Sinfóníuhljómsveit Suðurlands hélt skólatónleika í Eyjum

Erum stolt af því að hafa getað spilað fyrir grunnskólanemendur

- draumurinn er að halda Vínartónleika í Eldheimum, óperutónleika í menningarhúsinu Kviku með Alexander Jarl í aðalhlutverki nú eða búa til dagskrá með Lúðrasveitnni og Karlakórnum, segir framkvæmdastjóri sveitarinnar

29.September'21 | 11:00
20210928_094137

Frá tónleikunum í gær. Fleiri myndir frá tónleikunum má sjá neðst í þessari frétt. Ljósmyndir/TMS

Skólatónleikar Sinfóníuhljómsveitar Suðurlands voru haldnir í Menningarhúsinu Kviku í gær. Tónleikagestir voru nemendur úr þriðja og fjórða bekk GRV, og var ekki annað að sjá en þeir hafi skemmt sér vel undir fögrum tónum sveitarinnar.

Á tónleikunum kom fram 14 manna hljómsveit ásamt sögumanni. Hljómsveitarstjóri er Guðmundur Óli Gunnarsson og Friðrik Erlingsson, rithöfundur er sögumaður.  

Aðalverk tónleikanna var “Lykillinn” sem er eins konar “íslenskur Pétur og úlfurinn”. Verkið er eftir Tryggva M. Baldvinsson og Sveinbjörn I. Baldvinsson og var samið að beiðni Guðmundar Óla Gunnarssonar hljómsveitarstjóra fyrir skólatónleika. Í lok tónleikanna sungu nemendurnir með hljómsveitinni. 

Við ræddum við Margréti Blöndal, framkvæmdastjóra sveitarinnar og Guðmund Óla Gunnarsson, hljómsveitarstjóra um tilurð sveitarinnar, tónleikana í gær og framhaldið.

“Þetta er hægt!”

Aðspurð um hvenær sveitin varð til segir Margrét að Sinfóníuhljómsveit Suðurlands hafi leikið sína fyrstu tónleika þann 16. september í fyrra.

„Þetta voru þrennir skólatónleikar, í Þorlákshöfn, Hveragerði og á Flúðum fyrir nemendur í sex grunnskólum. Undirbúningur hafði staðið í þónokkurn tíma en líklega er réttast að segja að hún sé ársgömul, hafi orðið til og fest sig í sessi í miðjum heimsfaraldri. Starfsemin byggir á reynslu Guðmundar Óla Gunnarssonar hljómsveitarstjóra en hann tók þátt í að byggja upp Sinfóníuhljómsveit Norðurlands og var þar aðalhljómsveitarstjóri í 23 ár. Sú reynsla er ómetanleg og við vitum að Sunnlendingar eiga ekki síður skilið að eiga sinfóníska hljómsveit en Norðlendingar. Þetta er hægt!”

Höfum náð að spila nokkuð víða þrátt fyrir skrítna tíma

Margrét segir að í þessu skólatónleikaverkefni séu 14 hljóðfæraleikar sem leika á öll hljóðfæri sinfónískrar hljómsveitar. Í öðrum verkefnum verða fleiri, eins og t.d. á jólatónleikunum sem verða í Skálholti 11. desember en þar verður 50 manna hljómsveit.

Hafið þið spilað víða?

Auk skólatónleikanna sl. haust kom hljómsveitin fram á Oddahátíð í sumar ásamt Eyjólfi Eyjólfssyni tenór, Karlakór Rangæinga, Kvennakórnum Ljósbrá og Kammerkór Rangæinga. Í september á þessu ári verða fimm skólatónleikar en núna heimsækjum við Vestmannaeyjar, Hvolsvöll, Árborg, Flóahrepp og Hellu og leikum fyrir nemendur í 10 grunnskólum svo já, við höfum náð að spila nokkuð víða þrátt fyrir skrítna tíma.  

Nóg af hugmyndum

Aðspurð um hvert er markmiðið sé með að leika fyrir grunnskólabörn segir Margrét að skólatónleikar séu ein af grunnstoðunum í starfsemi Sinfóníuhljómsveitar Suðurlands og liður í því sé að börn fái að njóta menningar óháð búsetu.

Eru fleiri tónleikar fyrirhugaðir á næstunni?

Já heldur betur! Við verðum með jólatónleika í Skálholti og í janúar verða Vínartónleikar í Hveragerði í samvinnu við Listasafn Árnesinga og Matkrána. Við stefnum líka á halda skólatónleika á Höfn, Kirkjubæjarklaustri og Vík við fyrsta tækifæri. Það er nóg af hugmyndum og vonandi getum við jafnvel haldið Vínartónleikana víðar á Suðurlandi.  

Ótvíræður ávinningur sunnlensks samfélags af starfsemi svona hljómsveitar

Er Margrét er innt eftir svörum um hvort ekki standi til að koma aftur til Eyja og halda opna tónleika stendur ekki á svörum. „Jú, sannarlega. Hvenær það verður kemur í ljós síðar en það væri t.d. alveg draumur að halda Vínartónleika í Eldheimum, óperutónleika í menningarhúsinu Kviku með Alexander Jarl í aðalhlutverki nú eða búa til dagskrá með Lúðrasveitnni og Karlakórnum, bara svo ég nefni eitthvað. Það er af nógu að taka.”

Hún segir að þau leyfi sér að vera bjartsýn á framhaldið sem ræðst þó auðvitað af því hvort tekst að fjármagna starfsemi sinfónískrar hljómsveitar á Suðurlandi til lengri tíma.

„Við vitum að ávinningur sunnlensks samfélags af starfsemi svona hljómsveitar er ótvíræður og við vitum að nú er tækifæri til að stíga skrefið til fulls. Hér er nóg af hæfileikaríku fólki, þekking og reynsla er fyrir hendi og starfsemin nýtur þegar mikillar velvildar. Þessir skólatónleikar eru t.d. styrktir af Barnamenningarsjóði, List fyrir alla og Tónlistarsjóði. SASS hefur stutt dyggilega við bakið á uppbyggingu hljómsveitarinnar og einstökum verkefnum að ógleymdu Mennta- og menningarmálaráðuneytinu sem styður verkefnið myndarlega.” segir Margrét Blöndal.

Skiptir okkur miklu máli að hljómsveitin sé og verði hljómsveit allra Sunnlendinga

Guðmundur Óli Gunnarsson hljómsveitarstjóri segir að það hafi verið einstaklega ánægjulegt hefja þessa skólatónleikaröð í Vestmannaeyjum.

„Börnin mættu vel undirbúin, hlustuðu af athygli og sungu svo með hljómsveitinni af hjartans list. Við eru stolt af því að hafa getað spilað fyrir grunnskólanemendur úr 11 sveitarfélögum á Suðurlandi og hlökkum til að heimsækja þau sveitarfélög sem eftir eru.  Okkur hefur allstaðar verið tekið fagnandi og það skiptir okkur miklu máli að hljómsveitin sé og verði hljómsveit allra Sunnlendinga, ungra og gamalla frá Höfn til Hafnar.“

 

Má bjóða þér að auglýsa hér?

23.Júní'22

Hér má auglýsa allt milli himins og jarðar! Sendu línu á auglysingar@eyjar.net og saman finnum við lausn sem hentar þér.

Mannlíf og saga - hlaðvarp

2.Mars'21

Fylgstu með hlaðvarpinu Mannlíf og saga. Nýr þáttur kemur út á hverjum fimmtudegi og er hlaðvarpið aðgengilegt hér á Eyjar.net og einnig á helstu veitum, svo sem Spotify. Sjá nánar hér...

Fáðu nýjustu fréttirnar beint í æð

10.September'18

Með því að fylgja Eyjar.net færðu nýjustu fréttirnar frá Eyjum beint í æð. Smelltu hér til að fara á facebook-síðu Eyjar.net.