Fresta afgreiðslu deiliskipulags

22.Janúar'21 | 17:08
20201020_091702

Til stendur að byggja fjölbýlishús á Sólhlíð. Ljósmynd/TMS

Þrjú bréf bárust umhverfis- og skipulagsráði Vestmannaeyja vegna deiliskipulags austurbæjar við miðbæ, sem nú er í vinnslu. Málið var tekið fyrir á fundi ráðsins í gær, fimmtudag.

Fram kemur í fundargerðinni að lögð hafi verið fram að nýju að lokinni auglýsingu, tillaga af deiliskipulagi fyrir norðurhluta austurbæjar við miðbæ. Tillagan var auglýst samkvæmt skipulagslögum þann 7. des. 2020 með athugasemdafresti til 18. jan. 2021. Þrjú bréf bárust.

Mætti íhuga að breyta nafni götunnar

Í athugasemdum bréfritara segir m.a að gert sé ráð fyrir að stærri byggingin muni rísa alveg við götuna (Sólhlíð). Það er því verið að reisa 9 metra háan vegg við götuna og um 50 metra langan. Mun þetta breyta götumyndinni mikið. Jafnvel mætti íhuga að breyta nafni götunnar.

Þá er bent á að áætlað byggingarmagn sé gífurlega mikið á ekki stærri lóð. Talað er um að byggingamagn sé svipað og við Sólhlíð 19, en það stenst engan veginn. Þar eru 12 litlar íbúðir og stærð hússins er um 800 fermetrar. Áætlað byggingarmagn við Sólhlíð 4 er aftur á móti 3.500 fermetrar og íbúðirnar þar verða 18-20 talsins. Í raun ætti frekar að bera byggingarmagn saman við sjúkrahúsið sem stendur við Sólhlíð 10, en það er um 4.200 fermetrar og stendur það á miklu stærri lóð.

Segja skipulagsskilmála ekki fullnægjandi

Þá er í öðru bréfi gerðar athugasemdir við skipulagsskilmála vegna flutnings húss sem nú stendur við Kirkjuveg 35. Til stendur, samkvæmt nýja skipulaginu að flytja það á Kirkjuveg 29.

Þar vilja bréfritarar meina að skilmálar fyrir lóðina séu alls ekki fullnægjandi. Það vanti t.d ákvæði um fjölda hæða, þakgerð, hvort gert sé ráð fyrir risi á húsinu og þá mænistefnu og mænishæð. Eiga að vera kvistir, hver er stærð þeirra og staðsetning. Þá er spurt hvort gert sé ráð fyrir kjallara.

Vill frekari frest fyrir athugasemdir og jafnvel kæru

Í þriðja bréfinu var svo óskað eftir að málinu yrði frestað svo að bréfritari hefði meiri tíma til að koma að frekari athugasemdum og jafnvel kæru á bæjaryfirvöld í framhaldi. Segir í bréfinu að það ráðist fljótlega eftir fund við bæjarstjórn og bæjarráð sem bréfritari hefur lengi óskað eftir.

Í afgreiðslu ráðsins segir að ráðið fresti afgreiðslu erindis og veitir frest til 8. febrúar til að skila inn athugasemdum. Skipulagsfulltrúa er falið að upplýsa bréfritara um bókun fundar.

 

Mannlíf og saga - hlaðvarp

2.Mars'21

Fylgstu með hlaðvarpinu Mannlíf og saga. Nýr þáttur kemur út á hverjum fimmtudegi og er hlaðvarpið aðgengilegt hér á Eyjar.net og einnig á helstu veitum, svo sem Spotify. Sjá nánar hér...

Má bjóða þér að auglýsa hér?

23.Júní'22

Hér má auglýsa allt milli himins og jarðar! Sendu línu á auglysingar@eyjar.net og saman finnum við lausn sem hentar þér.

Fáðu nýjustu fréttirnar beint í æð

10.September'18

Með því að fylgja Eyjar.net færðu nýjustu fréttirnar frá Eyjum beint í æð. Smelltu hér til að fara á facebook-síðu Eyjar.net.