráðuneytinu sem er ekki dómstóll. Eðlilegt er að bundin séu við lög hámörk skattheimtu en sveitarfélagi ætti að vera heimilt að veita, ekki síst viðkvæmum hópum möguleika á afslætti eða niðurfellingu skatta. Óeðlilegt er að ríkið þvingi sveitarfélög til skattpíningar eldri borgara. Ánægjulegt er að skoðað verði að hækka tekjuviðmiðin í takt við þróun launavísitölu eins og undirrituð lagði til.

 

Fáðu nýjustu fréttirnar beint í æð

10.September'18

Með því að fylgja Eyjar.net færðu nýjustu fréttirnar frá Eyjum beint í æð. Smelltu hér til að fara á facebook-síðu Eyjar.net.

Mannlíf og saga - hlaðvarp

2.Mars'21

Fylgstu með hlaðvarpinu Mannlíf og saga. Nýr þáttur kemur út á hverjum fimmtudegi og er hlaðvarpið aðgengilegt hér á Eyjar.net og einnig á helstu veitum, svo sem Spotify. Sjá nánar hér...

Má bjóða þér að auglýsa hér?

23.Júní'22

Hér má auglýsa allt milli himins og jarðar! Sendu línu á auglysingar@eyjar.net og saman finnum við lausn sem hentar þér.