Lipur og liðugur Geisli

- vinnudagarnir gátu orðið langir á árunum í kringum byggingu Landeyjahafnar og fyrst eftir að hún var tekin í notkun, segir Ingvar G. Engilbertsson

24.Maí'21 | 10:37
IMG_4188

Geisli í Landeyjahöfn. Ljósmyndir/TMS

Ingvar G. Engilbertsson rannsóknarmaður í vinnuflokki vita hjá Vegagerðinni hefur verið umsjónarmaður mælingabátsins Geisla frá því hann var keyptur til Vita- og hafnamálastofnunar árið 1994.

Geisli er Sómabátur með þotudrifi sem hentar einstaklega vel við dýptarmælingar í höfnum landsins. Hann hefur m.a. verið notaður mikið til mælinga í Landeyjahöfn. Í nýjustu framkvæmdafréttum Vegagerðarinnar er rætt við Ingvar, sem er frá Eyjum. Grípum niður í viðtalið.

 „Hann er notaður í dýptarmælingar. Hann hefur til dæmis mælt flestar hafnir landsins.“ Og af hverju þarf að mæla? „Það þarf til dæmis þegar til stendur að hafnir taki á móti stærri skipum og þær eru ekki nógu djúpar. Þá þarf að fara í dýpkunarframkvæmdir. Við mælum þá hafnirnar fyrir og eftir dýpkun til að athuga hversu mikið efni hefur verið tekið,“ upplýsir Ingvar og bætir við að í sumum höfnum sé sandburður mikill og þar þurfi að mæla reglulega. Hann tekur sem dæmi Landeyjahöfn, Þorlákshöfn og höfnina á Höfn í Hornafirði. „Við vorum lengi vel að mæla höfnina í Ólafsfirði en erum orðið minna þar enda hefur útgerð þar minnkað mikið.“

Ingvar segir Geisla fyrst og fremst notaðan í mælingarverkefni þó hann sé stundum nýttur í annað. „Hann er stundum notaður til að fara út í baujurnar á Faxaflóanum ef þarf að skipta um rafhlöður eða laga ljósin.“ Oftast er ekið með bátinn á milli staða, í það minnsta lengri leiðir. „Við höfum stundum siglt honum styttri leiðir en það má segja að eini gallinn við bátinn sé drifbúnaðurinn sem mætti vera stærri því hann drífur lítið þegar farið er lengri leiðir.“

Sloppið með skrekkinn

Ingvar hefur varið ófáum stundum um borð í Geisla en hann segir tímann þó mislangan bæði eftir árstíðum og árum.

„Vinnudagarnir gátu orðið langir á árunum í kringum byggingu Landeyjahafnar og fyrst eftir að hún var tekin í notkun. Þá vorum við mikið við mælingar þar og vorum jafnvel heilu næturnar,“ segir Ingvar en Geisli fer lítið í Landeyjahöfn núorðið.

„Innsiglingin er hættuleg litlum bátum og hætta á að fá á sig brotsjó,“ segir Ingvar en í dag er Lóðsinn frá Vestmannaeyjum frekar notaður til mælinga í Landeyjahöfn.

En hefur hann þá stundum komist í hann krappann á Geisla?

„Við höfum sloppið með skrekkinn þarna í Landeyjahöfn. Í tvígang hefur bilað stýri. Í annað skipti var ég á honum og þá fór stýrisbúnaðurinn á leið út úr höfninni. Stýrið festist í öðru borðinu og ekkert hægt að hreyfa það. Ég gat þó gefið vel í og þá snerist báturinn í innsiglingunni og ég gat siglt honum inn aftur. Í síðara skipti var ég ekki um borð, þá fór stýrið líka og þá rétt slapp hann við að lenda uppi í garðinum og rak vestur með ströndinni undan veðri og straum. Þá kom gæslan á þyrlu og úr varð mikið havarí.“

Þó báturinn sé orðinn 25 ára segir Ingvar hann vel standa fyrir sínu. „Það er ekkert hlaupið að því að kaupa bát eins og þennan. Þetta er þungur klumpur og fastur fyrir þegar kemur á hann gusa enda er hann byggður fyrir íslenskar aðstæður. Hann hefur í það minnsta reynst mér mjög vel, enda lipur, snýst á punktinum og mjög gott að vinna á honum við mælingar í höfnum.“

Fínt að vera altmugligmaður

Ingvar er Vestmannaeyingur, flutti í land í gosinu 1973 og var eftir það sjómaður í Grindavík þar til hann réði sig til Vita- og hafnamálastofnunar árið 1981. Þeirri stofnun var breytt í Siglingastofnun árið 1996 sem síðan sameinaðist Vegagerðinni að hluta 2013. Ingvar hefur sinnt ýmsum störfum á þeim fjörutíu árum sem hann hefur starfað hjá stofnuninni.

„Ég var meðal annars á dýpkunarskipi sem Vita- og hafnamálastofnun gerði út á sínum tíma. Eftir það fór ég í mælingarnar.“ Ingvar starfaði einnig um tíma í botnrannsóknum. „Þá vorum við með fleka sem var að kanna burð í botni. Þetta er til dæmis gert þegar reka þarf niður stálþil í höfnum, þá þarf að vita hversu langt er niður á fast. Svipað þarf að gera þegar brúa á firði.“ Mismikið er að gera í mælingum og minnst yfir hásumarið. Ingvar hefur því tvö síðustu sumur starfað með vinnuflokki vita sem sér um viðhald vita um land allt. „Þetta er mjög fjölbreytt vinna og maður þarf að vera svona altmugligmaður sem er fínt,“ segir hann glettinn. 

Fáðu nýjustu fréttirnar beint í æð

10.September'18

Með því að fylgja Eyjar.net færðu nýjustu fréttirnar frá Eyjum beint í æð. Smelltu hér til að fara á facebook-síðu Eyjar.net.

Má bjóða þér að auglýsa hér?

23.Júní'22

Hér má auglýsa allt milli himins og jarðar! Sendu línu á auglysingar@eyjar.net og saman finnum við lausn sem hentar þér.

Mannlíf og saga - hlaðvarp

2.Mars'21

Fylgstu með hlaðvarpinu Mannlíf og saga. Nýr þáttur kemur út á hverjum fimmtudegi og er hlaðvarpið aðgengilegt hér á Eyjar.net og einnig á helstu veitum, svo sem Spotify. Sjá nánar hér...