Áhersla á að starfsfólk, íbúar og aðstandendur verði fyrir sem minnstum áhrifum við yfirfærsluna

12.Apríl'21 | 19:07
ellihe

Hraunbúðir. Ljósmynd/TMS

Eins og kunnugt er tilkynnti Vestmannaeyjabær Sjúkratryggingum Íslands og heilbrigðisráðuneytinu í júní 2020 að bærinn myndi ekki endurnýja rekstrarsamning við Sjúkratryggingar um rekstur hjúkrunar-og dvalarheimilisins Hraunbúða en samningurinn rann út um síðustu áramót.

Sólrún Erla Gunnarsdóttir, deildarstjóri í öldrunarmálum hjá Vestmannaeyjabæ ritar pistil á vef Hraunbúða til aðstandenda heimilsfólks. Þar segir að til að gera langa sögu stutta varð niðurstaðan sú eftir tvær framlengingar að Heilbrigðisstofnun Suðurlands tekur við rekstri Hraunbúða frá 1.maí næstkomandi.

Ástæða uppsagnar á samningnum var í eðli sínu einföld en þungbær; það fjármagn sem ríkið setur í reksturinn dugar engan veginn til. Rekstur hjúkrunarheimila er á ábyrgð ríkisins og ber að greiðast úr þeim vasa en ekki vasa sveitarfélaga.

Því miður er þessa sögu að segja á allt of mörgum stöðum, ekki hvað síst á minni heimilum á landsbyggðinni sem eru af ýmsum ástæðum óhagkvæmar rekstrareiningar. Vonandi nær Heilbrigðisstofnunin að ná betri samlegðaráhrifum stærðar sinnar vegna og vonandi fara þeir sem stjórna í heilbrigðis- og fjármálaráðuneytinu að átta sig á nauðsyn þess að setja meira fjármagn í málaflokk eldri borgara.

Við þessa yfirfærslu lagði Vestmannaeyjabær ríka áherslu á að réttindi starfsmanna yrðu tryggð og að allir fastráðnir starfsmenn fengju vinnu áfram hjá nýjum rekstraraðila. Samkomulag þess efnis var gert við Heilbrigðisráðuneytið og var það mikill léttir, enda stofnunin hjóm eitt án þess góða mannauðs sem þar starfar.

Nýir yfirstjórnendur frá Heilbrigðisstofnun Suðurlands hafa heimsótt Hraunbúðir og fundað með starfsfólki. Lögð er áhersla á að starfsfólk, íbúar og aðstandendur verði fyrir sem minnstum áhrifum af þessum breytingum.

Í dag fundaði undirrituð svo með heimilisfólki Hraunbúða þar sem yfirfærslan var rædd, farið yfir málin og gefið svigrúm til spurninga. Heimilisfólk var ánægt með að hafa áfram sama starfsfólkið og greinilegur léttir sem því fylgdi.

Oft verða breytingar til góðs og fela í sér jákvæð tækifæri, ég trúi því að það góða fólk sem stjórnar nú HSU muni leggja sig fram um að veita mannauðnum á Hraunbúðum tækifæri til að dafna og vaxa í starfi. Ef það tekst getum við verið viss um að okkar mjög svo kæru íbúar muni njóta þess áfram að líða vel á sínu heimili við sem besta umönnun og í skemmtilegum félagsskap, segir í grein Sólrúnar Erlu Gunnarsdóttur, deildarstjóra í öldrunarmálum hjá Vestmannaeyjabæ.

 

Mannlíf og saga - hlaðvarp

2.Mars'21

Fylgstu með hlaðvarpinu Mannlíf og saga. Nýr þáttur kemur út á hverjum fimmtudegi og er hlaðvarpið aðgengilegt hér á Eyjar.net og einnig á helstu veitum, svo sem Spotify. Sjá nánar hér...

Fréttaskot - Eyjar.net

31.Janúar'18

Ertu með athyglisverða ábendingu eða frétt?
Sendu okkur línu á eyjar@eyjar.net - Fyllsta trúnaðar gætt.

Fáðu nýjustu fréttirnar beint í æð

10.September'18

Með því að fylgja Eyjar.net færðu nýjustu fréttirnar frá Eyjum beint í æð. Smelltu hér til að fara á facebook-síðu Eyjar.net.