Grímur Gíslason skrifar:

Jafnvel dýralæknar sáu þetta ekki fyrir

- seinni hluti athugasemda við varnarleik Vegagerðarinnar

28.September'21 | 10:47
20210918_160220

Greinarhöfundi finnst það algjört metnaðarleysi, og bara hálfgerður aumingjaskapur, að hafa ekki framsýni og dug til þess að hafa þjóðveginn til Eyja opinn eins allt árið með að lágmarki 7 ferðum á dag. Ljósmynd/TMS

Eins og fram kom í fyrri grein minni verður ekki annað séð en að fjárhagsleg staða Herjófs ohf hafi verið góð í lok árs 2019 en samkvæmt skrifum forstjóra Vegagerðarinnar var fyrirtækið komið í þrot á árinu 2020. 

Illa trúi ég því að stjórnendur Herjólfs ohf hafi misst svo þráðinn í rekstrinum í upphafi árs 2020 að þeir hafi náð að koma félaginu í þrot á örskotsstund, slík brotlending hefði verið einstakt afrek. Enn verr á ég samt með að trúa því að félagið hafi verið á leið í þrot vegna þess að Herjólfur sigldi 7 ferðir á dag fyrstu 2 mánuði ársins, eins og hann hafði reyndar gert frá lokum mars 2019. Það getur bara ekki passað.

Enginn sá faraldurinn fyrir

Aftur á móti kom smávegis uppá í febrúar 2020, sem flestir kannast við og varla hefur það farið fram hjá forstjóra Vegagerðarinnar. Þá lagðist yfir heimsfaraldur vegna Covid 19 veirunnar sem lamaði nánast allan heiminn á örfáum vikum. Það má öllum ljóst vera að sá faraldur hlýtur að hafa haft mikil áhrif á rekstur Herjólfs eins og mjög margra annara fyrirtækja, þar sem hvorki ferðamenn né heimamenn áttu gott með að ferðast með skipinu.

Það gátu líklega fáir spáð fyrir um faraldurinn og áhrif hans og það var klárlega ekki gert ráð fyrir honum í áætlunum og samningum um rekstur Herjólfs. Hvorki við, sem sátum við samningaborðið fyrir hönd Vestmannaeyjabæjar, og síðar Herjólfs ohf, né sérfræðingar Vegagerðarinnar áttu von á þessum hamförum. Ég efast jafnvel um að nokkrum dýralækni hafi komið þetta til hugar, þó svo að talið sé að veiran hafi borist í menn úr dýrum.

Veirufaraldurinn notaður til skerðingar þjónustu á þjóðveginum til Eyja

Þrátt fyrir lamandi áhrif veirunnar á flest í samfélaginu var engum þjóðvegum lokað, hvorki tímabundið né til lengri tíma og þjónustu á þjóðvegum var ekki hætt. Þetta átti við um alla þjóðvegi landsins, nema þjóðveginn til Eyja. Þar var ferðatíðni skorin niður í hvelli, vegna faraldursins, og í framhaldi af því var síðan tækifærið notað, til að ná fram fækkun á ferðum í áætlun og komið á svokallaðri vetraráætlun.

Ríkið hefur dælt út hundruðum milljarða vegna Covid 19

Fjöldi fyrirtækja, sérstaklega í ferðaþjónustu, hefur orðið illa fyrir barðinu á veirufaraldrinum og það er ekkert skrýtið að faraldurinn hafi haft veruleg áhrif á rekstur Herjólfs. Ríkissjóður hefur heldur ekki farið varhluta af þessu því stjórnvöld hafa komið fólki og fyrirtækjum til aðstoðar og lagt mikið fjármagn í það að halda fyrirtækjum á floti, þjónustu í lagi og efla innviði með allskonar aðgerðum. Þess sér líka stað á því að halli ríkissjóðs á síðasta ári var vel á þriðja hundrað milljarðar króna. Hallarekstur á Herjólfi við þessar aðstæður hefði varla átt að koma nokkrum á óvart. Jafnvel ekki rekstrarmönnum Vegagerðarinnar.

Fjárhagsvandi vegna faraldurs og vanefnda Vegagerðar?

Fjárhagsvandi Herjólfs, sem forstjóri Vegagerðarinnar notar í vörn fyrir tilvist vetraráætlunar, hlýtur að eiga rætur að rekja til heimsfaraldursins og vanefnda Vegagerðarinnar en ekki þess að áætlun skipsins var ekki í samræmi við úrelta hugsun stofnunarinnar. Samkvæmt skrifum forstjórans lagði Vegagerðin til fjármagn til rekstrar Herjólfs vegna áhrifa heimsfaraldurs en mér sýnist að upphæðin sem hún nefnir í því sambandi sé ekki mikið hærri en það sem Vegagerðinni bar að greiða til Herjólfs vegna vanefnda á samningi, alveg óháð heimsfaraldrinum.

Skýringar forstjórans stemma illa við orð ráðherrans

Það er líka athyglisvert að skýringum forstjóra Vegagerðarinnar ber alls ekki saman við skrif Samgönguráðherra. Forstjórinn talar um að aukið fé hafi verið lagt til rekstrarins vegna heimsfaraldurs en ráðherrann sagði í grein í Eyjamiðlunum fyrir rúmri viku að bætur hafi verið greiddar vegna vanefnda á samningi og vegna Covid 19, sem líklega er nær því að vera satt og rétt. Skrif og skýringar forstjórans til varnar því að stjórnendur Herjólfs, í umboði meirihluta bæjarstjórnar, hafi fækkað  ferðum skipsins og sett vetur á þjóðveginn til Eyja frá 1. september til loka maí halda því hvorki vatni né vindi.

Samanburður við vetrarþjónustu á vegum sýnir mikið skilningsleysi

Samanburð forstjóra Vegagerðarinnar, á vetrarþjónustu á vegum og siglingaáætlun Herjólfs, opinberar kannski best skilningsleysi hennar á stöðunni. Við Eyjamenn þekkjum sambýlið við náttúruöflin nokkuð vel. Við fáum að finna fyrir því þegar veðurguðirnir yggla sig.

Það gera því fáir Eyjamenn athugasemdir við það, vegna reynslu,  þegar veður hamlar för um þjóðveginn til Eyja, sem getur reyndar verið nokkuð oft þegar þannig viðrar, einkum á vetrum. Þá lokast þjóðvegurinn til Eyja, jafnvel heilu dagana en stundum hálfan daginn, og einungis 2 ferðir eru í boði þegar sigla þarf til Þorlákshafnar. Þannig dagar og stundum vikur, jafnvel mánuðir, koma þar sem erfiðleikar eru að komast þjóðveginn til Eyja vegna veðurs. Við þekkjum það öll mjög vel. Þá duga hvorki snjóruðningstæki né önnur tól til að opna þjóðveginn til Eyja.

Ákvarðanir manna ekki hæfar til samanburðar við náttúruöflin

Ég efast ekki um að nýr Herjólfur hentar betur til siglinga í Landeyjahöfn og er fær um að sigla við verri aðstæður en sá gamli en rétt er að hafa í huga í umræðu um stórbætta nýtingu hafnarinnar með nýju skipi að veðurlag síðustu tvo vetur hefur verið afar hagstætt hvað varðar siglingar til Landeyjahafnar.

Þegar að við búum við öflugan lægðagang með hvössum SA og SV brælum til skiptis er og verður erfitt að halda uppi traustum og reglulegum siglingum í Landeyjahöfn, eins og aðstæður þar eru. Við þurfum ekki að líta langt til að átta okkur á þessu. Nú í september, í síðustu viku og vikunni þar á undan, hefur Herjólfur þurft að sigla nokkrar ferðir til Þorlákshafnar þar sem ófært hefur verið fyrir nýja Herjólf í Landeyjahöfn og þannig getur það bara orðið all oft  meðan að Landeyjahöfn er ekki betri en hún er. Það ræðst fyrst og fremst af veðurfari.

Þetta verðum við, sem notum þjóðveginn til Eyja, að sætta okkur við svipað og aðrir landsmenn verða að gera þegar fannfergi eða óveður loka vegum á fastalandinu. Þar er við náttúruöflin að etja og það á ekkert skylt við misráðna ákvörðun manna um að setja á sérstaka vetraropnun á þjóðveginum til Eyja. Samaburður af því tagi sem forstjórinn bauð upp á í grein sinni er því er hálfgerð fingurssýning til Eyjamanna.

Eini þjóðvegurinn með veggjöld og það mjög há

Það er kannski líka vert að taka það með í þessa umræðu að Eyjamenn og aðrir þeir sem fara um þjóðveginn til Eyja greiða fyrir það veggjald. Veggjöld eru almennt ekki innheimt á Íslandi og hugmyndum um þau er sjaldan vel tekið í umræðunni hér á landi. Yfirleitt ætlar allt um koll að keyra ef að minnst er á veggjöld t.d. vegna flýtingu framkvæmda. Í þeim tilfellum er samt alltaf gengið út frá því að vegfarendur eigi annan valkost en fara þá leið þar sem veggjalds er krafist.

Þessi valmöguleiki, að fara aðra leið, er ekki til staðar á þjóðveginum til Eyja. Þar er fólki nauðugur sá einn kostur að greiða veggjald, vilji það komast um þjóðveginn. Almennt er fólk ekkert að væla undan þessu, þó svo að veggjaldið sé afar hátt samanborið við þau fáu dæmi sem þekkjast um veggjöld hér á landi, og í því fólgin ákveðin mismunun gagnvart öðrum þegnum landsins.

Eyjamenn ekki að væla þó að aðrir myndu öskra úr sér lungun

Eyjamenn greiða þannig klárlega aukaskatt miðað við aðra landsmenn. Mér reiknast t.d. til að við hjónin séum að greiða um 250 – 300 þúsund á ári í veggjöld fyrir að fara þjóðveginn til Eyja, sem er ansi drjúg upphæð. Ég reikna með að Selfyssingar, Hvergerðingar, Grindvíkingar eða bara hvaða bæjarbúar sem nefndir væru, aðrir en Vestmannaeyingar, myndu öskra úr sér lungun þyrftu þeir að greiða slík veggjöld til þess eins að ferðast til síns heima. Ekki síst í ljósi þess er það lágmarkskrafa að þjóðvegurinn til Eyja sé opin að fullu allt árið en sé ekki með vetraropnun eins og nú er boðið upp á.

Það er rétt að nefna einnig í þessu samhengi að framtíðarsýn fyrri stjórnar Herjólfs ohf var að horfa til þess að skipið sigldi 24/7. Einungis þannig væri þjóðvegurinn til Eyja að fullu opinn, ef náttúruöflin kvæðu ekki á um annað.

Vill einhver hverfa til rykfallinna og úreltra hugmynda Vegagerðarinnar um ferðaáætlun?

Svona rétt í lokin er eðlilegt að benda á að Eyjamenn hafa alltaf þurft að berjast fyrir öllum þeim málum sem hafa fært samfélagið fram á veg. Ekkert hefur fengist án baráttu. Ég þori að fullyrða að ef við sem stóðum í stafni við yfirtöku á rekstri Herjólfs hefðum ekki verið stórhuga og hugsað til framtíðar með hagsmuni alls samfélagsins í Eyjum í forgrunni þá væri sama gamla rykfallna áætlunin til staðar og sú sem Eyjamenn bjuggu við árum saman. Einnig væri eflaust sama gjaldskrárfyrirkomulagið, með gömlu afsláttarmiðunum, enn í notkun hjá Herjólfi. Suma daga væru sigldar 5 ferðir, aðra daga 6 ferðir, sumaráætlun, haust-, vor- og vetraráætlun, með mismunandi tímasetningum dag frá degi. Ég held að það vilji enginn í Eyjum skipta og hverfa aftur til þessa fornaldar vinnulags.

Einfaldlega sagt algjört  bull

Allt tal forstjórans um að með nýjum samningi, sem gerður var 2020, hafi verið tryggð „fjölgun“ ferða, með því að fækka þeim úr 7 á dag í 6, er eiginlega bara  grátbroslegt. Það að horfa til úreltra hugmynda Vegagerðarinnar um 5 ferðir, sem reyndar hefur ekki verið boðið upp á síðan að Herjófur ohf tók við rekstrinum, til að finna út að fækkun ferða um eina á dag sé í raun fjölgun er bara einfaldlega sagt algjört bull.

Er bara hálfgerður aumingjaskapur

Það þarf framtíðarsýn og kjark til að ná árangri. Það þarf fólk í þann slag sem er tilbúið að berjast fyrir hverju einasta skrefi sem getur fært búsetuskilyrði í Eyjum fram á veg, ef hér á byggð að eflast og dafna áfram um ókomna tíð. Eyjamenn hefðu aldrei náð neinu fram ef að þeir hefðu gegnum tíðina alltaf lagt skottið milli lappanna og tekið bara það sem að þeim hefur verið rétt af misvitrum stjórnmála- og embættismönnum. Framsýni, kjarkur, dugnaður, baráttuþrek og þrautsegja Eyjamanna hefur verið grundvöllur þeirra mörgu áfanga sem náðst hafa hingað til og þannig verður það áfram.

Í lokin ítreka ég bara það sem ég hef áður sagt að mér finnst það algjört metnaðarleysi, já bara hálfgerður aumingjaskapur, að hafa ekki framsýni og dug til þess að hafa þjóðveginn til Eyja opinn eins allt árið með að lágmarki 7 ferðum á dag en auðvitað á stefnan að vera sú að því að vegurinn verði opinn 24/7 líkt og aðrir þjóðvegir landsins.

 

Grímur Gíslason

 

Mannlíf og saga - hlaðvarp

2.Mars'21

Fylgstu með hlaðvarpinu Mannlíf og saga. Nýr þáttur kemur út á hverjum fimmtudegi og er hlaðvarpið aðgengilegt hér á Eyjar.net og einnig á helstu veitum, svo sem Spotify. Sjá nánar hér...

Má bjóða þér að auglýsa hér?

23.Júní'22

Hér má auglýsa allt milli himins og jarðar! Sendu línu á auglysingar@eyjar.net og saman finnum við lausn sem hentar þér.

Fáðu nýjustu fréttirnar beint í æð

10.September'18

Með því að fylgja Eyjar.net færðu nýjustu fréttirnar frá Eyjum beint í æð. Smelltu hér til að fara á facebook-síðu Eyjar.net.