Hefur sent Vestmannaeyjabæ á sjöunda hundrað fyrirspurna og athugasemda

á rúmlega tveimur árum

24.Febrúar'21 | 07:25
vestmannaeyjab_pappir

Einn og sami maðurinn hefur sent Vestmannaeyjabæ 664 fyrirspurnir frá því í byrjun árs 2019. Ljósmynd/samsett

Einn og sami maðurinn hefur sent Vestmannaeyjabæ á sjöunda hundrað fyrirspurna á rúmlega tveimur árum. 

Eyjar.net sendi fyrirspurn til Vestmannaeyjabæjar þar sem óskað er eftir upplýsingum um fyrirspurnarfjölda og kostnað vegna þeirra.

Óverulegur fjöldi formlegra fyrirspurna berst frá fjölmiðlum

Hversu margar formlegar fyrirspurnir fær sveitarfélagið á ári frá einstaklingum annars vegar og fjölmiðlum hins vegar?

Upplýsingakerfi Vestmannaeyjabæjar halda ekki sérstaklega utan um fjölda óformlegra fyrirspurna frá einstaklingum og fjölmiðlum, en formlegar fyrirspurnir eru skráðar í kerfin. Þær eru fyrst og fremst frá einum bæjarbúa, sem sendir Vestmannaeyjabæ árlega hundruðir fyrirspurna á grundvelli upplýsingalaga og athugasemdir. Óverulegur fjöldi formlegra fyrirspurna berst frá fjölmiðlum. Þær eru mismargar eftir málefnum líðandi stundar. Þar að auki eru einhver dæmi um það að fjölmiðlar beini fyrirspurnum til einstakra starfsmanna (sérstaklega bæjarstjóra) sem ekki eru alltaf skrásettar í upplýsingakerfi bæjarins.

Aðeins einn íbúi í Vestmannaeyjum sendir Vestmannaeyjabæ reglulega formlegar fyrirspurnir og athugasemdir. Alls sendi viðkomandi:

  • 363 fyrirspurnir og athugasemdir árið 2019
  • 247 fyrirspurnir og athugasemdir árið 2020
  • 54 fyrirspurnir og athugasemdir það sem af er árinu 2021.

Fram kemur í svari Vestmannaeyjabæjar að eftir að Vestmannaeyjabær tók í gagnið nýjan vef árið 2020, hefur beiðnum um upplýsingar frá fjölmiðlum minnkað til muna.

Áætla að kostnaðurinn við að svara umræddum íbúa hafi verið um 2,7 milljónir á tímabilinu

Er kostnaðarsamt fyrir sveitarfélagið að svara öllum fyrirspurnum sem berast?

Samkvæmt upplýsingalögum 140/2012, ber sveitarfélögum að veita almenningi aðgang að fyrirliggjandi gögnum sem varða tiltekið mál, með ákveðnum takmörkunum sem tilgreind eru í lögunum. Ekki er í öllum tilvikum verið að óska eftir aðgangi að gögnum, heldur svörum við spurningum og að koma fram athugasemdum.

Ekki hefur verið haldið sérstaklega utan um tíma starfsfólks við að svara umræddum erindum. Fyrirspurnirnar eru misflóknar. Stundum eru fleiri en ein spurning í hverju erindi og stundum þarf að fara í greiningu á gögnum til að svara. Ef miðað er við að vinna við hvert erindi sé um ein klst., þ.e. að taka á móti erindinu, skrá það í upplýsingakerfi bæjarins, koma því á viðkomandi starfsmann, leita upplýsinga, skrifa svarbréf, póstsenda það og ljúka skráningu málsins, má áætla að kostnaður Vestmannaeyjabæjar vegna vinnu við að svara umræddum íbúa hafi verið a.m.k. 1,5 m.kr. á árinu 2019, um 1 m.kr. á árinu 2020 og um 200 þús. kr. það sem af er þessu ári. Þá eru ótalin mál sem viðkomandi hefur kært til úrskurðarnefndar um upplýsingamál og samskipti nefndarinnar og Vestmannaeyjabæ tengdum þeim málum.

Sjá einnig: Fór fram á betra aðgengi að tölvum á Bókasafninu

Nú kom það fram í fjölmiðlum nýverið að úrskurðarnefnd um upplýsingamál hafi vísað frá kæru manns sem hafði farið fram á að nefndin úrskurðaði um hvort Vestmannaeyjabæ væri skylt að veita honum aðgang að tölvu og prentara til að nálgast skjöl og gögn á heimasíðu bæjarins. Enn fremur kom fram að viðkomandi hafi  lagt fram fjölda beiðna um aðgang að gögnum og upplýsingum hjá Vestmannaeyjabæ. Hversu margar fyrirspurnir áætlið þið að viðkomandi eigi af heildarfyrirspurnum sem berast bæjaryfirvöldum? 

Það heyrir til undantekninga að einstaklingar sendi Vestmannaeyjabæ formlegar fyrirspurnir á grundvelli upplýsingalaga, ef frá er talinn ofangreindur einstaklingur. Fyrirspurnir annarra einstaklinga eru oftast um afgreiðslu eða ákvarðanir bæjaryfirvalda á málum er varða þá sjálfa sem aðila máls. Flestir leita til bæjarins eftir aðstoð, leiðbeiningum, útskýringum eða upplýsingum með óformlegum hætti.

Meiraprófsbílstjóri óskast til starfa

29.Apríl'21

Óska eftir meiraprófsbílstjóra í vinnu sem fyrst - tímabundin vinna til 1. september.  Kranapróf kostur. Upplýsingar í síma 6600250, Magnús.

Mannlíf og saga - hlaðvarp

2.Mars'21

Nýtt hlaðvarp/podcast fer í loftið á fimmtudaginn 4. mars nk. Nýr þáttur kemur út á hverjum fimmtudegi og verður hlaðvarpið aðgengilegt á Eyjar.net ásamt helstu veitum svo sem Spotify og Youtube. Fylgstu með...

Ég vil gerast félagsmaður í Krabbavörn

17.September'19

Hver félagsmaður skiptir félagið miklu máli. Ef þið hafið áhuga á að gerast félagsmenn þá endilega fyllið út eyðublaðið (smelltu hér). Krabbavörn er góðgerðarfélag sem styður við og styrkir þá félagsmenn sem greinast með krabbamein og eiga lögheimili í Vestmannaeyjum. Ár hvert leita u.þ.b. 10 nýir einstaklingar til félagsins eftir styrkjum og um 25 einstaklingar fá einhverskonar fjárstuðning frá félaginu á hverju ári. Árgjaldið er aðeins kr. 2500,-

Tungumálafólk óskast til vinnu sem túlkar

10.Maí'21

Alþjóðasetur leitar að fólki í Vestmannaeyjum til starfa sem túlkar.  Góð kunnátta á móðurmáli og íslensku er skilyrði, auk góðrar færni í mannlegum samskiptum, stundvísi, háttvísi og trúnaður.  Starfið er unnið í verktöku og ráðast laun af fjölda verkefna. Vinnutími er frjáls og sniðinn að óskum hvers og eins.  Boðið er upp á gjaldfrjálst starfsþjálfunarnámskeið áður en störf hefjast. Umsókn ásamt ferilskrá sendist á asetur@asetur.is