Bæjarráð samþykkir samkomulag um yfirfærslu reksturs Hraunbúða

30.Mars'21 | 17:52
ellihe

Hraunbúðir. Ljósmynd/TMS

Í dag voru lögð fyrir bæjarráð Vestmannaeyja drög að samkomulagi heilbrigðisráðuneytisins og Vestmannaeyjabæjar um störf og réttarstöðu starfsfólks við yfirfærslu dvalar- og hjúkrunarheimilisins Hraunbúða til Heilbrigðisstofnunar Suðurlands.

Í samkomulagsdrögunum er gert ráð fyrir að Heilbrigðisstofnun Suðurlands taki við þjónustunni þann 1. maí 2021 og öllu starfsfólki Hraunbúða boðin áframhaldandi störf á stofnuninni. Jafnframt er tryggt að engum verði boðin lægri krónutala í mánaðarlaun en hann hafði í starfi sínu á Hraunbúðum undir umsjón Vestmannaeyjabær. Heilbrigðisstofnun Suðurlands mun ábyrgjast að öll áunnin starfsréttindi starfsfólks sem flyst frá Vestmannaeyjabæ til stofnunarinnar fylgi. Nýir ráðningarsamningar munu endurspegla þessa ákvörðun að höfðu samráði við viðkomandi stéttarfélög.

Samkomulagsdrögin liggja fyrir til samþykktar og undirritunar.

Í afgreiðslu ráðsins segir að bæjarráð samþykki umrætt samkomulag um störf og réttindi starfsfólks við yfirfærslu reksturs Hraunbúða til Heilbrigðisstofnunar Suðurlands. Bæjarráð er enn þeirrar skoðunar að lög um réttarstöðu starfsfólks við aðilaskipti að fyrirtækjum nr. 72/2002, hefðu átt að gilda um tilflutninginn, en í ljósi harðrar afstöðu heilbrigðisráðuneytisins um að svo sé ekki og til þess að eyða óvissu, er bæjarráð reiðubúið að samþykkja samkomulagið.

Með samkomulaginu eru starfsfólki tryggð áframhaldandi störf á sömu mánaðarlaunum og áunnin réttindi flytjast milli aðila. Þessi atriði skipta meginmáli fyrir starfsfólk við yfirfærsluna og eru sambærileg ákvæðum aðilaskiptalaganna. Bæjarstjóra er falið að staðfesta samninginn f.h. Vestmannaeyjabæjar.

Samkomulagið verður birt þegar búið er að kynna það starfsfólki Hraunbúða, segir í fundargerð bæjarráðs.

Fáðu nýjustu fréttirnar beint í æð

10.September'18

Með því að fylgja Eyjar.net færðu nýjustu fréttirnar frá Eyjum beint í æð. Smelltu hér til að fara á facebook-síðu Eyjar.net.

Mannlíf og saga - hlaðvarp

2.Mars'21

Fylgstu með hlaðvarpinu Mannlíf og saga. Nýr þáttur kemur út á hverjum fimmtudegi og er hlaðvarpið aðgengilegt hér á Eyjar.net og einnig á helstu veitum, svo sem Spotify. Sjá nánar hér...

Má bjóða þér að auglýsa hér?

23.Júní'22

Hér má auglýsa allt milli himins og jarðar! Sendu línu á auglysingar@eyjar.net og saman finnum við lausn sem hentar þér.