Eftir Alfreð Alfreðsson:

Hvenær verður sagan saga?

26.Janúar'21 | 12:00
image (1)

Á Síldarminjasafninu á Siglufirði eru íslenskir eikarbátar liggjandi við bryggju innanhúss.

Einhvern tímann var mér sagt að við endurbyggingu Landlystar hafi einungis þrjár af upphaflegu spítunum sem notaðar voru fyrir á annað hundrað árum verið notaðar. Samt erum við stolt af Landlyst og kynnum með andakt sögu fyrsta fæðingarheimilisins á Íslandi sem ennþá stendur.

Á Fáskrúðsfirði var gamli franski spítalinn endurbyggður fyrir örfáum árum síðan. Sú framkvæmd í heild sinni kostaði yfir tvo milljarða króna. Þar voru örfáar uppaflegra spítna notaðar. Spítalinn ásamt gamla kaupfélagshúsinu sem stendur hinum megin við götuna. Þar er rekið hótel og veitingasala.

Húsin eru tengd með neðanjarðargangi, en í honum er safn um sögu franskra sjómanna sem sigldu á Íslandsmið, en í votri gröf í hafinu kringum Ísland hvíla á fimmta þúsund franskir sjómenn. Þar má sjá hvað sjómennirnir þurftu að lifa við mikla vosbúð meðan á Íslandsveiðum stóð.

Sigldu stoltir á fleyjum sem feður, bræður og frændur höfðu smíðað

Fyrir 20 árum síðan sýndi Siggi heitinn í Bæ mér lista sem hann átti yfir öll vélskip sem smíðuð voru í Vestmannaeyjum á síðustu öld. Þau voru á annað hundrað. Eyjasjómenn síðustu aldar sigldu stoltir á fleyjum sem feður, bræður og frændur höfðu smíðað. Þeir bentu öðrum sjómönnum stoltir á og sögðu „þetta smíðum við“. En Snorrabúð er stekkur.

Líklega hafa öll okkar glæsilegu útgerðarfyrirtækja sem staðsett eru í Eyjum í dag skartað bátum smíðuðum í Eyjum á sínum uppgangstíma. Ekki er ólíklegt að heimasmíðað fley hafi verið þeim skárri kostur en sá að flytja inn en auk þess skapaði skipasmíðin störf. Þessi merkilega þekking gekk í arf mann fram af manni, en er nú því miður gleymd.

Litu sömu augum og við þegar við horfum á glæsifley eins og Sigurð, Heimaey og Huginn

Árið 1964 stjórnuðu framsýnir menn bæjarfélaginu. Þeir tóku þá ákvörðun að stofna náttúrugripasafn í Eyjum. Ekki fyrir túrhesta, því þá var hvergi að sjá, heldur til þess að ungviði eyjanna fengju að sjá það líf sem finna mátti í náttúru eyjanna. Þetta var glæsilegasta náttúrugripasafn landsins í áratugi.

Á Siglufirði er að finna síldarminjasafn á 2500 fermetra sýningarfleti í 5 byggingum. Þar er glæsilega að verki staðið. Þar eru íslenskir eikarbátar liggjandi við bryggju innanhúss ásamt nótabátum. Á Siglufirði búa 1206 sálir.

Frá Norðurlandi eru stundaðar hvalaskoðanir á gömlum eikarbátum sem gerðir hafa verið upp og eru glæsilegir. Tugþúsundir erlendra ferðamanna ferðast með þessum tímahylkjum.

Fyrir 20 árum var eikarbáturinn Blátindur gerður upp. Kennari í Vestmannaeyjum fór með nemendur sína um borð. Hverjar voru spurningarnar? Hvar er klósettið? Hvar er sturtan?

Það eina sem eftir er af Baldri sem kom frá Danmörku til Vestmannaeyja árið 1924, þá Merceses Benz bátaflotans, er dollan sem geymd er á byggðasafninu. Þeir eru ófáir rassarnir sem brugðu sér á dolluna og gerðu þarfir sínar. Þar fá ungmenni nútímans að kynnast því hvar salernið á þessum fleyjum sem Eyjamenn litu sömu augum og við þegar við horfum á glæsifley eins og Sigurð, Heimaey og Huginn.

Þegar gengið er inná söfnin okkar í Eyjum mætti halda að þaðan hafi aldrei verið stunduð útgerð

Í Herjólsdal er Herjólfsbær sem grotnar niður. Það eru ekki nema 15 ár síðan hann var byggður og síðan ekki söguna meir. Blátindur bíður örlaga sinna í Skipalyftunni. Tíminn hefur ekki farið vel með hann þó svo hann hafi fengið andlitslyftingu fyrir 20 árum.

Á skrifstofu sinni á Flötunum situr Þórður Rafn og safnar munum frá útgerðarsögu Vestmannaeyja frá síðustu öld. Enginn annar gerir það. Þegar gengið er inná söfnin okkar í Eyjum mætti halda að þaðan hafi aldrei verið stunduð útgerð. Finnst engum ástæða til þess að við gerum þessari sögu okkar skil? Á hún það ekki skilið?

 

Alfreð Alfreðsson

 

Mannlíf og saga - hlaðvarp

2.Mars'21

Fylgstu með hlaðvarpinu Mannlíf og saga. Hlaðvarpsþættirnir eru aðgengilegir hér á Eyjar.net og einnig á helstu veitum, svo sem Spotify. Sjá nánar hér...

Má bjóða þér að auglýsa hér?

23.Júní'22

Hér má auglýsa allt milli himins og jarðar! Sendu línu á [email protected] og saman finnum við lausn sem hentar þér.

Fáðu nýjustu fréttirnar beint í æð

10.September'18

Með því að fylgja Eyjar.net færðu nýjustu fréttirnar frá Eyjum beint í æð. Smelltu hér til að fara á facebook-síðu Eyjar.net.

Smáauglýsingar

Hér getur þú með einföldum hætti auglýst það sem þú þarft að koma á framfæri allt frá einum sólarhring uppí einn mánuð. Einfaldur greiðslumáti Þú greiðir fyrir auglýsinguna með kreditkorti. Verð kr. 500,- per sólarhring. Um auglýsinguna Stutt fyrirsögn, hámark 35 tákn. Hnitmiðaður texti, hámark 130 tákn. Mynd á JPG sniði, verður sköluð í 130x100 díla (pixel).