Framkvæmdum við sorporkustöð slegið á frest

14.Október'21 | 14:15
sorpa_20

Forsendur fyrir nýrri sorporkustöð hafa breyst verulega síðan lagt var af stað með málið fyrir fimm árum, kom m.a. fram í máli bæjarstjóra á fundinum. Ljósmynd/TMS

Staða og umhverfisáhrif Sorporkustöðvar voru til umfjöllunar á fundi bæjarstjórnar Vestmannaeyja í gær. Ekki var samstaða í bæjarstjórn um næstu skref í málinu.

Íris Róbertsdóttir, bæjarstjóri, fór yfir fund bæjarstjórnar og starfsfólks umhverfis- og framkvæmdasviðs, um stöðuna á úrgangsmálum á Íslandi, þar sem m.a. kom fram að miklar breytingar eru að eiga sér stað. Hringrásarhagkerfi, sorporkustöð, flokkun sorps og endurnýting eru meðal þeirra mála sem unnið er að á vettvangi sveitarfélaga, ríkis og einkaaðila. Ljóst er að ríkið þarf að koma að lausnum í úrgangsmálum sveitarfélaga þar sem auknar kröfur hafa leitt til þess að ferlar til förgunar úrgangs eru orðnir mjög kostnaðarsamir.

Verið á dagskrá frá árinu 2016

Uppbygging sorporkustöðvar í Vestmannaeyjum hefur verið á dagskrá frá árinu 2016, en forsendur hafa breyst verulega síðan þá, bæði rekstrarlega og ekki síður í samstarfi fyrrgreindra aðila, sem miðar að því að finna heildstæða lausn fyrir allt landið.

Fram kom í samantekt umhverfis- og framkvæmdasviðs að aukin áhersla verði lögð á flokkun sorps í allri umræðu um umhverfisáhrif. Vestmannaeyingar geta gert betur þegar kemur að flokkun sorps og aukinni endurnýtingu þess. Ljóst er að förgunarkostnaður flokkaðs sorps er mun lægri og jafnvel endurgjaldslaus á meðan förgunarkostnaður fyrir óflokkað sorp fer hækkandi. Það er því mikill ávinningur af sorpflokkun bæði hvað varðar kostnað og áhrif á umhverfið, sagði í yfirferð bæjarstjóra.

Vildu að fagráðið fjallaði um málið

Í framhaldinu kom afgreiðslutillaga frá bæjarfulltrúum bæjarfulltrúum Sjálfstæðisflokks þar sem þeir lögðu til að málinu verði vísað til umfjöllunar framkvæmda- og hafnarráðs.

Tillagan var felld með fjórum atkvæðum E og H lista gegn þremur atkvæðum fulltrúa D lista.

Telja mikilvægt að staldra við áður en lengra er haldið

Í kjölfarið kom fram önnur afgreiðslutillaga, nú frá meirihluta H og E lista.

Meirihluti H og E lista telur, í ljósi þeirra upplýsinga sem komið hafa fram um stöðu sorpmála, mikilvægt að staldra við áður en lengra er haldið í framkvæmdum við sorporkustöð. Framkvæmda- og hafnarráð fylgir áfram eftir faglegri umfjöllun málsins.

Meirihluti H og E lista hvetur bæjarbúa til þess að vanda flokkun sorps og felur umhverfis- og framkvæmdasviði að fara í fræðslu- og kynningarátak um sorpflokkun.

Tillagan var samþykkt með öllum fjórum atkvæðum E og H lista og Helgu Kristínar Kolbeins fulltrúa D lista. Hildur Sólveig Sigurðardóttir, fulltrúi D lista, sat hjá. Trausti Hjaltason, fulltrúi D lista, greiddi atkvæði gegn tillögunni.

Er þeirrar skoðunar að klára þurfi málið

Trausti Hjaltason, bæjarfulltrúi Sjálfstæðisflokks gerði grein fyrir atkvæði sínu með eftirfarandi bókun:

Undirritaður er enn þeirrar skoðunar að það þurfi að klára málið. Það er bæði mikilvægt fyrir umhverfið að hafa þessi mál í betri farvegi í Vestmannaeyjum, eins er þetta samgöngumál. Auk þess er vont að fara framhjá fagráðinu með málið, sem hefur verið með málið í mörg ár á sinni könnu. Eðlilegast væri að málinu yrði vísað aftur í fagráðið til umfjöllunar.

Segir að framkvæmda- og hafnarráði hafi verið haldið utan við þessa ákvörðunartöku

Hildur Sólveig Sigurðardóttir, einnig bæjarfulltrúi Sjálfstæðisflokks gerði grein fyrir atkvæði sínu með eftirfarandi bókun:

Undirrituð situr hjá þar sem framkvæmda- og hafnarráði hefur verið haldið utan við þessa ákvörðunartöku en tekur undir mikilvægi þess að farið verði í átak til að bæta sorpflokkun í Vestmannaeyjum.

Vill að fagráðið fylgi málinu eftir og geri því hátt undir höfði

Þá gerði Helga Kristín Kolbeins, samflokksmaður Hildar og Trausta grein fyrir atkvæði sínu með eftirfarandi bókun: Undirrituð samþykkir tillöguna, en telur eðlilegt að staldra við, en fagráðið fylgi málinu eftir og geri því hátt undir höfði.

Segja rangt að halda því fram að verið sé að fara fram hjá fagráðinu

Að endingu bókaði meirihluti E og H lista. Þar segir að það sé rangt að halda því fram að verið sé að fara fram hjá fagráðinu. Sorpmál heyra undir framkvæmda- og hafnarráð og gera það áfram.

Fáðu nýjustu fréttirnar beint í æð

10.September'18

Með því að fylgja Eyjar.net færðu nýjustu fréttirnar frá Eyjum beint í æð. Smelltu hér til að fara á facebook-síðu Eyjar.net.

Má bjóða þér að auglýsa hér?

23.Júní'22

Hér má auglýsa allt milli himins og jarðar! Sendu línu á [email protected] og saman finnum við lausn sem hentar þér.

Mannlíf og saga - hlaðvarp

2.Mars'21

Fylgstu með hlaðvarpinu Mannlíf og saga. Hlaðvarpsþættirnir eru aðgengilegir hér á Eyjar.net og einnig á helstu veitum, svo sem Spotify. Sjá nánar hér...

Smáauglýsingar

Hér getur þú með einföldum hætti auglýst það sem þú þarft að koma á framfæri allt frá einum sólarhring uppí einn mánuð. Einfaldur greiðslumáti Þú greiðir fyrir auglýsinguna með kreditkorti. Verð kr. 500,- per sólarhring. Um auglýsinguna Stutt fyrirsögn, hámark 35 tákn. Hnitmiðaður texti, hámark 130 tákn. Mynd á JPG sniði, verður sköluð í 130x100 díla (pixel).