Gert að fjarlægja hluta af bílaplani, vegslóða og aðkomu umhverfis viðbyggingu

25.Janúar'21 | 08:50
hofdabol

Ráðið samþykkti að veita heimild fyrir stækkun á gámageymslu við Höfðaból.

Á fundi umhverfis- og skipulagsráðs í síðustu viku var tekið fyrir að nýju að lokinni grenndarkynningu umsókn um innkeyrslu og stækkun á geymslu við Höfðaból.

Sótt var um leyfi fyrir aðkomu að Höfðabóli um veg norðan við Steinsstaði til að bæta aðkomu íbúa að húsinu. Einnig var óskað eftir leyfi fyrir stækkun á gámageymslu, með viðbótargám við þann sem fyrir er, í vesturmörkum lóðar.

Fram kemur í fundargerðinni að þrjú bréf hafi borist ráðinu.

„Fyrirhugaðar framkvæmdir” hafi þegar átt sér stað

Í einni athugasemdinni segir m.a. að eigendur 1. hæðar Höfðabóls geri alvarlegar athugasemdir og samþykkja alls ekki að í framhaldi vegaslóða upp að efri hæð Höfðabóls sé gerður vegslóði austan við Höfðaból, á milli Höfðabóls og Suðurgarsðs, sem fari niður fyrir Höfðaból í suðaustur og inn á lóð 1. hæðar. Sá vegslóði hefur verið lagður án leyfis og algerlega í andstöðu við eigendur neðri hæðar höfðabóls. ( Sjá meðfylgjandi loftmynd sem fylgir póstinum). Vegaslóðinn er sagður vera vinnuvegur á meðan verið var að vinna við neðri hæðina en mikilvægt að hann sé 2 fjarlægður og settur þverveggur uppi til að fyrirbyggja að ekið sé niður. Þar niðri eru svefnherbergisgluggar neðri hæðar og algerlega ófært að þar séu bílstæði eða akstursleið. 

Í öðru bréfi segir m.a. að í bréfi umhverfis- og framkvæmdasviðs Vestmannaeyjabæjar komi fram að um „Fyrirhugaðar framkvæmdir” sé að ræða. Öllum sem til þekkja er ljóst að umræddar framkvæmdir hafi þegar átt sér stað. Á öðrum stað í sama bréfi segir það vekja furðu ef skipulagsyfirvöld samþykki að aflagðir úrsérgengnir vörugámar skuli samþykktir sem geymslurými á stað sem þessum.

Telja að breytingar séu ógildanlegar

Í þriðja bréfinu er málið rakið ítarlega og farið yfir försögu málsins áður en að komið er að andmælum. Í andmælunum segir að það sæti furðu að svo mikilsverðum breytingum hafi verið laumað fram hjá lóðarsamningshafa og verður að telja að gæta þyrfti að því að vekja sérstaka athygli viðsemjanda á slíkri breytingu og í það minnsta að setja breytinguna ekki fram með svo óglöggum hætti sem hér um ræðir.

Vandséð er hvaða forsendur hafi getað legið að baki því að taka þessa spildu úr landi Suðurgarðs, eina sem getur áunnist af því er að gera stöðu ábúenda á Suðurgarði erfiðara fyrir með að standa í vegi fyrir gerð varanlegs vegar þar sem slóðinn nú liggur. Breytingin virðist því eingöngu hafa verið gerð til þess að þjóna hagsmunum ábúenda Höfðabóls.

Telja ábúendur á Suðurgarð að þær breytingar sem gerðar voru á lóðarmörkum með lóðarleigusamningnum frá 2018 séu ógildanlegar m.a. með vísan til 36. gr. samningalaga og beri því að líta fram hjá þeim og telja umþrætta spildu áfram til Suðurgarðslandsins. Á þeim forsendum ber þá þegar að hafna leyfisbeiðninni enda liggur ekki fyrir samþykki lóðarsamningshafa að Suðurgarði fyrir varanlegum vegi og engum slíkum þinglýstum umferðarrétti er til að dreifa. Jafnframt er vegurinn ekki nauðsynlegur Höfðabóli enda liggur land Höfðabóls meðfram þjóðveginum og þegar eru til staðar innkeyrslur að Höfðabóli um Höfðabólsland.

Það athugast að á næstu dögum verður Vestmannaeyjabæ send rökstudd krafa um að lóðarmörkum Suðurgarðs verði breytt til fyrra horfs.

Burtséð frá lóðarmörkum telja ábúendur Suðurgarðs að synja eigi um veitingu leyfisins á grundvelli nábýlisréttar. Líta verði til þess að lagning vegar á þessu vegstæði er ekki nauðsynleg ábúendum Höfðabóls líkt og að ofan greinir. Líta verði til þess mikla óhagræðis sem ábúendur nærliggjandi lóða verða fyrir og benda ábúendur á Suðurgarði sérstaklega á það hversu nálægt íbúðarhúsinu vegurinn liggur. Slóðinn sem fyrir er hefur þegar verið nýttur umfram það sem heimilað var og umfram það sem ætla mætti að einu íbúðarhúsi, þar eru oft og iðulega fjöldi ökutækja þannig að ekki er eingöngu ónæði af umferð heldur einnig veruleg sjónmengun af samansafni tækja. Frá því að leyfi var veitt til bráðabirgða hefur verið bætt við einni íbúð að Höfðabóli og mun reyndar eftir því sem ábúendum Suðurgarðs skylst stand til að innrétta þar tvær íbúðir til viðbótar.

Það eru því allar líkur á að umferðarþungi muni aukast enn frekar og þá sérstaklega um hinn umþrætta veg. Telja ábúendur Suðurgarðs að það hagsmunamat sem þarf að fara fram, á grundvelli nábýlisréttarins eigi ávallt að leiða til þess að umsókn um leyfi verði synjað. Þannig er augljóst óhagræði af því að leiða umferð svo nálægt íbúðarhúsi ábúenda Suðurgarðs ljóslega verulegt meira en það óhagræði sem ábúendi Höfðabóls hefur af því að láta sér duga innkeyrslu um land Höfðabóls og geti þá frekar ef hann telji sig þurfa veg niður fyrir húsið að Höfðabóli að hann óskað leyfis til þess að leggja veginn meðfram sínu eigin húsi, frekar en húsum nágrannanna.

Með vísan til alls ofangreinds telja ábúendur Suðurgarðs að synja eigi um leyfi til lagningu vegar. Þá andmæla ábúendur Suðurgarðs jafnframt því að veitt verði leyfi fyrir stækkun gámageymslu, þ.e. að bæta einum gámi við þann sem fyrir er. Telja ábúendur mikið lýti af gámunum og ótækt að heimila slík varanleg gámastæði. Sveitarfélög almennt veita ekki varanleg stöðuleyfi fyrir gámum og þá sérlega ekki í íbúðabyggð og er almennt lögð áhersla á að veita ekki stöðuleyfi til lengri tíma en nauðsynlegt er til framkvæmda sem viðkomandi gámur tengist. Það er slæmt fordæmi að hafa veitt leyfi fyrir upphaflega gámnum og verði þessi stækkun samþykkt hlýtur þá að vakna sú spurning hvort Vestmannaeyjingum verði almennt veittar heimildir til að koma gámum fyrir á sýnum lóðum, varanlega hvað sem smekk nágrannanna líður. 

Veita heimild fyrir stækkun á gámageymslu og tímabundið leyfi fyrir nýrri aðkomu

Í niðurstöðu umhverfis- og skipulagsráðs segir að ráðið samþykki að veita heimild fyrir stækkun á gámageymslu með þeim fyrirvara að snyrtilega sé gengið frá umhverfi viðbyggingar og skal framkvæmdum lokið eigi síðar en 1 júní 2021, umhverfis frágangur skal vera með sama hætti og við gámageymslu sem fyrir er.

Ráðið gefur tímabundið leyfi fyrir nýrri aðkomu að Höfðabóli. Hins vegar skal umsækjandi fjarlægja hluta af bílaplani, vegslóða og aðkomu umhverfis viðbyggingu og færa lóðina til fyrra horfs samanber uppdráttur umhverfis- og framkvæmdasviðs dags. 21.1.2021. Tímabundið leyfi er til 12 mánaða með vísan í umsókn dags. 1.12.2020.

Ráðið felur starfsmönnum umhverfis- og framkvæmdasviðs framgang málsins.

Mannlíf og saga - hlaðvarp

2.Mars'21

Fylgstu með hlaðvarpinu Mannlíf og saga. Hlaðvarpsþættirnir eru aðgengilegir hér á Eyjar.net og einnig á helstu veitum, svo sem Spotify. Sjá nánar hér...

Fáðu nýjustu fréttirnar beint í æð

10.September'18

Með því að fylgja Eyjar.net færðu nýjustu fréttirnar frá Eyjum beint í æð. Smelltu hér til að fara á facebook-síðu Eyjar.net.

Má bjóða þér að auglýsa hér?

23.Júní'22

Hér má auglýsa allt milli himins og jarðar! Sendu línu á [email protected] og saman finnum við lausn sem hentar þér.

Smáauglýsingar

Hér getur þú með einföldum hætti auglýst það sem þú þarft að koma á framfæri allt frá einum sólarhring uppí einn mánuð. Einfaldur greiðslumáti Þú greiðir fyrir auglýsinguna með kreditkorti. Verð kr. 500,- per sólarhring. Um auglýsinguna Stutt fyrirsögn, hámark 35 tákn. Hnitmiðaður texti, hámark 130 tákn. Mynd á JPG sniði, verður sköluð í 130x100 díla (pixel).