Ljósleiðari einnig lagður í frístundabyggð

1.Febrúar'21 | 07:30
ljosleidari_thjotandi

Fyrirtækið Þjótandi hefur undanfarnar vikur sinnt jarðvegsvinnu vegna ljósleiðaralagningar í dreifbýli. Ljósmynd/TMS

Vestmannaeyjabær hefur hafið framkvæmdir við lagningu ljósleiðara í dreifbýli. Þar sem ekkert fyrirtæki í fjarskiptaþjónustu hafði áhuga á að ljósleiðaravæða dreifbýlið, fékk Vestmannaeyjabær styrk úr verkefninu “Ísland ljóstengt". 

Fyrirtæki í fjarskiptaþjónustu hafa hins vegar lýst yfir áhuga á samstarfi eða þátttöku um lagningu ljósleiðara í þéttbýli. Fram kom á bæjarstjórnarfundi á fimmtudaginn sl. að rætt verði við þá aðila þegar undirbúningur framkvæmda í þéttbýli hefst.

Þrátt fyrir að Vestmannaeyjabær hafi fengið úthlutað fjárstyrk mun taka nokkur ár að afla tekna fyrir fjárfestingunni, en þær tekjur koma aðallega inn í formi línugjalda. Til þess að hægt sé að ljósleiðaravæða dreifbýli er þörf á þolinmóðu fjármagni frá sveitarfélaginu.

Lagt er upp með að leggja svokallað p2p kerfi þar sem hvert staðfang (heimilisfang) fær ljósþráð sem nær óslitið frá staðfangi niður í aðra af miðjum ljósleiðarakerfisins. Miðjur ljósleiðarakerfisins eru við Ráðhúsið við Stakkagerðistún og í Hamarsskóla.

Markmiðið er að byggja kerfið þannig upp að það nýtist sem best og standist tímans tönn

Umrætt kerfi gerir það að verkum að hægt er að starfrækja allar útfærslur af ljósleiðarakerfum sem þekktar eru í dag. Það verður alfarið í höndum þjónustuveitunnar að ákveða hvaða lausn verður fyrir valinu. Markmiðið er að byggja kerfið þannig upp að það nýtist sem best og standist tímans tönn.

Kerfið verður opið netkerfi þar sem að þjónustuveitur geta fengið aðgang gegn eðlilegu gjaldi og geta þannig boðið upp á alla þá rafrænu þjónustu sem þarfnast ljósleiðara.

Með lagningu ljósleiðara í dreifbýli opnast sá möguleiki að leggja jafnframt ljósleiðara í frístundabyggðina við Ofanleiti. Frístundabyggð er ekki styrkhæf og því verða eigendur þeirra húsa að greiða fyrir lagningu ljósleiðara að húsunum.

Tengigjald fyrir húsnæði í frístundabyggð verði 150.000 kr.

Fram kemur í afgreiðslutillögu sem samþykkt með sjö samhljóða atkvæðum að bæjarstjórn samþykki að frístundabyggðin (sumarhúsabyggð) verði tekin með við lagningu ljósleiðara í dreifbýli (lögheimili utan þéttbýlis) og að tengigjald fyrir húsnæði í frístundabyggð verði 150.000 kr. Auk þess samþykkir bæjarstjórn að ekki verði innheimt tengigjöld fyrir ljósleiðara í dreifbýli. Ljósleiðarakerfi í dreifbýli verði rekið sem deild innan Vestmannaeyjabæjar og að aðgangur fjarskiptafélaga verði óheftur, þ.e. að öllum fyrirtækjum í fjarskiptaþjónustu bjóðist aðgangur að kerfinu gegn eðlilegu gjaldi.

Huga þarf að öðru rekstrarfyrirkomulagi þegar framkvæmdir hefjast við lagningu ljósleiðara í þéttbýli. Bæjarstjórn felur framkvæmdastjóra umhverfis- og framkvæmdasviðs og umsjónarmanni tölvudeildar að kanna fyrirkomulag framkvæmda og reksturs ljósleiðara í þéttbýli (t.d. félagaform) og skila minnisblaði til bæjarstjórnar fyrir næsta fund hennar, þar sem lögð er fram kostnaðaráætlun fyrir verkefnið og tillaga um gjaldtöku fyrir tengingar.

Fáðu nýjustu fréttirnar beint í æð

10.September'18

Með því að fylgja Eyjar.net færðu nýjustu fréttirnar frá Eyjum beint í æð. Smelltu hér til að fara á facebook-síðu Eyjar.net.

Má bjóða þér að auglýsa hér?

23.Júní'22

Hér má auglýsa allt milli himins og jarðar! Sendu línu á auglysingar@eyjar.net og saman finnum við lausn sem hentar þér.

Mannlíf og saga - hlaðvarp

2.Mars'21

Fylgstu með hlaðvarpinu Mannlíf og saga. Nýr þáttur kemur út á hverjum fimmtudegi og er hlaðvarpið aðgengilegt hér á Eyjar.net og einnig á helstu veitum, svo sem Spotify. Sjá nánar hér...