Fasteignasalan Bær opnar í Eyjum

4.Nóvember'21 | 16:47
fasteignas_baer_opnun

Snorri Sigurfinnsson, Guðrún Hulda Ólafsdóttir, Halldóra Kristín, Sigurlaug Ásta Sigvaldadóttir og Páll. Ljósmynd/TMS

Halldóra Kristín Ágústsdóttir opnaði um mánaðarmótin fasteignasölu á Strandveginum, nánar tiltekið á jarðhæðinni í Valhöll. 

Halldóra Kristín eða Dóra eins hún er ávallt kölluð kláraði löggildingu fasteignasala árið 2017. Starfsnámið fór hún í gegnum uppá landi og þegar því var lokið lá beinast við að demba sér í djúpu laugina, líkt og hún orðar það.

„Ég hef lengi haft mikinn áhuga á fasteignamarkaðinum og hlakka til að fá að þjónusta Vestmannaeyinga.” segir hún í samtali við Eyjar.net.

Tækifæri í samstarfinu

Aðspurð um hvort hún sé komin með eignir á skrá segir Dóra að hún sé nú þegar  komin með nokkrar eignir, en hún vill gjarnan fá fleiri eignir á skrá. „Þessa dagana virðist vera nokkur eftirspurn eftir einbýlishúsum í Eyjum.” segir hún og bætir við að hún hafi fengið nokkur símtöl frá fólki sem bíður eftir eignum sem henta á skrá.

Er talið berst að Fasteignasölunni Bæ sem hún fékk til liðs við sig segir Dóra að sú sala hafi starfað í mörg ár bæði á höfuðborgarsvæðinu og einnig á Selfossi.

„Samstarfið snýst meðal annars um samnýtingu á fasteignasölukerfi, ráðgjöf o.þ.h. Samstarfið hefur gengið mjög vel hingað til og við sjáum ákveðin tækifæri í að auka það í framtíðinni. Eitt tækifærið er t.a.m. að aðstoða eyjafólk að finna eignir á höfuðborgarsvæðinu eða á Suðurlandi.”

Hvetur fólk til að kíkja við

Líkt og áður segir er fasteignasalan til húsa á Strandvegi 43a og er opið virka daga frá klukkan 11 – 16. Dóra segir að sem hluti af starfinu mun hún vera út í bæ öðru hvoru en mun þó vera með símann á milli klukkan 9 og 18.

Hún hvetur fólk sem er í sölu- eða kaup- hugleiðingum til þess að kíkja á sig eða heyra í sér. „Ég lofa frábærri þjónustu og góðu viðmóti.” segir nýjasti fasteignasali bæjarins.

Spennandi að opna í Eyjum með heimamann í forsvari

Páll Guðjónsson, einn eiganda Fasteignasölunnar segir í samtali við Eyjar.net að það leggist mjög vel í þau að opna útibú í Eyjum.

„Við erum með mikla reynslu í sölu á eignum á Suðvesturhorninu og Suðurlandi enda með söluskrifstofur í Ögurhvarfi 6 í Kópavogi  og Austurvegi 26 á Selfossi. Það er því spennandi að opna í Vestmannaeyjum með heimamann í forsvari.”

Hröð og mikil uppbygging um allt Suðurland

„Við teljum að það sé tækifæri á fasteignamarkaði í Vestmannaeyjum er viðkemur uppbyggingu nýrra hverfa og svo bættra og vandaðri vinnubragða við sölu fasteigna almennt svo ekki sé talað um tækifæri í rafrænum undirritunum, og bráðum rafrænum þinglýsingum. Á undanförnum misserum hefur verið hröð og mikil uppbygging um allt Suðurland og sérstaklega á Selfossi sem við teljum að muni smita út frá sér um allt Suðurland og til Vestmannaeyja sem er einn fallegasti staður á Íslandi.” segir hann.

Ekki alveg eins mikil spenna og undanfarin ár

Fasteignasalann Bær hefur verið starfrækt frá árinu 2007. Fyrst á Malarhöfða í Reykjavík og síðar í Ögurhvarfi Í Kópavogi.

„Fyrir 10 árum opnuðum við útibú á Selfossi sem hefur frá upphafi fengið gríðarlega góðar viðtökur. Fasteignamarkaðurinn á Suðurlandi hefur verið gríðarlega kraftmikill síðustu ár og mikil fjölgun íbúa sérstaklega í Árborg þar sem hefur fjölgað um ca. 500 íbúa á ári.” segir Páll.

Aðspurður um hver staðan sé á fasteignamarkaðinum í dag segir hann að staðan sé ennþá góð er viðkomi sölu fasteigna. „Þó finnum við að það er ekki alveg eins mikil spenna og undanfarin ár og sumar eignir sem seldust jafnvel samdægurs sitja aðeins lengur á söluskrá.”

Hér má skoða vefsíðu fasteignasölunnar.

 

Má bjóða þér að auglýsa hér?

23.Júní'22

Hér má auglýsa allt milli himins og jarðar! Sendu línu á auglysingar@eyjar.net og saman finnum við lausn sem hentar þér.

Fáðu nýjustu fréttirnar beint í æð

10.September'18

Með því að fylgja Eyjar.net færðu nýjustu fréttirnar frá Eyjum beint í æð. Smelltu hér til að fara á facebook-síðu Eyjar.net.

Mannlíf og saga - hlaðvarp

2.Mars'21

Fylgstu með hlaðvarpinu Mannlíf og saga. Nýr þáttur kemur út á hverjum fimmtudegi og er hlaðvarpið aðgengilegt hér á Eyjar.net og einnig á helstu veitum, svo sem Spotify. Sjá nánar hér...