Deilt um hvort verkferill við ráðningu hafnarstjóra hafi verið faglegur og skýr

26.Mars'21 | 17:15
20210324_144712

Vestmannaeyjahöfn. Ljósmynd/TMS

Á fundi bæjarstjórnar Vestmannaeyja í gærkvöldi var töluverð umræða um hafnarstjórastöðu sem ráðið var í, í síðustu viku.

Bæði meiri og minnihlutinn lögðu fram nokkrar bókanir um málið þar sem tekist var á um hvort ferlið sem farið var í, hafi verið faglegt.

Segja faglega staðið að ráðningarferlinu

Í bókun frá fulltrúum E og H lista segir að staða hafnarstjóra Vestmannaeyjahafnar hafi verið auglýst laus til umsóknar í byrjun febrúar sl. Fimm sóttu um starfið.

Leitað var ráðgjafar Hagvangs við úrvinnslu og mat umsókna. Að mati á umsóknum komu fyrir hönd Vestmannaeyjabæjar, framkvæmdastjóri stjórnsýslu- og fjármálasviðs, framkvæmdastjóri umhverfis- og framkvæmdasviðs og mannauðsstjóri. Faglega var staðið að ráðningarferlinu og þeir sem komu að því hafa allir reynslu af ráðningum.

Ítarlegt mat átti sér stað á umsækjendum, m.a. starfsviðtöl, leitað var umsagna, hluti umsækjenda var beðinn um að kynna sig, framtíðarsýn hafnarinnar o.fl. Jafnframt var lagt fyrir hluta umsækjenda persónuleikamat. Stuðst var við matsskema þar sem hæfnisþáttum var gefið ákveðið vægi og umsækjendur metnir út frá því.

Niðurstöður matsins voru þær að Dóra Björk Gunnarsdóttir var metin hæfust af umsækjendum.

Athugasemdir komu fram eftir að það var ljóst hver yrði ráðinn hafnarstjóri

Á fundi framkvæmda- og hafnarráðs þann 16. mars sl., kynnti sérfræðingur Hagvangs ráðningarferlið, matið og niðurstöðu matsins fyrir ráðinu. Í framhaldi ákvað framkvæmda- og hafnarráð að ráða Dóru Björk í stöðu hafnarstjóra.

Fundi framkvæmda- og hafnarráðs var seinkað einu sinni á tímabilinu vegna þess að enn var verið að vinna í ráðningarferlinu. Engin nefndarmaður gerði athugasemd við það. Engin ósk kom frá fulltrúum minnihlutans í ráðinu frá því að starfið var auglýst; um aðkomu eða breytingu á ferlinu, um lengri tíma, um betri yfirferð, um fleiri gögn eða frest til að ráða í starfið.

Athugasemdir komu fram eftir að það var ljóst hver yrði ráðinn hafnarstjóri, segir í fyrstu bókun meirihlutans.

Engin athugasemd kom fram við sama ferli á öðrum ráðningum

Í annari bókun frá fulltrúum E og H lista segir að á þessu kjörtímabili hafi meðal annars verið ráðið í stöðu skólastjóra tónlistarskólans, fjármálastjóra og mannauðsstjóra. Faglegt ferli hefur verið við allar þessar ráðningar sem byggir á verklagsreglum um ráðningarferli Vestmannaeyjabæjar, sama faglega ferli og viðhaft var við ráðningu á hafnarstjóra. Það skýtur því skökku við að fulltrúar minnihlutans í ráðinu og í bæjarstjórn gagnrýni vinnu starfsfólks og ráðningaskrifstofu með þessum hætti þegar engin athugasemd kom við ráðningum sem nefndar eru hér að ofan.

Segja að vikið hafi verið frá samþykktum hæfniskröfum starfshóps um skipulag hafnarinnar

Í kjölfar bókanna meirihlutans var lögð fram bókun frá fulltrúum Sjálfstæðisflokksins. Þar segir að samkvæmt reglugerð um Vestmannaeyjahöfn á hafnarstjórn að skipa hafnarstjóra. Þrátt fyrir það hefur hafnarstjórn Vestmannaeyjahafnar ekki farið með það verkefni og tók ekki ákvörðun um að auglýsa starfið eða fela ráðningarskrifstofu það verkefni.

Hæfniskröfur hafnarstjóra voru útlistaðar í minnisblaði starfshóps sem fjallaði um framtíðarskipulag hafnarinnar og samþykkt var í febrúar á síðasta ári. Þegar starf hafnarstjóra var auglýst af Vestmannaeyjabæ var fallið frá þeim hæfniskröfum um starf hafnarstjóra sem búið var að samþykkja í bæjarstjórn. Auglýstum hæfniskröfum var síðan skipt upp í kvarða þar sem hver kvarði er metin eftir huglægum hlutföllum. T.d. er reynsla af hafnarstjórn lítið metin á meðan háskólamenntun hafði hátt vægi.

Hafnarstjórn kom aldrei að ákvörðun um þessi matshlutföll á hæfniskröfum þrátt fyrir að eiga reglum samkvæmt að skipa hafnarstjóra. Málsmeðferðin er því ótrúverðug og óheppileg, þar sem vægið var ekki kynnt fyrirfram og í raun vikið frá samþykktum hæfniskröfum starfshóps um skipulag hafnarinnar, segir í bókun minnihlutans.

Að fara gegn samþykktum og breyta hæfniskröfum er ekki faglegur og skýr verkferill

Í annari bókun frá bæjarfulltrúum Sjálfstæðsflokksins sem var sett fram sem mótbókun við bókun 2 frá fulltrúum E og H lista segir að hvergi hafi komið fram gagnrýni á starfsfólk sveitarfélagsins. Hins vegar er hér að koma fram gagnrýni á pólitíska fulltrúa H- og E- lista. Það að fara gegn samþykktum og breyta hæfniskröfum er ekki faglegur og skýr verkferill.

Segja hafnarstjórn hafi sinnt sínu lögboðna hlutverki

Í bókun frá fulltrúum E og H lista (mótbókun við bókunum D lista) segir að meirihlutinn ítreki að farið var eftir verklagsreglum í ráðningaferlinu og hafnarstjórn sinnti sínu lögboðna hlutverki og réð hafnarstjóra eins og fram kemur í fundargerð.

Hæfniskröfum í auglýsingu breytt 

Í bókun frá fulltrúum D lista (mótbókun við bókunum E og H lista) segir að hafnarstjórn ákveði ekki að auglýsa starfið líkt og hafnarlög kveða á um. Hæfniskröfur í auglýsingu er breytt frá vinnu ráðsins. Ef meirihlutinn kallar þetta að fara eftir verklagsreglum er það miður.

Málið var samþykkt með fjórum atkvæðum fulltrúa E og H lista gegn þremur atkvæðum fulltrúa D lista. Útsendingu frá fundinum má sjá hér að neðan.

Fáðu nýjustu fréttirnar beint í æð

10.September'18

Með því að fylgja Eyjar.net færðu nýjustu fréttirnar frá Eyjum beint í æð. Smelltu hér til að fara á facebook-síðu Eyjar.net.

Má bjóða þér að auglýsa hér?

23.Júní'22

Hér má auglýsa allt milli himins og jarðar! Sendu línu á auglysingar@eyjar.net og saman finnum við lausn sem hentar þér.

Fréttaskot - Eyjar.net

31.Janúar'18

Ertu með athyglisverða ábendingu eða frétt?
Sendu okkur línu á eyjar@eyjar.net - Fyllsta trúnaðar gætt.