Bjartar horfur í áætlun bæjaryfirvalda

- áætla 259 milljóna rektrarafkomu samstæðu á næsta ári

28.Október'21 | 11:15
skolal_hamarssk_0921

Áfram verður unnið að hönnun og framkvæmd viðbyggingar við Hamarsskóla og eru áætlaðar 200 milljónir til verksins á næsta ári. Ljósmynd/TMS

Á þriðjudaginn síðastliðinn fór fram fyrri umræða bæjarstjórnar um fjárhagsáætlun Vestmannaeyjabæjar fyrir árið 2022. Íris Róbertsdóttir, bæjarstjóri flutti framsögu á fundinum um fjárhagsáætlun Vestmannaeyjabæjar og stofnana hans.

Hugsanleg aðkoma að uppbyggingu tengdu íþróttastarfi gæti breytt áætlaðri afkomu

Fram kom í framsögu bæjarstjóra að óhætt sé að líta björtum augum á horfur næsta árs. Atvinnuþátttaka í Vestmannaeyjum er góð og Hafrannsóknarstofnun gaf nýverið út stórauknar aflaheimildir um loðnuveiðar á næsta ári, en enn má búast við að áhrif faraldursins gæti á fjárhag bæjarfélagsins með tilheyrandi áhrifum á rekstrarafkomu. Tekjur er þó alltaf varlega áætlar og það er svo líka í þessari áætlun. Í fjárhagsáætluninni er gert ráð fyrir 121 m.kr. rekstrarafkomu á A- hluta og 259 m.kr. rektrarafkomu samstæðunnar, en áætlunin getur tekið einhverjum breytingum milli umræðna, sérstaklega vegna hugsanlegrar aðkomu Vestmannaeyjabæjar að uppbyggingu tengdri íþróttastarfi og öðrum áhersluverkefnum sem tekið verður fyrir milli umræðna.

Óbreytt útsvarsprósenta milli ára

Gert er ráð fyrir sömu útsvarsprósentu milli ára, 14,46%, en álagsprósenta fasteignaskatts lækkar á íbúðarhúsnæði í þriðja skiptið á kjörtímabilinu og á atvinnuhúsnæði, annað árið í röð. Tillaga liggur fyrir um að hækka ekki gjaldskrár leikskólagjalda, matarkostnaðar fyrir börn í grunn- og leikskólum, matarkostnað hjá eldri borgurum og dagvistargjöld. Mikilvægt er að stilla opinberum álögum í hóf til að auka kaupmátt og kjarabætur lágtekjuhópa.

11 milljónir til átaksins „Viltu hafa áhrif?

Í fjárhagsáætluninni er sömuleiðis gripið til margháttaðra aðgerða til að bæta þjónustu sveitarfélagsins. Gert er ráð fyrir að frístundastyrkur aukist úr 35.000 kr. í 50.000 kr. fyrir hvert barn. Jafnframt er gert ráð fyrir að reglur um lækkun fasteignaskatts á elli- og örorkulífeyrisþega tryggi áfram að tekjulágir eldri borgarar njóti afsláttar af fasteignaskatti, sorpeyðingargjöldum og lóðarleigu. Áfram verði myndarlegur stuðningur við markaðssetningu Vestmannaeyja fyrir ferðamenn, sem og markaðsátak um Vestmannaeyjar sem ákjósanlegan búsetukost fyrir ungt fólk. Gert er ráð fyrir áframhaldandi spjaldtölvuvæðingu í grunnskólanum, heilsueflingu eldri borgara, menntarannsóknum og eflingu nýsköpunar- og frumkvöðlastarfsemi. Veittar verða 11 m.kr. til átaksins „Viltu hafa áhrif?“

Þá verður myndarlegu fjármagni veitt til umhverfismála, svo sem gönguleiða, leikvalla og skólalóða, dýpkunar við Bæjarbryggju, orkuskipta hafnarinnar, flotbryggju o.fl.

200 milljónir í Hamarsskólaviðbyggingu og 120 milljónir í Ráðhúss-framkvæmd

Í áætluninni er gert ráð fyrir háu framkvæmdastigi hjá sveitarfélaginu. Stefnt er að því milli umræðna að setja á laggirnar félag í eigu Vestmannaeyjabæjar sem mun annast ljósleiðaravæðingu í Vestmannaeyjum. Til stendur að veita félaginu lán fyrir framkvæmdunum svo hægt sé að hefjast handa strax. Áfram verður unnið að hönnun og framkvæmd viðbyggingar við Hamarsskóla og eru áætlaðar 200 m.kr. til verksins á næsta ári.

Reiknað er með að framkvæmdum við mið- og efstu hæð gamla Ráðhússins ljúki á vormánuðum og verður 120 m.kr. varið til þess. Mikilvægt er að húsinu sé sýndur sómi og framkvæmdum ljúki fljótt. Ráðist verður í endurnýjun neðansjávarlagnar undir höfnina. Þá er gert ráð fyrir endurbótum á búningsklefum í Íþróttamiðstöðinni og klæðningu á suðurhlið Ægisgötu 2. Jafnframt er gert ráð fyrir endurnýjun gámasvæðis í Sorpu, ljúka við gerð Vigtartorgs og verklok Skipalyftukantsins, o.fl. Umræða um verklegar framkvæmdir og áhersluverkefni verða milli umræðna um fjárhagsáætlun.

Áfram verði gætt aðhalds og hagkvæmni í rekstri sveitarfélagsins, en áhersla lögð á góða þjónustu og að gera Vestmannaeyjar að enn áhugaverðari búsetukosti fyrir fjölskyldur, sagði í framsögu bæjarstjóra.

Tillögur Hafrannsóknarstofnunar gefa tilefni til bjartsýni

Í bókun frá fulltrúum E og H lista segir að sveitarfélög glími við áskoranir í rekstri og í fjármögnun lögbundinna verkefna, á það líka við um Vestmannaeyjabæ en gert er ráð fyrir að staða bæjarsjóðs verði þó áfram traust. Bærinn mun áfram gera ráð fyrir myndarlegum fjárveitingum til framkvæmda, m.a. til að tryggja atvinnu og verkefnastöðu hjá fyrirtækjum í Vestmannaeyjum, en jafnframt til þess að ljúka við þær framkvæmdir sem voru á áætlun til þess að bæta þjónustu við bæjarbúa. Í fjárhagsáætluninni er lögð áhersla á ábyrga fjármálastjórn, þar sem gætt verður aðhalds í rekstri bæjarins og varlega áætlað um tekjur. Tillögur Hafrannsóknarstofnunar um gríðarlega aukningu á hámarksafla loðnu fyrir fiskveiðiárið 2021/2022 gefur vissulega tilefni til bjartsýni, hvort heldur er á atvinnu eða útsvarstekjur bæjarsjóðs.

Það er áfram markmið meirihluta E- og H-lista að þær áherslur og breytingar sem gerðar hafa verið á rekstri bæjarfélagsins á kjörtímabilinu séu til að bæta þjónustu við íbúa og gera sveitarfélaginu kleift að sinna nauðsynlegum- og lögbundnum verkefnum. En þeim fer sífellt fjölgandi vegna ákvarðana ríkisvaldsins þar sem fjármagn hefur ekki fylgt með.

Mikil gróska er í nýsköpunar og frumkvöðlastarfi og fyrirtæki og stofnanir að verða áhugasamar um þá þróun. Í fjárhagsáætluninni er áfram lögð áhersla á fjölskyldu- og fræðslumál eins og allt þetta kjörtímabil, segir í bókun meirihluta bæjarstjórnar.

Að leikskólagjöld, matarkostnaður fyrir börn í grunn- og leikskólum, dagvistargjöld, frístund og matarkostnaður eldri borgara hækki ekki

Í kjölfarið lagði meirihluti E og H lista til að gjaldskrá Vestmannaeyjabæjar fyrir eftirtalda þjónustu hækki ekki fyrir árið 2022: leikskólagjöld, matarkostnaður fyrir börn í grunn- og leikskólum, dagvistargjöld, frístund og matarkostnaður eldri borgara.

Mikilvægt er á þessum tímum að halda gjöldum fyrir veitta þjónustu eins hóflegum og hægt er, sérstaklega er varðar þá þjónustu sem er hér upptalin.

Lögðu til frestun til síðari umræðu og í millitíðinni yrði gerð könnun 

Bæjarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins lögðu því næst til að tillögunni yrði frestað til síðari umræðu og í millitíðinni gerð könnun hjá foreldrum og eldri borgurum hvort að þau vilji greiða áfram sama hlutfall en lögð frekar áhersla á að auka gæði matar og valfrelsi í matseðlum.

Fyrri tillagan var samþykkt með sjö samhljóða atkvæðum bæjarfulltrúa, en tillaga sjálfstæðismanna var felld með fjórum atkvæðum fulltrúa E og H lista gegn þremur atkvæðum fulltrúa D lista.

Gera athugasemd við að frysta eigi gjaldskrár vegna matarkostnaðar

Hildur Sólveig Sigurðardóttir, bæjarfulltrúi gerði grein fyrir atvæðum fulltrúa Sjálfstæðisflokks við tillögu meirihlutans. Þar segir: Bæjarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins samþykkja tillöguna þar sem þau vilja samþykkja að frysta gjöld dagvistar, leikskólagjalda og frístundar en gerum þó athugasemd við að frysta eigi gjaldskrár vegna matarkostnaðar. Til eru sértæk úrræði fjárhagsaðstoðar til þeirra sem hafa ekki efni á að greiða fæðisgjöld.

Ánægjuleg samstaða

Njáll Ragnarsson, oddviti Eyjalistans gerði grein fyrir atkvæði sínu með eftirfarandi bókun: Það er sérstaklega ánægjulegt að í fyrsta skipti skuli allir bæjarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins greiða atkvæði með því að frysta gjaldskrár þessara liða.

Áhersla á að styðja við fjölbreytt atvinnulíf og að markaðssetja Vestmannaeyjabæ sem ákjósanlegan búsetukost fyrir ungt fólk

Í bókun frá fulltrúum D lista segir að fjárhagsáætlun þessi sé sú fyrsta eftir að sveitarfélagið sagði sig frá rekstri Hraunbúða. Fjölgun bæjarfulltrúa leiðir til aukinna útgjalda, þrátt fyrir það er kostnaður falinn með því að setja hann ekki inn í fjárhagsáætlunina. Áfram er lítill afgangur af rekstri bæjarsjóðs fyrir fjármagnsliði sem er áhyggjuefni.

Veltufé frá rekstri hefur verið að lækka sem dregur úr framkvæmdagetu og sjálfbærni sveitarfélagsins til lengri tíma. Sjóðir sveitarfélagsins hafa komið í veg fyrir að sveitarfélagið þurfi að ráðast í lántökur vegna mikilla framkvæmda undanfarin ár.

Bæjarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins ítreka áfram mikilvægi ráðdeildar í rekstri og að nýframkvæmdir sveitarfélagsins nýtist til að bjóða betri þjónustu og einfaldari rekstur, á borð við viðbyggingu Hamarsskóla. Auk þess leggja bæjarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins áherslu á að styðja við fjölbreytt atvinnulíf og að markaðssetja Vestmannaeyjabæ sem ákjósanlegan búsetukost fyrir ungt fólk, segir í bókun fulltrúa minnihlutans.

Áhersluverkefni fyrir 220 milljónir

Meirihluti E og H lista lagði þá fram bókun þar sem segir að rekstur A hluta sveitarfélagsins stendi styrkum stoðum. Reglulegur rekstur er ekki í járnum líkt og haldið er fram í ræðu fulltrúa Sjálfstæðisflokksins. Inni í rekstri A hluta eru áhersluverkefni fyrir 220 milljónir sem eru verkefni á borð við leikvelli, skólalóðir, gönguleiðir, spjaldtölvuvæðingu GRV, heilsueflingu eldri borgara o.s.frv. Ef rekstur A hluta þyngist er svigrúm til þess að bregðast við með því að fækka áhersluverkefnum.

Segir umhugsunarefni að verið sé að ganga á handbært fé sveitarfélagsins

Í bókun frá Trausta Hjaltasyni, bæjarfulltrúa D lista segir að mjög eðlilegt sé að í ræðum bæjarfulltrúa um fjárhagsáætlun komi fram umræða um einstaka liði, það skal þó tekið fram að umhugsunarefni er að verið sé að ganga á handbært fé sveitarfélagsins.

Útsvarsprósentan verði áfram 14,46%

Elís Jónsson, forseti bæjarstjórnar, lagði fram tillögu f.h. bæjarstjórnar um útsvarsprósentu fyrir árið 2022. Bæjarstjórn leggur til að útsvarsprósenta á næsta ári verði óbreytt, þ.e. að útsvarsprósentan verði áfram 14,46%.

Tillagan var samþykkt með sjö samhljóða atkvæðum bæjarfulltrúa.

 

Lykiltölur í fjárhagsáætlun ársins 2022

Elís Jónsson forseti bæjarstjórnar bar upp lykiltölur í fjárhagsáætlun ársins 2022.

Fjárhagsáætlun sveitarsjóðs Vestmannaeyja 2022:

 • Tekjur alls: 4.778.074.000
 • Gjöld alls fyrir fjármagnsliði: 4.763.482.000
 • Rekstrarniðurstaða,jákvæð: 121.097.000
 • Veltufé frá rekstri: 617.021.000
 • Afborganir langtímalána: 23.021.000
 • Handbært fé í árslok: 2.323.794.000

Fjárhagsáætlun B-hluta bæjarsjóðs Vestmannaeyja 2022:

 • Rekstrarniðurstaða Hafnarsjóðs, hagnaður: 67.998.000
 • Rekstrarniðurstaða Vatnsveitu: 0
 • Rekstrarniðurstaða Fráveitu, hagnaður: 56.059.000
 • Rekstrarniðurstaða Félagslegra íbúða: 0
 • Rekstrarniðurstaða Náttúrustofu Suðurlands, hagnaður: 742.000
 • Rekstrarniðurstaða Hraunbúðir: 0
 • Rekstrarniðurstaða Herjólfs ohf., hagnaður: 12.803.000
 • Veltufé frá rekstri: 251.706.000
 • Afborganir langtímalána: 6.742.000

Fjárhagsáætlun samstæðu Vestmannaeyja 2022:

 • Tekjur alls: 7.055.501.000
 • Gjöld alls: 6.909.456.000
 • Rekstrarniðurstaða, jákvæð: 258.699.000
 • Veltufé frá rekstri: 868.727.000
 • Afborganir langtímalána: 29.763.000
 • Handbært fé í árslok: 2.323.794.000


Samþykkt var með sjö samhljóða atkvæðum bæjarfulltrúa að vísa fjárhagsáætlun 2022 til síðari umræðu í bæjarstjórn.
 

Mannlíf og saga - hlaðvarp

2.Mars'21

Fylgstu með hlaðvarpinu Mannlíf og saga. Nýr þáttur kemur út á hverjum fimmtudegi og er hlaðvarpið aðgengilegt hér á Eyjar.net og einnig á helstu veitum, svo sem Spotify. Sjá nánar hér...

Fréttaskot - Eyjar.net

31.Janúar'18

Ertu með athyglisverða ábendingu eða frétt?
Sendu okkur línu á eyjar@eyjar.net - Fyllsta trúnaðar gætt.

Fáðu nýjustu fréttirnar beint í æð

10.September'18

Með því að fylgja Eyjar.net færðu nýjustu fréttirnar frá Eyjum beint í æð. Smelltu hér til að fara á facebook-síðu Eyjar.net.