Lúðvík Bergvinsson skrifar:

ÍBV – Stolt Eyjanna

29.Apríl'21 | 14:56
ibv_fotb_kk_ibv_fagn_2021fb

Ljósmynd/ÍBV

Það hafa komið þeir tímar að erfitt hefur verið að vera hvort tveggja stuðningsmaður Arsenal og ÍBV. 

Hafandi  stutt þessi lið í áratugi þá hefur maður upplifað bæði hæðir og lægðir; jafnvel svo að um munar. Í síðustu viku munaði minnstu að ég afmunstraði mig varanlega úr skipsrúmi hjá Arsenal, þ.e. þegar félagið hugðist rífa upp rætur sínar í London, að mér fannst, og hefja samstarf við stærstu félög Evrópu í einhverskonar prívat deild útvalinna stórklúbba Evrópu; já þar komst ég næst því á minni ævi að segja skilið við mitt gamla lið fyrir fullt og fast. Það bjargaðist þó, reyndar á frækilegan hátt, en einsog alkunna er kom almenningur vitinu fyrir eigendur félagsins á síðustu stundu og þátttaka þess í súperdeildinni var afturkölluð.

Þarna fannst mér öllu því góða sem íþróttir kunna að geta gefið fyrir leikinn og stuðningsmenn hans á haus snúið. Í mínum huga hafa íþrótta- og ungmennafélög þann megintilgang að skila einstaklingum, sem taka þátt í starfi þeirra, sem betri manneskjum út í samfélagið; þ.e. þau eiga að hjálpa þeim sem þar taka þátt að verða besta útgáfan af sjálfum sér, einsog sagt er á hátíðastundum, og skila þeim þannig út í samfélagið. Þetta finnst mér eiga að vera leiðarstef í starfi allra íþróttafélaga. Það gleymist nefnilega svo oft að það verða ekki allir stórstjörnur eða efnaðir af því einu að taka þátt íþróttastarfi; það er aðeins lítið brotabrot af þeim sem þar taka þátt ef nokkur sem nær slíkum hæðum. Það er því óhætt að segja að það var allt önnur og betri tilfinning sem helltist yfir þegar ég fékk tíðindi af því að íþróttafélagið mitt, ÍBV, hefði tekið fast og fagmannlega á atviki innan félagsins þegar einstaklingur kom fram við félaga sinn á þann hátt sem aldrei má samþykkja.

Nýverið átti sá atburður sér stað að einstaklingur í meistaraflokki ÍBV dreifði og deildi nektarmyndum af ungum og efnilegum leikmanni liðsins á alnetinu, án hans samþykkis. Hafandi tekið þátt í og leikið knattspyrnu í efstu deildum hér á landi; þekkjandi þann menningarheim sem knattspyrnumenn lifa í frá degi til dags, þá er ég viss um að það hefði verið mun einfaldara fyrir alla, þ.m.t. stjórnarmenn í ÍBV, að reyna að leysa svona mál í myrkvuðu bakherberbergi bak við luktar dyr í stað þess að taka af einurð á þeim vanda sem stafrænt ofbeldi er. Í þessu samhengi má nefna að dómstólar hafa verið að gera einstaklingum fangelsisrefsingu fyrir slíkt framferði, auk þess sem ríkisstjórnin hefur lagt mikla áherslu á rannsóknir á svona ofbeldi. Í þessu tilviki var gerandinn einn besti og þekktasti knattspyrnumaður liðsins. Málið var því augljóslega erfitt fyrir alla þegar það kom upp.

Það hefur því verið erfið ákvörðun fyrir stjórnina að láta gerandann fara frá félaginu. Gerandinn hefur sagt að „húmor“ hafi verið leiðarljós verknaðarins; en mögulega „húmor“ hvers? Það er almennt þannig að þegar einelti á í hlut er það jafnan gert í skjóli einhvers meints „húmors,“ en sennilega þó aðallega á grunni skorts á sjálfstrausti. Vonandi lærir gerandinn eitthvað af þessu og kemur út sem sterkari og betri einstaklingur síðar á lífsleiðinni. Það er þó ekki síðar aðdáunarvert að horfa upp á það þegar ungir og mjög svo efnilegir menn, einsog sá sem fyrir ofbeldinu varð, standa upp og lýsa yfir því að þeir láti ekki bjóða sér slíka framkomu, sama hver á í hlut.

Það hefði nefnilega verið svo miklu auðveldara fyrir hann að gerast viðhlæjandi gerandans; það hefði leyst svo margt og einfaldað lífið. Það gerði hann ekki og hann stóð með sjálfum sér. Ég er því stoltur af viðbrögðum þess sem fyrir ofbeldinu varð; ég er stoltur af stjórnarmönnum ÍBV sem tóku þá ákvörðun um að láta gerandann fara; og ég er stoltur af félaginu mínu sem brást svona við. Það er ljóst að ég mun bera höfuðið hátt þegar ég mæti á völlinn í sumar, vongóður um sterkari liðsheild en ella hefði verið, hver svo sem framherji liðsins verður. Það er nefnilega ekki erfitt að styðja svona félag hvernig svo sem úrslitin eru; félag sem að minni hyggju hefur sett fordæmi fyrir önnur íþróttafélög; félag sem byggir á langtímahugsun varðandi orðstír. Svona eiga íþróttafélög nefnilega að vera.

 

Lúðvík Bergvinsson,

lögmaður, og fyrrverandi leikmaður ÍBV

Fasteignasalan Eldey

11.Maí'21

Eldey fasteignasala.  Sími 861-8901.  Arndís M. Kjartansdóttir löggiltur fasteignasali.  Goðahrauni 1.  disa@eldey.net.  Lægsta söluþóknunin í Eyjum, 1 % fyrir einkasölu. 

Meiraprófsbílstjóri óskast til starfa

29.Apríl'21

Óska eftir meiraprófsbílstjóra í vinnu sem fyrst - tímabundin vinna til 1. september.  Kranapróf kostur. Upplýsingar í síma 6600250, Magnús.

Tungumálafólk óskast til vinnu sem túlkar

10.Maí'21

Alþjóðasetur leitar að fólki í Vestmannaeyjum til starfa sem túlkar.  Góð kunnátta á móðurmáli og íslensku er skilyrði, auk góðrar færni í mannlegum samskiptum, stundvísi, háttvísi og trúnaður.  Starfið er unnið í verktöku og ráðast laun af fjölda verkefna. Vinnutími er frjáls og sniðinn að óskum hvers og eins.  Boðið er upp á gjaldfrjálst starfsþjálfunarnámskeið áður en störf hefjast. Umsókn ásamt ferilskrá sendist á asetur@asetur.is  

Mannlíf og saga - hlaðvarp

2.Mars'21

Nýtt hlaðvarp/podcast fer í loftið á fimmtudaginn 4. mars nk. Nýr þáttur kemur út á hverjum fimmtudegi og verður hlaðvarpið aðgengilegt á Eyjar.net ásamt helstu veitum svo sem Spotify og Youtube. Fylgstu með...